The Visitors, 2012
The Visitors, 2012 — © Ragnar Kjartansson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gestur sýningarinnar var í raun dæmdur til að fara í þetta ferðalag með listamanninum og horfast í augu við sína eigin sekt og sinn eigin ótta.

Eldurinn sem logaði við anddyri Louisiana-safnsins á meðan sýning Ragnars Kjartanssonar stóð yfir undirstrikaði þá tilfinningu sem orðið hefur sterkari síðustu daga, vikur, mánuði og ár að endalokin færast nær. Loginn stóð upp úr titilverki sýningarinnar, Epic Waste of Love and Understanding. Og fari sem horfir verður þetta sannarlega epísk sóun. Eldurinn við innganginn kveikti strax hugrenningatengsl við loftslagsvána; heimurinn brennur og aldrei sem nú á ári hitameta. Stríðin í Úkraínu og Palestínu komu upp í hugann. Sömuleiðis ýmiss konar menningarlegar tengingar. Eldur í Kaupinhafn liggur beinast við, þó ekki væri nema vegna staðsetningarinnar.

Loginn minnir auðvitað á Gleðileik Dantes. Ragnar myndskreytir nýja þýðingu Einars Thoroddsen á Víti, fyrsta hluta þess verks, sem kom út 2018, og kápuna prýðir mynd af málverki Ragnars af eldtungu í sama lit og loginn fyrir utan Louisiana. Jafnvel Inferno Strindbergs kemur upp í hugann þar sem skandinavísku hugarvíli er lýst af djúpu innsæi. Sannarlega eru þetta allt dæmi um sóun af epískum stærðargráðum. Og þegar gengið var í gegnum sýninguna sóttu þessar hugrenningar endurtekið og æ sterkar á mann. Smám saman áttaði maður sig þó á því að öll þessi sóun á sér einn samnefnara sem er maðurinn, umfram allt karlmaðurinn.

Sýningin var kveðjuvals hans. Kannski var hún eins konar minnisvarði um hann. Titilverkið við inngang safnsins ýtti vissulega undir þann skilning. Þar var komið minnismerki um karlmennsku á hverfanda hveli, um heim eða heimsmynd þessarar karlmennsku og samfélagsbrunann sem hún veldur, um veröldina sjálfa sem er að stikna og enn einu sinni að tortímast í styrjöldum eitraðrar karlmennsku. Minnismerkið virtist gert úr marmara en var í raun úr krossviði, líka eldurinn sem logaði svo glatt ofan á stöplinum. Verkið fjallar um varanleikann eða öllu heldur það sem ekki mun vara. Þetta minnismerki um allt það sem við höfum sóað, um allt það sem hverfur; það mun heldur ekki endast. Minnismerkið er enda leikmynd og minnir safngesti ekki síst á það að þeir eru að fara að ganga inn á leiksvið listamannsins. Verkið fjallar þannig einnig um hverfulleika listarinnar; eins og öll mannanna verk er hún stundleg og aðeins eilíf á meðan við endurtökum galdur hennar.

Epísk sóun á ást og skilningi. Orðin bjuggu gesti undir sýningu sem var hlaðin tilfinningum. Vissulega er listin sjálf sek um þá sóun sem titilverkið orðar, rétt eins og hún getur gert hið gagnstæða sem er að kveikja og varðveita ást og skilning í epískum hlutföllum. List Ragnars er greinandi. Líklega hefði hún ekki jafn víðtæka skírskotun ef ekki væri fyrir ótvíræða greiningarhæfileika listamannsins. Hún sækir sér líka fóður í listsögulegar hefðir og nýtir óspart möguleika ólíkra listmiðla og listgreina svo sem tónlistar, leiklistar, málaralistar, vídeólistar, gjörningalistar og áfram mætti telja. En auk greiningarhæfileikans er það sterk höfðun til tilfinninga áhorfandans sem býr til slagkraftinn í list Ragnars. Og enginn fór ósnortinn í gegnum sýninguna á Louisiana.

