Veiðimaður Eiður Pétursson hlýlega klæddur í lopapeysu, með haglabyssu á öxl og í hendi með feng dagsins.
Veiðimaður Eiður Pétursson hlýlega klæddur í lopapeysu, með haglabyssu á öxl og í hendi með feng dagsins. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Þegar snjólínan er hátt uppi er rjúpan langt inni á heiðum. Ganga þarf upp í 300-400 metra hæð til þess að finna fugl sem þá hefur gjarnan hópað sig saman í kjarrlendi eða í grjóti,“ segir Eiður Pétursson á Húsavík. Þar í bæ – eins og víða á Norður- og Austurlandi – eru margir veiðimenn sem núna eiga sína allra bestu daga á árinu.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Þegar snjólínan er hátt uppi er rjúpan langt inni á heiðum. Ganga þarf upp í 300-400 metra hæð til þess að finna fugl sem þá hefur gjarnan hópað sig saman í kjarrlendi eða í grjóti,“ segir Eiður Pétursson á Húsavík. Þar í bæ – eins og víða á Norður- og Austurlandi – eru margir veiðimenn sem núna eiga sína allra bestu daga á árinu.

Stofnstærð í sveiflum

Rjúpnaveiðitíminn hófst 20. október og stendur til 21. nóvember, að frátöldum miðvikudögum og fimmtudögum. Frásagnir sem borist hafa benda til að veiðin í ár sé góð og stofninn stór, þótt hann standi hugsanlega eitthvað veikar nyrðra en sunnanlands.

„Stofnstærðin gengur alltaf í sveiflum, að því er virðist, og nú er þetta í dýfu,“ segir Eiður. „Í vor sá maður í talsverðum mæli rjúpur með unga sína, sem virðast ekki hafa komist á legg enda komu kuldakaflar sem kunna að hafa valdið einhverjum afföllum. Raunin var sú sama í fyrra. Útkoman er því að hér er heldur minna um fugl en vænta hefði mátt. Eigi að síður virðast menn hér um slóðir hafa náð ágætri veiði.“

Eiður gekk til rjúpna strax fyrstu helgina í október þegar leyfilegt var að veiða og hefur farið nokkrum sinnum síðar. Ætlar svo aftur núna um helgina, ef veður leyfir. Hann fer gjarnan á rjúpnaslóð í Kelduhverfi og Öxarfirði. Annars eru æði margir mörguleikar í stöðu rjúpnamanna nyrðra. Sé veður gott eru menn tilbúnir að leggja talsvert mikið á sig og ganga langt inn á öræfi til að komast í veiði.

Forfallnir rjúpnakarlar

„Ég er sjálfur kominn með rjúpu í jólamatinn. Freistast þó til þess að fara í nokkur skipti því þetta er skemmtilegt. Dýrmætt er að geta notið landsins gæða svona. Og þetta er algjört fjölskyldusport; Guðmundur Ingi sonur okkar hjóna, sem er 15 ára, hefur farið með mér á rjúpu að undanförnu og sama gerir afi minn, Eiður Gunnlaugsson, orðinn 86 ára. Við erum forfallnir rjúpnakarlar,“ segir skyttan á Húsavík.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson