Rökstólar Sagan rædd og farið yfir sviðið. Frá vinstri: Einar Kárason, Sigríður Sigurðardóttir, Óttar Guðmundsson og Sigurður Hansen.
Rökstólar Sagan rædd og farið yfir sviðið. Frá vinstri: Einar Kárason, Sigríður Sigurðardóttir, Óttar Guðmundsson og Sigurður Hansen. — Ljósmynd/Kakalaskáli
Í Kakalaskála á Kringlumýri í Skagafirði verður í dag kl. 14 hóf í tilefni af því að út er komið vefnámskeiðið Á Sturlungaslóð. Í Kakalaskála hefur Sigurður Hansen, sérfræðingur í Sturlungu, sett ásamt fleirum upp sögu- og listasýningu frá átakatímum 13

Í Kakalaskála á Kringlumýri í Skagafirði verður í dag kl. 14 hóf í tilefni af því að út er komið vefnámskeiðið Á Sturlungaslóð. Í Kakalaskála hefur Sigurður Hansen, sérfræðingur í Sturlungu, sett ásamt fleirum upp sögu- og listasýningu frá átakatímum 13. aldar, með kastljós á sögu Þórðar kakala. Einnig er þar að finna eitt stærsta útilistaverk landsins, sviðsetningu Haugsnesbardaga 19. apríl 1246.

Sigurður er ekki einn um þennan óbilandi áhuga á Sturlungu. Einar Kárason, Óttar Guðmundsson, Sigríður Sigurðardóttir og Sigurður hafa tekið sig saman um að segja Sturlungu og leggja út af henni á námskeiðinu. Þar fær sagnamennskan að njóta sín sem gagnast í senn þeim sem hafa einhverja grunnþekkingu á Sturlungu og lengra komnum.

Á 13. öld, sem gjarnan er nefnd Sturlungaöld, ríkti mikill innanlandsófriður sem varð á endanum til þess að Ísland missti sjálfstæði sitt. Sagan er rituð af samtímamönnum og því einstök heimild. Sturlunga hefur heillað marga og sumir ganga svo langt að segja að fari maður þangað inn komist maður aldrei aftur út. Slíkur sé mátturinn.

Námskeiðið sem fyrr er nefnt má nálgast á vefnum sturlungaslod.is Aðgangur helst í sex mánuði frá kaupdegi og hver og einn getur svo farið í gegnum efnið, rúma sjö klukkutíma, á sínum hraða.