Egill Jóhannsson
Egill Jóhannsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja hraða orkuskipta.

Jón Ólafur Halldórsson og Egill Jóhannsson

Stjórnvöld virðast ekki vita í hvorn fótinn þau eiga að stíga þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum. Glundroði ríkir.

Stjórnvöld hafa undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um samdrátt losunar á beinni ábyrgð Íslands sem nemur um 29% árið 2030 miðað við stöðuna árið 2005. Þau hafa sett sér enn metnaðarfyllri markmið í samvinnu við Evrópusambandið og Noreg um 55% samdrátt sama ár og stefna að heimsmeti með því að Ísland verði fyrsta jarðefnaeldsneytislausa land heims árið 2040. Ef illa tekst til blasa við allt að 10 milljarða kr. ríkisútgjöld á ári vegna kaupa á losunarheimildum eða innflutningur á rándýrum íblöndunarefnum sem margfalda gjaldeyrisútstreymi.

Árið 2022 áttu 33% af losun koltvísýrings á beinni ábyrgð Íslands uppruna sinn að rekja til vegasamgangna. Í þeim flokki hefur losun aukist með auknum efnahagsumsvifum. Í vegasamgöngum liggja þó mestu tækifærin til losunarsamdráttar þar sem nýting hreinorkutækni er þar lengst komin. Til að ná settum markmiðum hafa stjórnvöld m.a. ráðist í aðgerðir sem eiga að hraða orkuskiptum í vegasamgöngum.

Aðgerðir hafa skilað árangri

Frá því skattívilnanir litu fyrst dagsins ljós árið 2012 hefur hlutdeild hreinorkuökutækja í árlegum nýskráningum vaxið og nemur það sem af er líðandi ári ríflega 40%. Ökutækjafloti Íslendinga er hins vegar stór en við lok árs 2022 voru hér 278.528 ökutæki í umferð. Við búum í stóru landi undir skilyrðum vaxandi efnahagsumsvifa. Umsvif iðnaðar og ferðaþjónustu hafa m.a. leitt til gríðarlegrar fólksfjölgunar.

Þrátt fyrir ágætan árangur erum við enn langt frá fullum orkuskiptum. Hreinorkuökutæki voru aðeins 18.054 í lok árs 2022 eða 6,5% af heildarfjöldanum. Því er ljóst að það þarf að gera enn betur. Búast má við að ökutækjaflotinn í landinu nemi 328 þúsund ökutækjum árið 2030 og hreinorkubílar verði aðeins um 104 þúsund talsins eða 32%. Líklegt er að losun frá vegasamgöngum nemi þá 893 þúsund tCO2íg (koltvísýringsígildi) og verði í raun 15% meiri en árið 2005 en ekki 55% minni.

Á stuttum tíma hafa stjórnvöld gripið til eftirfarandi aðgerða:

Tekið hefur verið upp lágmarksvörugjald á hreinorkubíla og sparneytna bíla og þar með hefur dregið úr verðmun slíkra bíla og eyðslufrekra bíla.

Fjárhæð virðisaukaskattsívilnunar hreinorkuökutækja hefur lækkað og verður hún alfarið lögð af um næstu áramót.

Lágmarks bifreiðagjald var tvöfaldað um síðustu áramót og losunarmörk gjaldtökunnar hækkuð og því hefur dregið hlutfallslega úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubifreiða og eyðslugrannra bifreiða annars vegar og eyðslufrekra jarðefnaeldsneytisbifreiða hins vegar.

Sérstakt úrvinnslugjald er lagt á drifrafhlöður hreinorkuökutækja við nýskráningu.

Tilkynnt hefur verið um upptöku notkunargjalds m.a. á hreinorkubíla þannig að dragi úr mun á rekstrarkostnaði þeirra og jarðefnaeldsneytisbíla.

Tilkynnt hefur verið að til standi að gera frekari breytingar á skattlagningu eldsneytis sem gætu lækkað útsöluverð jarðefnaeldsneytis með þeim afleiðingum að dragi enn frekar úr mun á rekstrarkostnaði hreinorkubíla og jarðefnaeldsneytisbíla.

Stefnubreyting?

