Pétur Bergholt Lúthersson fæddist 2. september 1936. Hann lést 9. október 2023. Útför Péturs fór fram 27. október 2023.

Pétur var góður vinur okkar í Hönnunarsafni Íslands enda varðveitir safnið fjölda gripa eftir hann ásamt teikningum. Árið 2002 var haldin yfirlitssýning í safninu á stólum Péturs sem hann hafði hannað yfir 40 ára tímabil. Pétur lauk sveinsprófi í húsgagnasmíði í Reykjavík 1958 og nokkrum árum seinna námi í innanhússarkitektúr í Kunsthandværkerskolen í Kaupmannahöfn. Hans sterka hlið var að hanna vönduð húsgögn og ljós til fjöldaframleiðslu. Pétur hannaði talsvert af skrifstofuhúsgögnum og innréttingum. Hann starfaði fyrir fjölda innlendra og erlendra fyrirtækja og má þar nefna Gamla kompaníið, Axis húsgögn, Trésmiðjuna Víði, Stáliðjuna og Málmsteypu Ámunda Sigurðssonar. Hann vann einnig í samstarfi við erlend fyrirtæki svo sem Labofa í Danmörku, Hutten Selection Norm í Hollandi, Heinrich Brune og Rosenthal Einrichtung í Þýskalandi.

Ég heimsótti Pétur á heimili hans og Birgitte fyrir fimm árum og þá uppgötvaði ég hversu mikill snillingur hann var í módelgerð. Hann var mikill spjallari, glaðvær og fylginn sér. Það upplifði ég þegar hann ítrekað hringdi í mig til að fá mig til að lesa æviminningar sínar. Loksins lét ég svo verða af því aðallega af því hann fylgdi þessu svo vel eftir. Þegar ég byrjaði gat ég ekki hætt og komst þá að því að Pétur var frábær textasmiður með skarpt minni og skemmtilegan frásagnarstíl. Saga hans er svo merkileg. Hann var alinn upp í Bergsholti í Staðarsveit við bág kjör, aðstæður voru þannig að ekki voru tök á að senda hann í menntaskóla en 17 ára var hann sendur í iðnnám og rúmlega 30 árum síðar var hann búinn að koma stól í framleiðslu hjá hinu heimsþekkta hönnunarfyrirtæki Rosenthal Einrichtung í Þýskalandi. Það er himinn og haf milli þessara tveggja heima, Bergsholts og Rosenthal, en Pétur lét það ekki stoppa sig frekar en annað.

Ég votta Birgitte og fjölskyldu Péturs samúð mína.

Sigríður í Hönnunarsafni Íslands.