Halldóra Jónsdóttir fæddist 27. ágúst 1933 á Siglufirði og bjó þar síðan að undanskildum þremur árum þar sem hún dvaldi á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri. Hún lést á Hlíð 19. október 2023.

Foreldrar Halldóru voru (Hólmfríður) Sigurlaug Davíðsdóttir og Jón Þorkelsson. Þau höfðu bæði flutt ung til Siglufjarðar, Sigurlaug frá Hvammstanga og Jón úr Fljótunum. Sigurlaug saltaði síld í 42 sumur, Jón var skipstjóri, síldarmatsmaður og verkstjóri á bryggjum Síldarverksmiðja ríkisins.

Halldóra giftist Hannesi Pétri Baldvinssyni, f. 10.4. 1931, d. 25.1. 2015. Synir þeirra eru Jón Baldvin, f. 1953, maki Margrét Ingibjörg Ríkarðsdóttir, Björn Júlíus, f. 1954, maki Sigþrúður Ólafsdóttir, og Helgi Kristinn, f. 1965, maki Hulda Þyri Þráinsdóttir. Dóttir Hannesar og Gunnlaugar Steinunnar Sigurjónsdóttur er Ragna, f. 1951, maki Kristján Elís Bjarnason.

Halldóra vann tvö sumur á skrifstofum Síldarverksmiðja ríkisins áður en hún lauk námi frá Gagnfræðaskóla Siglufjarðar. Hún vann á Símanum á Siglufirði í tæp 20 ár og auk þess nokkur ár á pósthúsinu. Síðar vann hún á skrifstofu útgerðarfélagsins Þormóðs ramma í um 22 ár.

Auk þess að sjá um heimili var Halldóra virk í félagsstörfum. Hún var ein af stofnendum Kvennakórs Siglufjarðar, var stundum í stjórn kórsins, sá um myndasafn hans o.fl. Þá var hún í Sinawikklúbbnum, stundum í stjórn. Hún tók einnig virkan þátt í starfi Leikfélags Siglufjarðar til margra ára. Halldóra studdi starf vinstrimanna með ráðum og dáð. Halldóra og Hannes Pétur bjuggu allan sinn búskap á Siglufirði og lögðu sig fram um að gera veg staðarins sem mestan.

Útför fer fram frá Siglufjarðarkirkju í dag, 4. nóvember 2023, klukkan 14.

Fátækleg orð geta ekki lýst heilli ævi og því síður tilfinningum gagnvart þeim sem hefur gefið manni líf, kærleika og gleði. Móðir mín gaf mikið og hafði áhrif á marga, sterk kona með ríka réttlætiskennd og ákveðnar skoðanir.

Maður ber virðingu fyrir þeim sem gefa af sér, koma vel fram, styðja við og hvetja aðra. Fyrir það fékk mamma ómælda virðingu í lífinu. Hún var kraftmikil og dugleg, umhyggjusöm og hvetjandi, listræn og glaðlynd. Hún tók vel á móti fjölskyldu og vinum og gerði heimilið að notalegum og fallegum stað sem margir sóttust eftir að heimsækja til að njóta samvista og veitinga. Húmor var einkenni á samskiptunum og sögurnar sem sagðar voru margar og skemmtilegar. Síðustu árin, meðan mamma dvaldi á Hlíð á Akureyri, urðum við enn betri vinir, ræktuðum gleði og þakklæti fyrir hið góða og hlógum oft að fjölskyldusögunum og hinu ófullkomna í lífinu. Þessar stundir voru margar og dýrmætar.

Listamaðurinn Hadda sýndi ung hvers hún var megnug, það sást meðal annars á verkum sem hún vann í barna- og gagnfræðaskóla. Fullorðin sat hún sjaldnast með hendur í skauti. Yfir sjónvarpinu var hún með fínlegt hvítt garn og heklunálar sínar og framleiddi fegurstu verk, dúka, gardínur og myndir. Á heimilum afkomenda má sjá margt fagurt og í Siglufjarðarkirkju eru heklaðir dúkar eftir hana. Mynstrin í þá dúka bjó hún til með því að skoða efni hjá Biskupsstofu og víðar. Á unglingsárum lærði hún að spila á gítar hjá herkonum í Hjálpræðishernum og stofnaði með nokkrum félögum hljómsveit þegar þau voru í gagnfræðaskólanum. Hún hafði mikla unun af söng og var virk í Kvennakór Siglufjarðar í mörg ár, stundum formaður kórsins. Hún var einnig virk í Sinawikklúbbnum í áratugi.

