Rúnar Guðbjartsson
Rúnar Guðbjartsson
Að fá að hitta séra Friðrik og fá knús hjá honum … eru mér ógleymanlegar minningar.

Rúnar Guðbjartsson

Mér var brugðið við að lesa grein í Morgunblaðinu 27. október sl. Um samskipti ungs drengs við séra Friðrik Friðriksson. Mér ber skylda til að deila samskiptum mínum við séra Friðrik.

Árið er 1945 og er ég á 11. ári og í vikudvöl í Vatnaskógi hjá KFUM, hafði verið áður og líkað vel. Í þetta skipti var séra Friðrik Friðriksson með okkur alla vikuna og naut virðingar allra fyrir framkomu sína og góðvild í garð okkar drengjanna. Hann var duglegur að láta okkur syngja og lagið hans Áfram, Kristsmenn, krossmenn og mörg fleiri lög voru mikið sungin.

Yfir morgunmatnum einn daginn tilkynnti starfsmaður að séra Friðrik langaði mikið til að kynnast okkur drengjum betur en við værum svo margir að það væri ekki hægt.

Því hafði verið ákveðið að einum dreng frá hverju borði yrði boðið að heimsækja séra Friðrik í herbergið hans eftir hádegi þennan dag og mæta kl. 13.30 fyrir framan herbergið hans. Síðan benti starfsmaðurinn á einn dreng við hvert borð og sagði: Þú, þú og þú, og hann benti á mig líka, ætli við höfum ekki verið 5-6 drengir. Við drengirnir söfnuðumst saman fyrir framan herbergi séra Friðriks.

Þegar ég kom inn bauð séra Friðrik mér að setjast í kjöltu sína sem ég þáði, jú, hann var séra Friðrik góði. Hann tók þéttingsfast utan um mig og setti vangann sinn á minn vanga og knúsaði mig og strauk ekki ósvipað því sem faðir minn gerði við mig í mikilli gleði eða sorg. Hann ræddi við mig þó nokkra stund, spurði nafns og hvar ég ætti heima, hvað væri gaman og svo framvegis. Ég sagði honum að ég hefði veitt silung og þætti gaman að spila borðtennis og fleira í þeim dúr.

Þegar við fórum heim var keyrt til Akraness og farin sjóleiðin heim. Það var yndislegt sumarveður og sléttur sjór. Við drengjahópurinn og séra Friðrik fórum aftast í skipið og vorum þar úti. Nú syngjum við, drengir, sagði séra Friðrik og við sungum af krafti undir hans stjórn nánast alla leið til Reykjavíkur. Áfram, Kristsmenn, krossmenn var oft sungið ásamt fleiri lögum. Vöktum við athygli hjá hinum farþegunum sem höfðu greinilega gaman af.

Kæri lesandi. Þetta er fyrir löngu og hef ég safnað í textann hér að ofan minningabrotum frá þessum tíma. Til dæmis man ég ekki hvort ég fór tvisvar eða þrisvar í sumardvöl í Vatnaskóg og ég man ekki hvort ég var 10 ára eða 11 ára og fleira.

En að fá að hitta séra Friðrik og fá knús hjá honum og vera með honum að syngja á skipinu á þessu sumarkveldi eru mér ógleymanlegar minningar.

Höfundur er sálfræðingur og fyrrverandi flugstjóri.

Höf.: Rúnar Guðbjartsson