Tungutak
Baldur Hafstað
hafstad.baldur@gmail.com
Kennarinn: Jæja, krakkar mínir. Eigum við ekki að segja skrýtlur í dag? Ég er með eina:
– Mamma, mamma! Ég vil ekki fara til Ástralíu!
– Hættu þessu, krakki, og haltu áfram að synda!
N.1: Kennari, væri ekki í lagi að geyma skrýtlur þangað til í frímínútum? Við erum hér í kennslustund og megum engan tíma missa. Litlu þrýstihóparnir linna ekki látum og vilja segja okkur hvernig við eigum að tala. Við berum mikla ábyrgð, eða ertu kannski búinn að gleyma að kennslustund okkar um títuprjónana á RÚV var deilt 728 sinnum á sveitasímanum á örfáum dögum. Fólkið í landinu þarf á hvatningu að halda. Það vill ekki nýlenskuna, það vill ekki „málvönunina“ (sbr. vísu Þ. Eldj.).
N.2. Einmitt. Við þurfum að gera háværu þrýstihópunum ljóst að fólkið vill fá að tala það mál sem það hefur alist upp við. Ég hitti Skagfirðing í Kringlunni um daginn og hann þakkaði mér fyrir þetta framlag okkar og bað fyrir kveðju. Hann sagði að allir Skagfirðingar stæðu með okkur – nema einn brottfluttur! [Skellihlátur.] Skagfirðingurinn talaði um „litlar klíkur í Reykjavík“ í þessu sambandi.
N.3: Ég hef einmitt bent á þetta; við heyrum í viðtölum við landsbyggðarmenn að þeir segja aldrei „mörg mættu“ eða „tvö tóku til máls“. Hvers vegna vilja sumir starfsmenn Ríkisútvarpsins skera sig úr og tala annað mál en við hin?
N.4: Þetta er allt út af hræðslu RÚV við málfræðilega karlkynið í kynhlutlausri merkingu, sbr. fréttina um að „þrjú“ hefðu verið handtekin fyrir hryðjuverk.
N.5: Fylgifiskur þessarar „nýjungar“ er sá að orðið „maður“ er nánast bannorð hjá RÚV. Þú átt að segja „manneskja“ og „einstaklingur“ og „aðili“: manneskja ársins; 21 manneskja var handtekin; … varð hundrað að bana. Það má ekki lengur segja hundrað manns. Fréttamenn RÚV taka hvað eftir annað eigin máltilfinningu úr sambandi.
N.6: Hægan, hægan, ekki allir! Jóhanna Vigdís lét ákvörðun RÚV um að breyta „manni ársins“ í „manneskju ársins“ eins og vind um eyrun þjóta og fékk mikið lof fyrir.
N.7: Og gleymum ekki litlu sigrunum. Auglýsingadeild RÚV brást skjótt við athugasemdum okkar og samþykkti með lófataki að hætta að auglýsa: „Öll velkomin“; hún auglýsir nú: „Verið öll velkomin.“ Sá sem segir „öll velkomin“ hefur tekið eigin máltilfinningu úr sambandi tímabundið, hinn ekki.
N.8: Litlu sigrarnir eru fleiri því að þeim fréttamönnum hefur fækkað sem taka máltilfinningu sína úr sambandi. Og virðuleg menntastofnun, sem hafði breytt nafngiftinni „starfsmannafundur“ í vandræðaorðið „starfsfólksfund“, sneri ákvörðun sinni við þegar þetta var orðið aðhlátursefni innan skólans.
N.9: Og starfsmaður við Háskóla Íslands fór allt í einu að kalla sig „forkonu“ í einni nefndinni og brást ókvæða við léttu gríni sem gert var að þessu. Annar starfsmaður bætti svo um betur og vildi verða „forynja“.