Sekt og ótti

Þegar inn í safn var komið tók við langur gangur þar sem salt- og piparstaukum áletruðum með ensku orðunum GUILT og FEAR hafði verið raðað upp á hillu eftir honum endilöngum og innan úr sal barst rödd listamannsins sem söng tregafullri röddu í vídeóverkinu Mercy: Oh, why do I keep on hurting you. Þarna var tónninn sleginn. Þessi stef um sektarkennd og ótta gengu eins og rauður þráður í gegnum alla sýninguna. Sömuleiðis ákall karlmannsins – hafandi verið dreginn í gegnum svipugöng sektarkenndar og ótta – um miskunnsemi, náð, mildi, fyrirgefningu, jafnvel meðaumkun. Á köflum var auðmýkingin nánast alger eins og í öðru vídeóverki sem finna mátti í hliðarsal út af ganginum, Me and my Mother, þar sem móðir Ragnars skyrpir á hann endurtekið í fimm myndböndum sem tekin hafa verið upp á fimm ára fresti síðan árið 2000. Þetta verk á elstar rætur allra verka á sýningunni en Guilt and Fear (2022) er á meðal þeirra nýjustu og sömuleiðis titilverkið við innganginn (2023). Og þó að ýmis mikilvæg verk frá ferli Ragnars vanti á sýninguna þá er óhætt að fullyrða að hún dragi fram meginþræði í list hans, rétt eins og þessi áhrifamikla byrjun.

Þessi langi gangur með margendurteknu stefi sínu um sekt og ótta orkaði á mann eins og inngangurinn í víti. Hér hæfist ferðin inn í handanheimana. Og þó að Ragnar ávarpi ekki skáld sitt beint, eins og Dante ávarpaði meistara sinn Virgil, þá er það nálægt í innviðum sýningarinnar, í byggingu hennar sem leiðir gestinn ofan í víti, síðan í gegnum hreinsunareldinn og að lokum inn í paradís. Þessi línulega frásögn felur í sér epíska sóunina, yfirvofandi endalokin og vonina um nýtt upphaf en er brotin upp með endurteknum stefjunum um sekt og ótta. Gestur sýningarinnar var í raun dæmdur til að fara í þetta ferðalag með listamanninum og horfast í augu við sína eigin sekt og sinn eigin ótta.

Víti

Kaos ríkir í upphafi ferðar. Samtíminn er listamanninum dimmur skógur eins og upphaf fjórtándu aldarinnar var Dante (í þýðingu Einars Thoroddsen): „Á æviferðar minnar miðjum degi / í myrkri þrungnum skóg ég staddur var / og villzt ég hafði burt af beinum vegi.“ Í fyrstu sölum sýningarinnar ægði því ýmsu saman sem vakti sterkar tilfinningar hjá safngestinum.

Öll 144 málverkin frá sex mánaða löngum gjörningi Ragnars á Feneyjatvíæringnum árið 2009 prýða veggi stórs salar sem tók við inn af ganginum. Verkið heitir The End og vísar titillinn til endalokanna í margvíslegri merkingu. Vísunin til endaloka hins sterka og alltumlykjandi karlmanns liggur beint við en verkin eru öll af ungum manni í sundskýlu einni fata, hangandi aðgerðalítill í stúdíói listamannsins í Feneyjum, reykjandi og drekkandi, hnignandi og melankólískur, eins og hann bíði eftir einhverju sem sífellt er skotið á frest, hvort sem það eru endalok sín sjálfs, (karl)mannsins, heimsins, gjörningsins eða listarinnar. Verkið skírskotar líka til endaloka góðærisgleðinnar með hruninu skömmu áður en tvíæringnum var hleypt af stokkunum vorið 2009.

Öll önnur verk í þessum sýningarsal fjölluðu einnig um karlmanninn. Engin kona tók þátt í þeim, engin kona var sýnileg í þeim nema í líki Hafmeyjunnar við Löngulínu á einu af póstkortunum sem voru ötuð blóði nýlendusögunnar í verki sem heitir Colonization (2003). Á myndbandi sem tilheyrir því verki sást Benedikt Erlingsson í hlutverki dansks embættismanns berja og svívirða íslenskan bóndaræfil sem Ragnar leikur. Tengingin við Íslandsklukkuna kemur aftur upp í hugann, einnig vegna þeirrar gráglettni sem einkennir alla framsetninguna. Á sama vegg hékk málverk af Magnúsi Stephensen (2021), síðasta landshöfðingjanum og þar með æðsta embættismanni dönsku stjórnarinnar á Íslandi, í fullum skrúða, manni sem lék tveimur skjöldum í sjálfstæðisbaráttunni, eiginlega nauðugur viljugur. Á hinni hlið sama veggjar mátti svo sjá vídeóverkið Guilt Trip frá góðærinu 2007 þar sem Þórhallur Sigurðsson, Laddi, er í hlutverki manns á veiðum úti í snæviþöktu landslagi, klæddur svörtu frá toppi til táar, skjótandi úr haglabyssu út í loftið. Skotin ber hann í Bónuspoka í einkennandi skærgulum litnum með bleika svíninu. Hér var eins og djöfullinn sjálfur væri mættur í líki villuráfandi karlmanns.

Eins og The End bera öll þessi verk í sér djúpa tilfinningu fyrir tilgangsleysi, markleysi og umkomuleysi. Græðgi og hroki birtast einnig í þeim og reiði og miskunnarleysi sem komu svo enn frekar við sögu í næsta sal. Þar hittum við fyrir tvær grimmilegar persónur úr heimssögunni, Hitler í Hitler's Loge (2006) og Ívan grimma, fyrsta keisara Rússlands, í Terrible, Terrible. Síðarnefnda verkið samanstendur af tveimur myndböndum þar sem skemmdarverk, sem unnin voru á málverki eftir úkraínska málarann Ilya Repin (1844-1930) með 100 ára millibili (1913 og 2018), eru sviðsett. Málverk Repins sýnir Ívan grimma með lík sonar síns, sem hann hafði sjálfur drepið, í fanginu. Augnaráð Ívans lýsir örvæntingu og skelfingu. Verk Ragnars er frá árinu 2021, árinu sem Rússar réðust öðru sinni inn í Úkraínu á sjö árum. Verkið spannar því ríflega hundrað ár í sögu Rússlands, tíma sem á ýmislegt sameiginlegt með blóðidrifinni valdatíð Ívans grimma.

Inni í sama rými – og raunar áður en komið var að þessum tveimur verkum – hékk málverkaröð af allt öðru tagi, að því er virtist, eins konar andsetning við þá hörmungarsögu sem verkin um valdamennina tvo segja. Die Nacht der Hochzeit (2022/2023) sýnir næturhimininn í allri sinni dýrð, málaður í ævintýralegum fjólubláum litatóni. Verkið virtist eins konar forboði um þá paradís sem bíður. Á einu verkinu má hins vegar sjá afhjúpandi tilvitnun í Elsu, drottninguna af Arendellu í Disney-myndinni Frozen, þar sem hún syngur í laginu Let it go um stað sinn í heimi sem hræðist krafta hennar: A kingdom of isolation, seems like I'm the queen. Í laginu er konungdæmi einangrunarinnar snæviþakið fjall að næturlagi þar sem hvergi er mannsspor að finna, eins og vetrarríkið í Guilt Trip, en í verki Ragnars er það næturhiminninn, náttmyrkrið, fjarlægt en alltumlykjandi.