Mamma var kvenréttindakona. Á kvennafrídaginn 1975 var vakin athygli á mismunun gegn konum á vinnumarkaði og mikilvægu framlagi þeirra til samfélagsins. Skömmu síðar keypti mamma stórt grafíklistaverk eftir Ragnheiði Jónsdóttur sem sýndi kjólaklædda stóla (valdastóla) framan við fjöldann sem mætti á Lækjartorg. Fékk þessi mynd heiðurssess í stofu heimilisins við takmarkaða hrifningu eiginmanns og lítinn skilning yngri kynslóða á boðskapnum. Í ágúst 2016 færði mamma, ásamt systrum sínum, Síldarminjasafninu að gjöf skúlptúr af síldarstúlku sem hún fékk Aðalheiði S. Eysteinsdóttur til að vinna fyrir þær. Fyrirmynd verksins var móðir þeirra sem saltað hafði síld í 42 sumur. Mömmu fannst nauðsynlegt að gera síldarstúlkum hærra undir höfði og virða þeirra framlag. Hún gerði það einnig sjálf þegar hún fékk mig til að taka mynd af kröftugustu síldarstúlkunni í síldargengi Síldarminjasafnsins, prenta hana út og færa henni sem þakklætisvott fyrir sitt frábæra og óeigingjarna starf.

Ég kveð yndislega móður með djúpu þakklæti fyrir allt sem hún gaf. Grafskrift á legsteini hennar verður:

Lífinu léði

ljúfa og listræna hönd

góðvild og gleði

Jón Baldvin
Hannesson.

Ég hitti Halldóru tengdamömmu, eða Höddu eins og hún var alltaf kölluð, í fyrsta skipti sumarið 1991 í brúðkaupsveislu systursonar hennar og konu hans.

Ég var þar með elsta syni hennar og Hannesar, honum Nonna Badda. Við höfðum þá tekið upp samband. Eftir veisluna var boðið til fjölskylduveislu heima hjá systur brúðgumans. Þar tókum við Hadda tal saman. Þegar talið barst að foreldrum mínum, sem bæði voru látin, sagði Hadda að hún ættleiddi mig bara, og þar með var ég viðurkennd.

Hadda var einstaklega skemmtileg kona. Hún sagði skemmtilega frá og kunni margar sögur af mönnum og málefnum. Hún átti mjög skemmtilegar systur. Þær voru allar afar málgefnar og þegar þær hittust töluðu þær oft allar í einu, en það gerði ekkert til því þær höfðu þann ágæta eiginleika að heyra allt sem hinar sögðu þrátt fyrir að tala sjálfar í leiðinni.

Hadda var mikil fjölskyldumanneskja. Hún átti drengina sína þrjá með Hannesi en hann átti líka eina dóttur frá fyrra sambandi. Barnabörnum og barnabarnabörnum fjölgaði sem og stjúpbarnabörnum en alltaf var nóg hjartarými fyrir alla.

Hadda og Hannes bjuggu lengst af í Hafnartúni 2 á Siglufirði. Hannes lést 25.1. 2015 og nokkrum árum seinna flutti Hadda í Skálarhlíð. Þar fór vel um hana og bjó hún þar þar til hún flutti til Akureyrar á Hjúkrunarheimilið Hlíð. Hún fékk varanlega búsetu þar í maí 2019 og bjó á Hlíð þar til yfir lauk. Henni leið vel á Hlíð og mikill kostur var að við Nonni bjuggum stutt frá henni. Var það okkur mikils virði, ekki síður en henni.

Hadda var einstaklega félagslynd kona. Hún var til margra ára í Sinawikklúbbi á Siglufirði, Leikfélaginu og Kvennakór Siglufjarðar. Hún elskaði að fá fólk í heimsókn og var höfðingi heim að sækja og átti ekki í vandræðum með að hrista eins og eina veislu fram úr erminni. Hún var hrókur alls fagnaðar hvar sem hún kom.

Í ágústbyrjun þessa árs héldum við hjón veislu vegna stórafmælis Nonna. Þar fór Hadda á kostum. Fór með ljóð og vísur við mikinn fögnuð veislugesta.

27. ágúst hélt hún svo upp á 90 ára afmælið sitt með pomp og prakt, umkringd sínum nánustu. Það gaf henni mikið að hitta þarna fjölmarga ættingja og vini. Það var þreytt, sæl og þakklát kona sem gekk til náða að kvöldi afmælisdagsins síns. Félagsskapurinn og veislan gaf henni svo mikla orku og gleði að hún gat fátt annað rætt næstu eina og hálfa vikuna.

