Tinna Hrafnsdóttir á kvikmyndahátíðinni í Lübeck fyrir helgina.
Tinna Hrafnsdóttir á kvikmyndahátíðinni í Lübeck fyrir helgina.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er í spennufalli en samt mun rólegri en fyrir frumsýningu, viðtökurnar hérna úti hafa verið svo góðar. Í gær var spennan mun meiri. Þótt manni finnist maður vera með gott efni í höndunum veit maður aldrei hvernig áhorfendur koma til með að taka…

Ég er í spennufalli en samt mun rólegri en fyrir frumsýningu, viðtökurnar hérna úti hafa verið svo góðar. Í gær var spennan mun meiri. Þótt manni finnist maður vera með gott efni í höndunum veit maður aldrei hvernig áhorfendur koma til með að taka því,“ segir Tinna Hrafnsdóttir gegnum símann en hún er stödd á kvikmyndahátíðinni Nordische Filmtage í Lübeck í Þýskalandi, þar sem myndaflokkurinn hennar Heima er best var heimsfrumsýndur á fimmtudaginn. Í framhaldinu kom fyrsti þátturinn af sex inn í Sjónvarp Símans Premium, þannig að segja má að Tinna hafi verið að frumsýna heima og ytra á sama tíma – sem er hreint ekki algengt.

Téð hátíð fer nú fram í 65. sinn og Tinna segir það alltaf gæðastimpil þegar efni er valið þangað inn. Uppselt var á frumsýninguna og góð stemning í salnum, að sögn Tinnu, sem auk þess að leikstýra Heima er best skrifaði handritið ásamt Ottó Geir Borg og Tyrfingi Tyrfingssyni, leikur eitt aðalhlutverkið og á aðild að framleiðsluteyminu undir merkjum Freyju Filmworks, ásamt Polarama og Projects.

Einn þáttur mun bætast við á viku í Sjónvarpi Símans Premium og síðar verða þeir sýndir í línulegri dagskrá í Sjónvarpi Símans.

En um hvað er Heima er best?

„Þegar höfuð ættarinnar fellur frá taka við nýir tímar í lífi þriggja ólíkra systkina. Rótgrónu fjölskyldufyrirtæki og sumarhúsi sem reist var frá grunni þarf að skipta upp og finna farveg út frá nýjum viðmiðum og gildum. En það sem átti að sameina sundrar, og vandamálin sem koma upp þegar systkinin fara að deila sín á milli um arfleifð föðurins verða ekki flúin,“ segir í kynningu á vefsíðu Sjónvarps Símans Premium.

Hálfgert gullæði

Móðir systkinana er á lífi en glímir við veikindi og treystir sér ekki til að taka við keflinu, það er hvalaskoðunarfyrirtæki þeirra hjóna og téðum sumarbústað, og færir því ábyrgðina yfir á börnin sín. „Það þýðir að þau þurfa að taka sameiginlegar ákvarðanir í fyrsta sinn og það reynist hægara sagt en gert, auk þess sem mamman hefur eftir sem áður sínar skoðanir. Sagan gerist í góðærinu rétt fyrir covid og þetta er öðrum þræði spegill á samfélagið þegar allir ætluðu að græða á ferðaþjónustubransanum. Margir sáu tækifærin og hér ríkti hálfgert gullæði. Átökin stigmagnast og þegar kviknar í sumarbústaðnum flækjast hlutirnir enn meira,“ segir Tinna sem er alls ekki að höskuldast í okkur, bruninn er sýndur í stiklunni fyrir þættina.

Tinna segir Heima er best í grunninn sögu af dæmigerðri íslenskri fjölskyldu enda tengi vísast margir við þemað, að skipta milli sín foreldraarfinum. Þá kann að hrikta í stoðum, jafnvel þegar síst skyldi ætla. „Þú þekkir ekki manneskju fyrr en þú hefur skipt með henni arfi,“ segir hún.

Þættirnir eru líka karakterdrifnir. „Við köfum djúpt í líf þessa fólks, vonir þess og væntingar. Í fyrsta þættinum kynnumst við foreldrunum sérstaklega, í öðrum þættinum er elsta systkinið í forgrunni, miðsystkinið í þeim þriðja og yngsta systkinið í fjórða þættinum. Þetta er líka marglaga saga um samfélagið okkar og þessi klassísku element í okkur. Hver kannast ekki við meting milli systkina, það að sanna sig fyrir foreldrum sínum og svo framvegis? Ég hef þá trú að margir geti speglað sig í þessu,“ segir Tinna

Pálmi Gestsson og Hanna María Karlsdóttir leika foreldrana en Tinna sjálf, Vignir Rafn Valþórsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir systkinin þrjú.

Lært ofboðslega margt

Símamenn hafa miklar væntingar til Heima er best. „Það er alltaf mikil eftirvænting þegar við fáum nýjar leiknar íslenskar þáttaraðir inn á borð til okkar. Heima er best er bæði vönduð og spennandi þáttaröð sem við bindum miklar vonir við en viðskiptavinir okkar eru alltaf þakklátir fyrir íslenska kvikmynda- og þáttagerð,“ segir Birkir Ágústsson, dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar hjá Símanum, á vefsíðu fyrirtækisins.

Vegferðin hófst fyrir sjö árum en leikið íslenskt efni er sem kunnugt er ekki hrist fram úr erminni. Tinna segir líf sitt hafa snúist um framleiðsluna allan þann tíma en hún er, eins og áður segir, með marga hatta í þessu verkefni.

– Hvernig var það?

„Það hefur verið áskorun en mikið ofboðslega hef ég lært margt af þessu. Ég lít á mig sem sögumann frekar en eitthvað annað og því fylgir stundum að gegna nokkrum hlutverkum í sköpunarferlinu líkt og fleiri kollegar gera,“ segir Tinna og nefnir í því samhengi Vesturport sem framleiddu, leikstýrðu og léku í Verbúðinni.

Framhald hefur orðið á nokkrum íslenskum seríum sem notið hafa lýðhylli og Tinna staðfestir að því sé haldið opnu í tilviki Heima er best. „Við skiljum þannig við söguna að möguleiki er á framhaldi. Það veltur þó á ýmsu, aðallega því hvernig þessa fyrsta sería kemur til með að ganga. Viðtökurnar hérna úti gefa tilefni til bjartsýni, eins viðbrögð gesta á forsýningu heima á Íslandi um daginn. Það verður virkilega spennandi að sjá hvernig þetta leggst í landann.“

Þegar er búið að selja sýningarréttinn til Finnlands og fleiri lönd eru í sigtinu, að sögn Tinnu. „Vonandi fer Heima er best sem víðast. Mín tilfinning er alla vega sú að fólk sé tilbúið að sjá fleira en bara leynilögregluþætti og hvað er betra en átök og alvöru fjölskyldudrama? Það þema er alls ekki séríslenskt.“

Nema síður sé.