Þessum fyrsta hluta sýningarinnar, förinni til heljar, lýkur svo á viðeigandi hátt með ríflega sex klukkutíma löngu vídeóverki þar sem hljómsveitin The National flytur A Lot of Sorrow (2013-2014) en hljómsveitin er skráð meðhöfundur að verkinu. Verkið er óður til sorgarinnar en líka eins konar ákall um vorkunn til handa þeim sem ekki vilja komast yfir hjartasorgina. Karlinn kveinar yfir örlögum sínum.

Hreinsunareldurinn

Tvö verk mynduðu kjarnann í miðhluta sýningarinnar, The Visitors (2012) og No Tomorrow (2022), og í fyrrnefnda verkinu má segja að dramatískum hápunkti hafi verið náð. Það er í því verki sem yfirbótin hefst hjá lastafullum karlinum, hið eiginlega hreinsunarstarf, ef svo má segja. Hópur tónlistarfólks flytur þar tregafullan kveðjusálm til karlmennskunar. Verkið var tekið upp á reisulegum herragarði í New York-ríki sem hefur mátt muna sinn fífil fegurri. Aftur er bóhemískur hnignunarbragur yfir allri sviðsetningunni. Tónlistarfólkið, sem tekur þátt í flutningnum, er allt í sínu herberginu hvert meðan á upptökunni stendur. Listamaðurinn sjálfur liggur í baði, spilar á gítar og syngur ljóðlínur um að hann sé kominn á leiðarenda og þurfi aftur og enn að leita síns innra mans: Once again I fall into / My feminine ways.

Flutningur verksins tekur í heild 64 mínútur og það er sýnt á níu skjáum í sýningarrýminu, hver og einn er sér um mynd- og hljóðrás. Áhorfendur heyrðu þannig mest í þeirri hljóðrás sem þeir stóðu næst. Verkið fjallar um samhljóm, harmóníuna á milli þessa ólíka fólks sem leikur hvert og eitt á sitt hljóðfæri. Og í Louisiana kallaði verkið fram samsvarandi harmóníu á meðal safngesta sem hreyfðu sig á milli skjáa eftir því hver tónlistarmannanna átti sviðið hverju sinni. Úr varð eins konar dansverk fyrir safngesti. Í lokakafla verksins söfnuðust gestirnir allir saman fyrir framan skjáinn sem sýndi hóp af fólki, kórinn, úti á verönd. Og á þessum sama skjá kom að endingu allt tónlistarfólkið innan úr húsinu og hélt syngjandi út í ægifagra sveitina í blákyrrum ljósaskiptunum.

Þegar allt var búið var svo byrjað upp á nýtt. Þannig hélt hreinsunarritúal listamannsins áfram hring eftir hring, dáleiðandi fagurt enda var þetta sá hluti sýningarinnar sem augljóslega hafði mest aðdráttarafl fyrir safngesti.

Næst komu þrjú verk sem eru eins konar millikaflar, þeirra nýjast er Bangemand (2023), gjörningur sem sýnir mann færa sig ofurvarlega eftir mjórri syllu í mikilli hæð með bakið upp að vegg. Enn var minnt á nagandi óttann. Hyldýpið beið undir. Snösin, sem maðurinn stóð á, sagði líka sitt um rými valdsins og óaðgengileika þess. Verkið felur í sér mótsögn því það ýjar sömuleiðis að hugrekki og atgervi sem þarf til að vera á þessum stað, þrátt fyrir allt. Svört smókingfötin ýta undir hetjugervinguna sem við tengjum fyrst og fremst við bíó. Staðalmyndir karlmennskunnar eru líka til umfjöllunar í hinum tveimur verkunum, Grey Suits (2008) og Drawings of Mercy (2005) en hið síðarnefnda kallaðist á við myndbandsverkið Mercy í byrjun sýningarinnar. Teikningarnar sýna orðið Mercy umvafið lárviðarsveig en sé rýnt í myndirnar koma í ljós skóför. Ákall jakkafataklædds krúnersins um miskunn hefur verið fótum troðið.

