Ole Anton Bieltvedt
Ole Anton Bieltvedt
Áframhaldandi árásir og morð saklausra borgara og barna á Gasa og undirlægjuháttur við Ísraelsmenn er okkur Íslendingum til háborinnar skammar og smánar.

Ole Anton Bieltvedt

Að gefnu tilefni, ekki síst með tilliti til framkomu og hortugs tilsvars nýs utanríkisráðherra, Bjarna Benediktssonar, á blaðamannafundi Norðurlandaráðs í Osló 2. nóvember sl. skal á eftirfarandi bent:

António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna (SÞ), er fyrir undirrituðum einn mætasti stjórnmálamaður okkar tíma. Hann var lengi forsætisráðherra Portúgals, varð svo forstjóri flóttamannahjálpar SÞ í tíu ár og loks aðalritari SÞ 2017.

Í ávarpi sem hann hélt fyrir öryggisráði SÞ 24. október sl. sagði hann m.a. (í lauslegri þýðingu):

„Ástandið í Mið-Austurlöndum verður alvarlegra með hverjum klukkutímanum sem líður. Stríðið á Gasa geisar og það er hætta á að það breiðist út um allt svæðið … Á mikilvægu augnabliki sem þessu er mikilvægt að meginreglurnar séu skýrar. Grundvallarreglunni um að virða og vernda óbreytta borgara verður að fylgja! Ég hef með ótvíræðum hætti fordæmt hræðileg og fordæmalaus hryðjuverk Hamas í Ísrael 7. október. Ekkert getur réttlætt vísvitandi dráp, limlestingar og mannrán á almennum borgurum – eða eldflaugaárásir á borgaraleg skotmörk. Allir gíslar verða að fá mannúðlega meðferð og sleppa verður þeim tafarlaust og án skilyrða. Það er líka mikilvægt að viðurkenna að árásir Hamas áttu sér ekki stað í tómarúmi. Palestínska þjóðin hefur sætt þrúgandi hernámi í 56 ár (innlegg höfundar: frá 1967, en þá fór sex daga stríðið fram, þar sem Ísraelsmenn náðu yfirráðum yfir öllum Sínaískaganum, allri Jerúsalem, Gasaströndinni, Vesturbakkanum og Gólanhæðum auk fyrri svæða). Þeir hafa þurft að horfa upp á ofbeldisfulla töku húsa sinna, lands og byggða, efnahag sinn kæfðan og fólk sitt flutt nauðungarflutningum, flæmt á flótta og heimili þess rifin. Vonir þeirra um pólitíska lausn á vandanum hafa verið að hverfa. En umkvörtunarefni palestínsku þjóðarinnar geta ekki réttlætt skelfilegar árásir Hamas. Og þessar skelfilegu árásir geta ekki réttlætt sameiginlegar refsiaðgerðir gegn palestínsku þjóðinni. Jafnvel stríð hefur reglur: Gæta verður stöðugrar varúðar við hernaðaraðgerðir til að hlífa óbreyttum borgurum og virða og vernda sjúkrahús og friðhelgi hjálparathvarfa Sameinuðu þjóðanna, sem í dag veita meira en 600.000 Palestínumönnum skjól. Að vernda óbreytta borgara þýðir ekki að skipa meira en milljón manna að flýja til suðurs, þar sem ekkert skjól er, enginn matur, ekkert vatn, engin lyf og ekkert eldsneyti, og halda síðan áfram að sprengja sjálft suðurlandið.“

Svar Ísraelsmanna við þessari málefnalegu og yfirveguðu ræðu aðalritarans, þar sem fyrir mér fyllstu sanngirni og jafnræðis var gætt, var að þeir heimtuðu að Guterres segði af sér eða yrði rekinn úr embætti. Ofbeldis- og yfirgangshneigð!?

Í kjölfar þessa, þar sem Ísraelsmenn gerðu ekkert annað en að herða árásir á Gasasvæðið, limlesta þar og drepa almenna borgara, mikið börn, líka starfsmenn SÞ – 35 þeirra höfðu verið drepnir í sprengjuárásum Ísraelsmanna þegar Guterres hélt ræðuna – lagði Jórdanía fram þingályktunartillögu 27. október þar sem meginefnið var að tafarlausu vopnahléi yrði komið á á Gasa.

120 þjóðir greiddu atkvæði með þessari tillögum um tafarlaust vopnahlé, 14 þjóðir gegn og 45 þjóðir, þ. á m. Íslendingar, „sátu hjá“, að nafninu til vegna þess að ekki var sérstakt ákvæði þar sem Hamas-árásin væri fordæmd. Hjá þessum 45 þjóðum sem sátu hjá réð greinilega formið meiru en efnið sjálft, kjarni málsins. Er slíkt að mati undirritaðs háttur grunnhygginna manna.

Í mínum augum var þessi hjáseta, þetta „hlutleysi“ sem átti að vera en auðvitað ekkert var, auk þess fremur stuðningur við áframhaldandi árásir og morð saklausra borgara og barna á Gasa, undirlægjuháttur við Ísraelsmenn og þá sem að stóðu, m.a. okkur Íslendingum, til háborinnar skammar og smánar. Ábyrgðina ber auðvitað Bjarni Benediktsson – ekki gæfuleg byrjun það – en líka ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Af þeim þjóðum sem greiddu atkvæði með tafarlausu vopnahléi voru frændur okkar Norðmenn, Belgía, Frakkland, Sviss, Lúxemborg, Írland, Portúgal og Spánn, en þessum þjóðum er annt um sjálfstæða skoðun, reisn og virðingu við alþjóðleg lög og rétt. Þjóðir með bein í nefinu og manndóm. Það vekur athygli að meirihluti þeirra 13 ríkja sem greiddu atkvæði með Ísrael, gegn kröfunni um vopnahlé, eru ýmist óþekkt smáríki í Kyrrahafi eða ríki sem lítils eða einskis mega sín á alþjóðavettvangi: Fídji, Gvatemala, Marshalleyjar, Míkrónesía, Náúrú, Papúa Nýja-Gínea, Paragvæ, Tonga … Menn geta velt því fyrir sér hvert tilefnið var eða hvatningin til þess að þessi veigaminnstu ríki jarðar, sem þó hafa hvert eitt atkvæði á þingi SÞ, skuli hafa kosið með og fyrir Ísrael. Kannast þar einhver við handbragðið?

Höfundur er samfélagsrýnir.

Höf.: Ole Anton Bieltvedt