Samkvæmt umfjöllun í frumvarpi til fjárlaga 2024 mun ný gerð stuðnings vegna kaupa á hreinorkubílum taka gildi um næstu áramót. Orkusjóður mun úthluta fjárstyrkjum. Samhliða er ætlunin að draga umfang stuðningsins saman um sem nemur meira en 35% á nafnverði milli áranna 2023 og 2024 ef miðað er við umfang ívilnunar í virðisaukaskattskerfinu sem mun falla niður. Útfærsla nýja stuðningsins liggur enn ekki fyrir en ljóst er að fjármála- og efnahagsráðherra fellir breytinguna í flokk aðhaldsaðgerða sem ætlað er að vinna gegn verðbólgu.

Tvístígandi stjórnvöld hafa misst móðinn og hafa þau áhyggjur af dvínandi skatttekjum af ökutækjum og eldsneyti. Staðan hefur hins vegar verið fyrirséð allt frá þeim tíma þegar ákveðið var að beita efnahagslegum hvötum skattkerfisins til að vinna að orkuskipta- og loftslagsmarkmiðum. Hinar nýtilkomnu áhyggjur ríkisstjórnarinnar hafa leitt hana inn á ranga braut viðbragða sem draga úr virkni eigin aðgerða og hægja hraða orkuskipta. Fyrir vikið mun Ísland fjarlægjast sett markmið.

Einstaklingar og fyrirtæki eru um þessar mundir að velta fyrir sér hvernig sé skynsamlegt að haga sér við fjárfestingu í ökutækjum á næsta og þarnæsta ári. Hvaða bíla geta söluaðilar boðið upp á? Hvað munu bílar kosta? Hvað mun kosta að reka bíla? Er e.t.v. skynsamlegra að fjárfesta í bíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti þar til framtíðin verður skýrari? Þetta eru stórar spurningar en svörin fá í þeirri óvissu sem nú er uppi. Undirbúningur fjárlaga hefst að jafnaði að vori og því hlýtur að vera unnt að gera þá kröfu að stjórnvöld skipuleggi sig, vandi undirbúning og kynningu, svo fyrirsjáanleiki verði tryggður.

Einfalt að snúa blaðinu við

Stjórnvöld geta með einföldum hætti snúið við blaðinu og stutt við eigin markmið í loftslagsmálum næstu fimm árin með eftirfarandi aðgerðum og það án aukinna útgjalda á heildina litið.

Fellt niður lágmarksvörugjald af hreinorkubílum sem lagt var á um áramót en í staðinn lækkað losunarviðmið og gjaldþyngd vörugjalds af bílum sem ganga að hluta eða öllu leyti fyrir jarðefnaeldsneyti.

Aukið fjárhagslegt umfang stuðnings í gegnum Orkusjóð vegna kaupa á hreinorkubílum á árunum 2024 og 2025 en dregið á móti úr umfanginu sem aukningunni nemur árin 2027 og 2028.

Innleitt aðgerðir til hröðunar orkuskipta í vegasamgöngum sem vinnuhópur Samtaka atvinnulífsins, Samtaka verslunar og þjónustu, Bílgreinasambandsins og Samtaka ferðaþjónustunnar skilaði umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra í júní síðastliðnum í tengslum við loftslagsvegvísa atvinnulífsins.

Frestað upptöku notkunargjalds á hreinorkubíla a.m.k. til ársins 2025. Þar með gefst betri tími til undirbúnings og upptöku gjaldanna á alla ökutækjaflokka eftir vandlega greiningu og tímanlega kynningu fyrir almenningi og fyrirtæki.

Orkuskiptin eru eitt stærsta og mikilvægasta verkefni síðari tíma og þau er mikilvægt að taka föstum tökum. Glundroði getur reynst sandur í vél þeirra. Öllu skiptir að undirbúningur og framkvæmd aðgerða helgist af jafn miklum metnaði og markmiðin sem að er stefnt. Þær séu í samhengi, fyrirsjáanlegar, hagkvæmar, samvirkar og mælanlegar.

Jón Ólafur er formaður SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu. Egill er stjórnarmaður í Bílgreinasambandinu og SVÞ.