No Tomorrow myndaði eins konar brú yfir í Paradís, en meðhöfundar Ragnars í þessu verki eru Margrét Bjarnadóttir og Bryce Dessner. Í undurfallegri vídeóinnsetningu dansa átta dansarar úr Íslenska dansflokknum, spila á gítara og syngja. Verkið birtist á sex stórum skjáum sem mynda hring með bilum á milli sín en þessi bil eru hluti af vídeóverkinu með þeim hætti að þegar dansararnir fara á milli skjáa hverfa þeir um stund í millibilinu, rétt eins og þeir ferðist á milli heima. Útfærslan er snjöll eins og í The Visitors. Hér er umfjöllunarefnið sömuleiðis harmónía sem dansararnir finna hver og einn á milli dansins og tónlistarinnar en jafnframt í samræmingu sín á milli þegar þeir ferðast á milli skjáa og hreyfa sig í samhljómi við tónlistina, myndandi ýmis form flæðandi um gólfið. Aftur varð til eins konar harmónía á milli verksins og gestanna inni í sýningarrýminu sem færðu athyglina á milli skjáa til að fylgja dönsurunum og úr varð eins konar dansverk fyrir safngesti. Upplifunin kveikti sterka tilfinningu fyrir samræmi, harmóníu, jafnvægi, réttum hlutföllum, jafnvel jöfnuði. Þetta er einhvers konar paradís.

Og hér eru karlarnir víðsfjarri. Allir dansararnir eru konur. Þetta er eina verkið á sýningunni þar sem einungis konur koma við sögu. Búningar dansaranna fela þó í sér skírskotun til karlkynsins; gallabuxur með uppbrettum skálmum, hvítir sokkar og hvítur stuttermabolur. Vísunin til kvikmyndastjörnunnar James Dean er augljós en þetta er líka einkennisbúningurinn sem Bruce Nauman klæðist í gjörningum. Dansararnir verða eiginlega kynlausir í þessum klæðnaði. Hið stöðuga flæði í dansi þeirra og flutningi gefur líka til kynna ákveðið frelsi. Verkið miðlar sömuleiðis áhyggjuleysi eins og titillinn gefur til kynna og stefið sem sungið er: Oh babe, no tomorrow. Dansararnir virðast lausir við allan ama af daglegu lífi. Í þessu verki, ólíkt öðrum á sýningunni, er eins og veruleikinn, heimurinn og allt hans angur, gufi upp. Það eina sem skipti máli sé staður og stund, nánast fullkomin harmónían á milli dansaranna – og gestanna. Þetta er líka undirstrikað í textanum sem sunginn er: Looked hard for the moral / Of this whole adventure / And found none. Aftur eins konar paradís.

Paradís

Áhyggjuleysið einkennir einnig þá paradís sem miðlað er í síðasta hluta sýningarinnar sem inniheldur þrjú verk. Í þeim öllum er aftur á móti þung undiralda sem ekki var að finna í No Tomorrow.

Þegar komið er upp í hornherbergið í suðvesturhluta Louisiana-safnsins blasir dýrðin við. Út um stóran hornglugga má sjá fallegan garðinn sem umlykur safnið og Eyrarsundið, lagt sólargeislum í stillunni. Og handan sundsins er Svíþjóð, einkennisland skandinavískrar velferðar, fyrirmyndarsamfélagið, kannski hin eiginlega táknmynd paradísar í samtímanum.

