Farartæki Það styttist í að við getum varið tímanum í bílnum í eitthvað annað en að halda bara um stýrið.
Farartæki Það styttist í að við getum varið tímanum í bílnum í eitthvað annað en að halda bara um stýrið. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Framtíð samgangna verður í brennidepli á ráðstefnu á alþjóðadegi viðskiptalífsins á Hilton Reykjavík Nordica næstkomandi þriðjudag. Á meðal fyrirlesara er Ralf Herrtwich, framkvæmdastjóri sjálfvirknihugbúnaðar hjá tæknirisanum NVIDIA. Hann segist í samtali við Morgunblaðið, spurður um erindi sitt á fundinum, munu ræða um það hvernig hugbúnaður og gervigreind sé að umbreyta þróun ökutækja og hvernig það muni gera næstu kynslóðir bíla öruggari og sjálfbærari. Hér eftir fylgir nánara samtal við Herrtwich.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Framtíð samgangna verður í brennidepli á ráðstefnu á alþjóðadegi viðskiptalífsins á Hilton Reykjavík Nordica næstkomandi þriðjudag. Á meðal fyrirlesara er Ralf Herrtwich, framkvæmdastjóri sjálfvirknihugbúnaðar hjá tæknirisanum NVIDIA. Hann segist í samtali við Morgunblaðið, spurður um erindi sitt á fundinum, munu ræða um það hvernig hugbúnaður og gervigreind sé að umbreyta þróun ökutækja og hvernig það muni gera næstu kynslóðir bíla öruggari og sjálfbærari. Hér eftir fylgir nánara samtal við Herrtwich.

- Þú komst til Íslands árið 2015 og hélst erindi á haustráðstefnu Advania og ræddir einnig við Morgunblaðið. Þú vannst fyrir bílaframleiðandann Mercedes-Benz á þeim tíma, en starfar nú fyrir NVIDIA. Hvert er hlutverk þitt hjá fyrirtækinu og hvernig sérðu gervigreindina þróast á næstu árum?

Þegar ég ræddi síðast við Morgunblaðið hafði Mercedes-Benz klárað frumgerð af sjálfkeyrandi S-Class. Til að koma honum í framleiðslu þar sem gervigreind yrði nýtt, þurfti Benz aðgang að ofurtölvum og þar kom NVIDIA að málum. Ég gekk til liðs við NVIDIA árið 2019 og einu ári síðar tilkynntum við að fyrirtækin ætluðu að vinna saman að hönnun sjálfvirknikerfis fyrir Benz-bíla framtíðarinnar.

Gervigreindin er að umbylta bílaiðnaðinum. Hugbúnaður ökutækja er stöðugt og reglulega uppfærður, rétt eins og símar, sem bætir þau í sífellu.

- Mun gervigreindin geta lagt hönd á plóg við þróun og smíði bíla og annarra ökutækja?

Gervigreind er nú þegar notuð til aðstoðar og hjálpar t.d. verkfræðingum að vinna vinnuna sína. Hún getur t.a.m. yfirfarið hugbúnað bílsins. Þá getur hún skapað sjaldgæfar og hættulegar akstursaðstæður til að sjá hvernig hugbúnaðurinn bregst við. Þegar nýr bíll kemur úr framleiðslu getum við vitað með vissu að hann ráði við slíkar kringumstæður.

- Frá 2015 hefur fólk orðið vant margvíslegum stoðtækjum í nýjum bílum, þar á meðal veglínuvara og tækni sem heldur ökutæki sjálfvirkt í fjarlægð frá öðrum. Hefur þróunin orðið hraðari eða hægari en þú hélst að hún yrði árið 2015?

Þegar mikil spenningur er fyrir nýrri tækni eins og er raunin með sjálfkeyrandi bíla eru skammtímavæntingar gríðarlegar. En bílaiðnaðurinn er með langa hönnunarferla þar sem nýjungar krefjast ítarlegra öryggis og áreiðanleikaprófa.

Það er mikilvægt að nálgast þróun sjálfkeyrandi bíla af varfærni þannig að, ég held, og af góðri ástæðu, að framleiðendur og stjórnvöld þurfi að gæta sérstaklega vel að því hvað samþykkt er á götuna. Þegar kemur að mannslífum þá viljum við ganga úr skugga um að við séum ekki aðeins að gera hlutina rétt heldur að við séum ekki að gera hlutina rangt.

