— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hver er Teddi LeBig? Það kemur í ljós í uppistandinu! Annars er ég bara sveitamaður sem er orðinn lattelepjandi Vesturbæingur. Hefurðu alltaf verið í uppistandinu? Það hefur alltaf verið draumur en ég hef ekki verið nógu duglegur að eltast við þennan draum en er að reyna að bæta úr því núna

Hver er Teddi LeBig?

Það kemur í ljós í uppistandinu! Annars er ég bara sveitamaður sem er orðinn lattelepjandi Vesturbæingur.

Hefurðu alltaf verið í uppistandinu?

Það hefur alltaf verið draumur en ég hef ekki verið nógu duglegur að eltast við þennan draum en er að reyna að bæta úr því núna. Ég hef aðeins verið með stutt uppistand ásamt öðrum, en núna í fyrsta sinn er ég með heilan klukkutíma einn. Ég get þá alla vega krossað þetta af listanum.

Hvar ætlarðu að troða upp?

Ég verð með sýningar í kaffihúsinu í Tjarnarbíói sem tekur um sextíu manns í sæti. Það er uppselt á fyrstu tvær sýningar en ég hef bætt við einni sýningu 24. nóvember. Sýningarnar eru á „happy hour“-tíma. Svo er ég reyndar með tvær aukasýningar í LYST í Lystigarðinum á Akureyri 10. og 11. nóvember sem verða að kvöldi til. Það seldist strax upp á fyrri sýningu en það eru enn til miðar á laugardagskvöldinu.

Ertu þá nýr uppistandari eða eru margir sem þekkja þig?

Fólk þekkir mig kannski ekki sem uppistandara en ég er duglegur á Twitter og er þar með hátt í þrjú þúsund fylgjendur. En það hefur alltaf blundað í mér að leika og vera í uppistandi. Ég hef leikið dálítið með áhugaleikhúsi en var reyndar að leika lítið hlutverk í bíómyndinni Ljósvíkingum sem kemur út á næsta ári.

Hvað ætlar þú að tala um, eigin reynsluheim?

Já, þetta er að einhverju leyti sjálfsævisögulegt. Ég geri grín að sjálfum mér. Ég tala um ást mína á Noregi, barneignir, ættfræði, raunir hávaxinna, þarmaflóruna og sjálfsefann svo eitthvað sé nefnt.

Efastu um sjálfan þig?

Já, það er nú þess vegna sem ég hef ekki byrjað fyrr. En ég er löngu orðinn hvítur miðaldra vanhæfur karlmaður þannig að ég læt vaða núna.

Theodór Ingi Ólafsson er uppistandarinn Teddi LeBig. Hann verður með sýninguna Úr einu í annað í Tjarnarbíói og í LYST á Akureyri á næstunni. Miðar fást á tix.is.