Sjálft rýmið minnir á skandinavíska stássstofu. Í þessu rými framdi Ragnar gjörning ásamt Sögu Garðarsdóttur leikkonu 30. maí á þessu ári. Upptaka af verkinu var sýnd á sjónvarpsskjá í stofunni. Titill verksins er kunnuglegur danskur frasi sem varpar fram spurningunni um það hvað við höfum gert til þess að eiga allt þetta skilið: Hvad har vi dog gjort for at ha' det så godt. Í gjörningnum, sem stóð í ellefu klukkutíma, endurtaka Saga og Ragnar þessa spurningu aftur og aftur á meðan þau njóta útsýnisins og verunnar í einstaklega fallegri stofunni sem búin er klassískri skandinavískri hönnun. Áhyggjuleysið er áþreifanlegt. Morgundagurinn er fjarri. Verkið er fyndið og írónískt en það tjáir einnig djúpstætt tómlæti og tómleikakennd.

Inn af stofunni er lítið rými þar sem vídeóverkið Bliss (2020) er sýnt. Það er sviðsetning á stuttum kafla úr Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart sem er sunginn aftur og aftur í tólf klukkustundir. Í senunni biður greifinn eiginkonu sína að fyrirgefa sér kvensemi sína og endurtekið framhjáhald. Eiginkonan fyrirgefur greifanum enda segist hún þægari og auðsveipnari en hann. Kórinn upphefur þá fagnaðarsöng um að allt sé fyrirgefið og hamingjan megi ríkja að eilífu. Augnablikið er þó spennuþrungið. Ekki er allt sem sýnist. Listamaðurinn sjálfur leikur drukkna garðyrkjumanninn í senunni og heldur á dauðum héra. Eitthvað er rotið í þessari paradís karlmannsins.

Síðasta verk sýningarinnar var Scandinavian Pain (2006-2012) sem kallast á við gjörning þeirra Sögu og Ragnars í stofunni. Verkið er neonljósaskilti með þessum orðum sem komið hafði verið fyrir ofan á þaki veitingastofu Louisiana-safnsins þar sem það lýsti í skandinavískri haustbirtunni með Eyrarsundið og Svíþjóð í bakgrunni. Verkið er ákaflega írónískt. Þversögn er falin í orðunum um að sársauki hrjái fólk í hinu norræna velferðarríki. Skiltið afhjúpar þá hugmynd enda sem vörumerki þessa sama velferðarríkis og upp í hugann koma Strindberg, Bergman, Kaurismäki og ýmsir fleiri (karlar, já, einmitt) sem hafa viðhaldið hugmyndinni í gegnum tíðina. Sársauki velferðarinnar er með öðrum orðum tilbúinn sársauki, sjálfskaparvíti, sjálfsmeðaumkun. Uppi á þaki Louisiana misstu orðin að minnsta kosti marks en skiltið æpti á safngestina.

Kómedían, tragikómedían

Eins og allir vita endar Gleðileikurinn guðdómlegi vel. Hjá Ragnari er það ekki jafn augljóst. Sýningin er miklu frekar tragikómísk. Ragnar er frábær greinandi og hann kann að hreyfa við tilfinningum áhorfenda, eins og áður var bent á, en þriðji eiginleikinn er auðvitað fyndnin, kersknin og hárbeitt írónían. Og hafi maður allt þetta til að bera hlýtur útkoman að verða góð.

Fjórða elementið í sýningunni er sagnagerðin. Það fer ekki fram hjá neinum að Ragnar býr yfir dramatískum hæfileika sem birtist með skýrum hætti í úthugsuðum sviðsetningum verka hans. Í þessari sýningu myndar sagnagerðin rauðan þráð sem gerir hana að óvenjulega sterkum viðburði. Hér á Tine Colstrup sýningarstjóri vafalítið hlut að máli.

Sýning Ragnars í Louisiana var að mörgu leyti einstök og ógleymanleg. Hún hlýtur að marka einhvers konar tímamót á ferli hans.

* Fyrir mistök féll niður að Margrét Bjarnadóttir og Bryce Dessner eru meðhöfundar Ragnars að verkinu No Tomorrow og hljómsveitin The National er meðhöfundur að verkinu A Lot of Sorrow og hefur það verið leiðrétt í vefútgáfu.

Höf.: Þröstur Helgason