Hadda lést 17. október sl. södd lífsdaga.

Nú er sál þín rós

í rósagarði Guðs

kysst af englum

döggvuð af bænum

þeirra sem þú elskaðir

aldrei framar mun þessi rós

blikna að hausti

(Ragnhildur Pála Ófeigsdóttir)

Elsku Hadda. Nú skilur leiðir. Þakka þér fyrir allt. Þakka þér fyrir vináttuna, elskuna og ekki síst fyrir hann Nonna þinn. Mér er mikils virði að hafa átt þig að og geta fylgt þér til hinstu stundar.

Þín tengdadóttir,

Margrét I. Ríkarðsdóttir (Magga).

Í dag kveðjum við elsku ömmu Höddu með sorg í hjarta en fyrst og fremst þakklæti fyrir einstaka ömmu. Hún var einstök að svo mörgu leyti. Einstaklega hlý, skemmtileg, fyndin, gestrisin og svo mætti lengi telja.

Það var alltaf tilhlökkun að koma í Hafnartúnið á Sigló til ömmu og afa. Þar var alltaf tekið á móti manni með innilegum faðmlögum, andrúmsloftið var svo notalegt og hafði amma einstakt lag á því að láta öllum líða vel í kringum sig. Margt var brallað, t.d. var mikið sport að skjótast niður í kjallara og ná í ís úr frystikistunni, spila, velja vídeóspólu úr möppunni, fá að sofa uppí hjá ömmu og afa og fá Cocoa Puffs í morgunmat. Við systkinin rústuðum fataskápnum hennar hvað eftir annað við að klæða okkur upp í allskonar múnderingar og halda tískusýningar. Aldrei var gert mál úr því, bara hlegið og tekið til eftir okkur. Eins var gaman að fara í bæinn og stússast með ömmu, heyra sögur frá síldarævintýrinu og hitta fólk á förnum vegi en það virtist sem amma þekkti alla bæjarbúa. Þegar við urðum eldri var dásamlegt að sitja við eldhúsborðið og spjalla og fá góðar uppskriftir frá ömmu.

Amma var alltaf hrókur alls fagnaðar í veislum og samkomum, hún sagði svo skemmtilega frá og þó maður hefði heyrt einhverja söguna margoft þá var alltaf jafn gaman að hlusta á hana. Þó síðustu árin hafi reynst ömmu erfið hélt hún alltaf í léttleikann og húmorinn þegar við hittumst. Hún var stolt af sínum stóra hópi afkomenda og fylgdist vel með öllum. Við erum þakklát fyrir að börnin okkar fengu að kynnast elsku ömmu Höddu og munum halda uppi minningu hennar um ókomna tíð.

Halldóra Guðrún Jónsdóttir, Magnús Sveinn Jónsson og Fjóla Þórdís Jónsdóttir.

Hadda móðursystir okkar er látin í hárri elli. Hún var móðursystirin sem giftist á Siglufirði og bjó þar áfram þegar foreldrar hennar og systur fluttust suður. Hún sat því uppi með mikinn gestagang langt fram eftir ævi, fyrst af hendi foreldra og systra og þeirra fjölskyldna og síðar voru það hennar afkomendur sem leituðu norður til Siglufjarðar á æskuslóðir. Við systur vorum svo heppnar að eiga hana að í æsku. Þá fengum við að upplifa að vera í fáeinar vikur að sumarlagi hjá henni, ein okkar meira að segja sumarlangt að passa Helga Kristin yngsta soninn. Það kom í hlut Höddu að hugsa um heldri ættmenni sem ekki fluttu suður og þá virkjaði hún gjarnan okkur krakkana í að erindast í kringum þau enda sjálf alltaf í fullri vinnu. Í áranna rás urðu heimsóknir á Sigló færri en okkur hugnaðist en löngu síðar áttum við aftur erindi norður í nokkur sumur á Pæjumótið þegar dóttir einnar okkar spilaði fótbolta og þá langaði okkur allar þrjár að fara og hitta hlýju og glaðværu móðursystur okkar og eiga gæðastundir með henni. Það var einhvern veginn allt svo skemmtilegt á Siglufirði og Hadda stór hluti af því. Það var gott að sækja hana heim, gleði, léttleiki og æðruleysi einkenndu viðbrögð hennar. Lífið á Siglufirði var fjörugt í tíð Höddu og hún dugleg að sinna félagsstörfum. Var m.a. þátttakandi í kvennakórnum, skógræktarfélaginu og fleiru sem var í gangi í bænum. Hlátur og gleði geisluðu frá henni og oft var gripið í gítar og sungið og alltaf mikið hlegið dillandi hlátri Landamótafólksins úr föðurættinni.

