Unnur G. Kristjánsdóttir „Teisa“ fæddist 14. janúar 1955. Hún lést 19. júní 2023. Minningarathöfn fór 30. september 2023.

Unnur/Teisa var næstelst okkar systkina. Margar minningar koma í kollinn þegar ég hugsa til Teisu systur minnar.

Hún var bóhem, töffari, kennari, leiðbeinandi, skapandi, skemmtileg, hugmyndarík, listhneigð, trú sinni sannfæringu, fylgdi sýnum hugsjónum og fór sínar eigin leiðir í lífinu.

Hún fór ung að heiman og alltaf var einhver ævintýraljómi yfir því þegar hún kom í heimsókn heim, fötin svo flott og hún nýstárleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Hún þurfti alltaf að hafa hlutina eftir sínu höfði, sama hvað öðrum fannst um. Vann á stöðum sem voru framandi í minningunni, virkjununum á Suðurlandi, sláturhúsi á Hellu, svo var hún komin á skattstofuna. Átti dásamlegar krúttlegar dætur sem ég fékk að passa þegar þær voru litlar, þær Maríu og Mundu.

Það var frábær skemmtun að fara með henni og Sturlu í veiði að hausti í Fossálum, standa á bakkanum í 10 cm snjó og þíða fluguna sem lenti í vatninu, ásamt óbilandi bjartsýni. Eins var skemmtilegt og alltaf fræðandi að fara með henni í utanlandsferð þegar henni
fannst ég þurfa á því að halda vegna minna aðstæðna. Og ef plan A gekk ekki var alltaf til vara B eða C eða D plan. En fyrst og fremst að vera saman og njóta.

Jafnframt var gaman að fara með henni og Úrsúlu og Dodda um hálendið, hún hafði frá svo mörgu að segja og þekkti allt svo vel. Aldrei var komið að tómum kofunum þar. Og aftur ef plan A virkaði ekki þá bara B-, C- eða D-plan. Ég er svo þakklát fyrir að hafa í gegnum árin getað leitað til hennar með alls konar og ekkert. Hún veitti alltaf af viskubrunni sínum. Eins var hún til í að ræða hvernig væri hægt að leysa þau verkefni sem komu á borðið okkar hver sem þau voru, létt eða erfið.

Við vorum góðar vinkonur og það var frábært að heimsækja hana til Danmerkur síðastliðið haust og svo í síðasta skiptið núna um síðustu páska, en ég get ekki fullþakkað minni fjölskyldu að senda mig þangað í heimsókn og vera með henni í viku, bara við tvær. Þá var margt rifjað upp og hlegið og grátið saman.

Ég sakna hennar en get yljað mér við minningar sem verða ekki teknar frá mér og okkur fjölskyldunni.

Guðrún litla systir, Þorgerður og Bjarni.