Fjölhæf Elín Hall er með óvenjumörg járn í eldinum þessi misserin og vinnur frá morgni til kvölds.
Fjölhæf Elín Hall er með óvenjumörg járn í eldinum þessi misserin og vinnur frá morgni til kvölds. — Ljósmynd/Gunnar Barki
Söng- og leikkonan Elín Hall er á svimandi hraðri uppleið um þessar mundir. Ferill hennar hófst með hvelli þegar hún hafnaði í þriðja sæti Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2015, 16 ára gömul, og aðeins sex árum síðar var hún tilnefnd til Íslensku…

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Söng- og leikkonan Elín Hall er á svimandi hraðri uppleið um þessar mundir. Ferill hennar hófst með hvelli þegar hún hafnaði í þriðja sæti Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2015, 16 ára gömul, og aðeins sex árum síðar var hún tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir fyrstu breiðskífu sína Með öðrum orðum. Nú hefur önnur breiðskífan, Heyrist í mér?, litið dagsins ljós en í millitíðinni tókst henni að ljúka leikaranámi við LHÍ, fastráða sig hjá Borgarleikhúsinu þar sem hún hefur túlkað Bubba Morthens í meira en tvö hundruð sýningum, leikið í kvikmyndum á borð við Lof mér að falla og Kulda og þá er ekki allt upp talið.

Morgunblaðið sló á þráðinn til Elínar fyrr í vikunni í tilefni af útkomu breiðskífunnar en það hittist svo á að Elín kemur fram á Iceland Airwaves í kvöld. Tónleikarnir verða í Fríkirkjunni og hefjast kl. 19.30.

Tvöföld vinna

Í fyrsta lagi fyrri plötunnar sem kallast Formáliheyrist þú segja: Veit ekkert hvað ég er að gera við líf mitt. Veistu það núna?

„Já, ég held að ég hafi fundið út úr því. Ég er mjög oft spurð hvort ég vilji frekar vera leikkona eða söngkona. Og ég hafði mjög miklar áhyggjur af þessu lengi. Að fólk gæti ekki séð mig fyrir sér sem bæði leikkonu og söngkonu því ég hef svo mikinn áhuga á hvoru tveggja. Svo fór ég í leikaranám og var í mikilli rannsókn við þetta þar til ég áttaði mig á því að þetta er sami hluturinn í grunninn. Þetta snýst allt um að segja sögur og hreyfa við fólki og eiga í samtali. Og það er það sem ég er að gera við mitt líf núna og tel mig mjög heppna að fá að gera það. Að fá að vinna við listir og vera eins konar farvegur fyrir sögur.“

Hvort heldurðu að fólk sem spyr þig að þessu eigi erfiðara með að samþykkja þig sem tónlistarkonu eða leikkonu?

„Það er mjög góð spurning. Ég veit það satt að segja ekki.“

Ókei, en á leikhúsið erfitt með að samþykkja þig sem tónlistarkonu?

„Nei, þeim finnst mjög skemmtilegt að setja mig í söngleikina sína,“ segir hún og hlær. „En það sem gerir þetta flókið er að þegar maður er að sanna sig á tveimur sviðum á sama tíma þá er þetta tvöföld vinna. Það koma alveg tímar þar sem mér finnst þetta hjálpa hvort öðru en líka tímar þar sem þetta hamlar. Það er líka skiljanlegt að fólk vilji setja mig í ákveðið box og hafa mig þar. En við erum reyndar fæst bara í einu hlutverki í þessu lífi þannig að ég held að ég sé ekkert ein um að glíma við þetta vandamál.“

Eins og vikið var að hér að ofan hefur Elín verið atkvæðamikil upp á síðkastið og með fjölmörg járn í eldinum. Við töldum upp Níu líf í Borgarleikhúsinu og þessa dagana er hún að æfa söngleikinn Eitruð lítil pilla sem einnig verður sýndur í Borgarleikhúsinu og er byggður á lögum Alanis Morrisette. Þar að auki er hún að gefa út plötu, æfa fyrir Airwaves og undirbúa útgáfutónleika sem planaðir eru í febrúar. Maður verður næstum því móður við að ímynda sér keyrsluna á henni.

„Einmitt. Svo var ég í tökum í sumar fyrir íslenska kvikmynd sem ég veit ekki hvort ég má segja frá en er mjög spennandi. En já, þetta er bara spurning um að skipuleggja sig vel. Platan hefur reyndar verið í vinnslu mjög lengi og ég hef þurft að fresta útkomu hennar nokkrum sinnum vegna anna þannig að þetta er allt spurning um að tímasetja sig rétt. En ég lýg því ekki að þessi klassíska hugmynd um að maður gerist listamaður svo maður þurfi ekki að vinna 9-5-vinnu er ekki sannleikanum samkvæm. Ég vinn 24 tíma sólarhrings. Man til dæmis ekki hvenær ég tók mér frí síðast til að fara í bústað og slaka á. En mér finnst þetta skemmtilegt og það hjálpar.“

Einkennandi hljóðheimur

En víkjum þá að tónlistinni. Fyrsta platan, Með öðrum orðum, kom út 2020 og er mjög frambærilegt byrjandaverk þar sem söngvaskáldið er í forgrunni. En á nýju plötunni er tekið stórt stökk fram á við, bæði hvað lagasmíðar og útsetningar varðar. Hér eru reyndar lög sem myndu enn flokkast undir söngvaskáldamúsík en nú er Elín einnig að reyna fyrir sér með hreinræktað popp, rafpopp og jafnvel rokk í allavega tveimur lögum.

Hvað vakti fyrir þér þegar þú hófst handa við þessa plötu?

„Meginþema plötunnar er drungi og það var það sem ég einbeitti mér að. Yrkisefnið er drungalegt og lögin urðu til á erfiðu tímabili, í covid þar sem eymd og kvíði var alltumlykjandi. Fyrsta platan er mjög hefðbundin að því leyti að það var engin tilraunastarfsemi með hljóðheim eða uppbyggingu á lögum. Svo tók við tilraunastarfsemi hjá okkur Reyni [Snæ Magnússyni] upptökustjóra og við vorum að þreifa fyrir okkur í að minnsta kosti ár þar til við duttum niður á þennan hljóðheim, sem mér finnst vera einkennandi fyrir mig og yrkisefnið og mínar lagasmíðar. En ástæðan fyrir því að fleiri tónlistarstílar eru á þessari plötu er einfaldlega sú að ég hlusta á alls konar tónlist og verð fyrir áhrifum frá ólíkum listamönnum.“

Áhrif Taylor Swift

Hvað varstu að hlusta á þegar þú varst að vinna þessa plötu?

„Ég var að hlusta á allt frá þjóðlagatónlist – gamli Bubbi eða Mugison – en líka á Radiohead og indí-rokk. Mammút til dæmis. Svo ólst ég upp við að hlusta á Taylor Swift og þaðan koma áhrifin á mína texta fyrst og fremst. Fyrir mér er það það mikilvægasta í lögunum. Textinn er hjarta lagsins. Ég kynntist því í fyrsta skipti frá henni að segja sögu og setja mig í hlutverk sögumanns. Hún er í raun fyrsta unga konan – hún var bara 14 ára þegar hún slær í gegn – sem varð allavega á mínum vegi sem setti söguna í forgrunn. En það er líka ástæðan fyrir því að ég vil vinna við leiklist því ég vil segja sögur. Og ég vil ekki semja lag nema það sé heildstæð hugmynd eða skýr saga sem lagið fær að túlka.“

Höf.: Höskuldur Ólafsson