Að því sögðu finnst mér magnað hve margbreytileg sjálfvirkni hefur orðið í bílum, með öllum þessum stoðtækjum og kerfum, á síðasta áratug. Sem ökumaður þarftu samt enn að vera með á nótunum en þarf sífellt minna og minna að skipta þér af. Þetta mun aukast á næstu árum.

- Á Íslandi erum við að þróa almenningssamgöngur, borgarlínuna, sem skiptar skoðanir eru um sökum kostnaðar m.a. Telurðu að þessar hugmyndir séu að verða úreltar í ljósi þess hve þróunin í sjálfkeyrandi bílum er hröð?

Alls ekki. Þó svo að bílar verði snjallari taka þeir enn mikið pláss, sérstaklega í borgum, þar sem landnýting skiptir miklu máli. Ef við viljum nýta land betur, þá eru almenningssamgöngur leiðin fram á við – en við verðum að gera þær aðlaðandi: ferðir þurfa að vera örar og hraðar. Hlutverk góðra innviða er einnig stórt. Því betri sem innviðir eru því auðveldara er að gera ökutækin sjálfvirk.

- Munum við mögulega horfa til baka eftir 30 ár og hlæja að öllum þeim tíma sem við eyddum í að halda um stýri á bílum?

Fyrir 30 árum vorum við að átta okkur á því að símar þyrftu ekki að vera tengdir snúrum … þannig að mögulega, já!

- Munu sjálfkeyrandi bílar verða ódýrari en aðrir, þ.e. sparast búnaður sem verður óþarfur í sjálfkeyrandi bílum?

Ekki endilega. Það þarf að hafa í huga að sjálfkeyrandi bílar munu aka í blandaðri umferð þar sem sjálfvirkni verður ekki orðin almenn. Öryggisviðmið og staðlar, árekstrarpróf, sætisbelti og loftpúðar þurfa enn að vera í bílunum, sem og öflugir nemar til að fylgjast með heiminum fyrir utan, myndavélar, radarbúnaður o.fl.

En það verður sparnaður í betra skipulagi og fyrirkomulagi tölvubúnaðar í bílunum. Hann fer í miðlægt kerfi eins og NVIDIA Drive. Í staðinn fyrir óteljandi rafstýringar sjáum við eina eða tvær miðlægar tölvur sem geta stjórnað öllum hugbúnaði bílsins og tekið við uppfærslum í sífellu.

- Hve hratt ættu sjálfkeyrandi bílar að geta ekið?

Öryggi er í fyrirrúmi hjá NVIDIA, þannig að við tökum það mjög alvarlega. Líkt og þegar menn eru við stýrið þá mun hraði stjórnast af aðstæðum á veginum og öðrum í umferðinni, þannig að það er erfitt að segja það beint.

Nemar geta í dag numið nokkur hundruð metra fram fyrir ökutækið. Mat á umhverfinu er svo gott að bíllinn getur skilið flesta hluti. Og viðbragð og virkjun er mun sneggri þegar tölvan ekur.

Ég er sjálfur ánægður með hvernig hlutirnir eru í Þýskalandi í dag: Sjálfvirkni á hraðbrautinni er í dag takmörkuð við 60 kílómetra hraða á klukkustund í mikilli umferð. Ef þetta gengur vel í nokkur ár þá munu stjórnvöld slaka á og að lokum hækka mörkin. Þannig hafa öku-stoðkerfin smátt og smátt vaxið og gengið vel.

- Hvað með notkun sjálfkeyrandi bíla við erfiðari aðstæður, eins og í snjó, hálku, kulda eða mikilli rigningu?

Þetta er mjög mikilvægt atriði fyrir Íslendinga! Það magnaða er hve geta sjálfkeyrandi bíla hefur aukist mikið á síðustu árum í að fylgjast með og bregðast við aðstæðum. Í síðustu viku keyrði á hálf-sjálfvirkri stillingu frá Stuttgart til München í grenjandi rigningu og þurfi aðeins tvisvar að grípa í stýrið.

Það sem er erfiðara en símat bílsins á aðstæðum er viðnám hans. Jafnvel sjálfvirkur bíll getur ekki sigrað lögmál eðlisfræðinnar. Ef hjólin ná ekki viðnámi við veginn geturðu ekki ekið. Þannig að mikilvægt atriði við þróun þessara bifreiða er að þær átti sig tímanlega á aðstæðum og þegar ekki er lengur öruggt að keyra, þá sé stoppað.

Höf.: Þóroddur Bjarnason