Við kveðjum Höddu móðursystur með þakklæti fyrir vináttuna og að hafa opnað heimili sitt fyrir okkur. Síðasta minningin er þó frá Akureyri frá því fyrir skömmu þegar hún fagnaði níræðu með ljúfri veislu. Þar vantaði aldeilis ekki upp á gleðina og hláturinn. Hadda naut sín umvafin sínum. Nonni, Bjössi, Helgi og fjölskyldur, okkar einlæga samúð.

Anna Dís
Sveinbjörnsdóttir.

Siglufjörður hefur ætíð skipað stóran sess í mínu lífi. Þar voru rætur móðurfjölskyldunnar og yfir Sigló svífur alltaf rómantískur blær í mínum huga, þótt ég viti fullvel að lífið hafi ekki alltaf verið dans á rósum þar. Flestir ættingjar mínir fluttu frá Siglufirði þegar síldin brást en móðursystir mín Hadda eins og hún var alltaf kölluð, bjó þar alla sína búskapartíð með manni sínum Hannesi sem var frændi minn í föðurætt. Á æskuárum mínum lá leið okkar fjölskyldunnar oft til Siglufjarðar og þá var iðulega dvalið í Hafnartúninu hjá þeim hjónum og sonum þeirra Nonna, Bjössa og Helga Kristni. Það var notalegt að dvelja hjá þeim og alltaf líf og fjör á þeim bæ.

Hadda var skarpgreind, glaðsinna dugnaðarforkur sem var alltaf með báða fætur á jörðinni hvernig sem áraði. Eitt sinn þegar ég fékk að verða eftir á Sigló eignaðist ég vinkonu sem spurði mig einn daginn: Er Jón Landi afi þinn? Ég játti því og varð um leið svolítið hugsi þar sem ég hafði heyrt um landabrugg en gat ekki tengt það við afa Jón svo ég spurði Höddu: Bruggaði afi landa? Hadda varð steinhissa, settist niður við hlið mér, lagði höndina um úlnliðinn á mér til áhersluauka og sagði eitthvað á þessa leið: Veistu ekki hverra manna þú ert? Það var nú þannig að á síldarárunum voru svo margir Jónar á Sigló að þeir fengu allir viðurnefni til aðgreiningar eins og Jón stutti, Jón bratti, Jón guð minn góður og Jón Landi. Afi þinn var frá Landamótum í Fljótum og þess vegna fékk hann viðurnefnið Landi.

Þær systur Alda og Hadda fóru ófáar skemmtilegar ferðir með eða án maka bæði innanlands og erlendis. Þær áttu það sameiginlegt að vera sérlega snjallar að rata, ekki í áttir heldur í ævintýralegar ógöngur. Þær voru rændar um hábjartan dag, snæddu morgunverð með ljóni, björguðu nöktum manni af hótelgangi og villtust í Katakombum Rómar svo eitthvað sé nefnt. Á milli þeirra systra ríkti hnökralaus vinátta alla tíð og Hadda reyndist móður minni sannkallaður stólpi á erfiðum tímum.

Hannes lést mjög óvænt á sama ári og faðir minn sem var Höddu þungbært en hún var fljót að grípa til glettninnar og sagði mér einn daginn að nú þyrfti hún að tala ærlega við Hannes og Steina. Það hefðu komið upp mál í fjölskyldunni sem þyrfti að að leysa, bæði varðandi húsakaup afkomenda og þar að auki væri laxveiði svo dræm að hvorki fiskaðist sporður né uggi. Þeir frændur þyrftu nú að halda verndarhendi yfir afkomendum sínum, það væri nú lágmark þar sem þeir hefðu ekkert betra að gera þarna í sumarlandinu. Og viti menn, málin leystust farsællega!

Við fórum saman frænkur í níræðisafmæli Höddu í lok ágúst þar sem hún faðmaði okkur og fagnaði með breiðu brosi og smitandi gleði að vanda. Nú er ómetanlegt að eiga þessa ljúfu stund í minningabankanum. Við fjölskyldan hugsum til hennar með þakklæti og hlýhug í hjarta og leyfum hennar eigin orðum að verða lokaorðin, elsku Hadda: „Hittumst fyrir hinum megin.“

Helga Þorsteinsdóttir og fjölskylda.