Tónlistarmaður Arnar Jónsson hljóðritaði lög í Los Angeles.
Tónlistarmaður Arnar Jónsson hljóðritaði lög í Los Angeles.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefnt er að því að markaðssetja lög eftir Arnar Jónsson í Bandaríkjunum á næsta ári. Hann hljóðritaði lög í Sunset Sound-hljóðverinu í Los Angeles í sumar með útgáfu á Íslandi í huga en henni hefur verið frestað þar til eftir áramót

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Stefnt er að því að markaðssetja lög eftir Arnar Jónsson í Bandaríkjunum á næsta ári. Hann hljóðritaði lög í Sunset Sound-hljóðverinu í Los Angeles í sumar með útgáfu á Íslandi í huga en henni hefur verið frestað þar til eftir áramót. „Ég á töluvert fleiri lög og David Kershenbaum vill fyrst kanna möguleikana vestanhafs,“ segir Arnar.

Tildrög málsins eru þau að í september í fyrra segist Arnar hafa vantað textahöfund og skráð sig inn á síðuna soundbetter.com, sem sé nokkurs konar alþjóðleg miðstöð fyrir fólk sem tengist tónlist á einn eða annan hátt. Ekkert svar hafi borist næstu daga, en þegar hann hafi farið aftur inn á síðuna í maí hafi hann séð þar skilaboð frá David Kershenbaum plötuframleiðanda frá því í desember. Honum hafi litist vel á kynningarlögin og óskað eftir frekari upplýsingum. „Ég sendi honum tvö lög til viðbótar og komst svo að því að hann er sleggja vestanhafs, hefur unnið og útsett plötur með Tracy Chapman, Police, Bryan Adams, Joe Jackson, Kenny Loggins og fleirum af þessum toga.“

Af efstu hillu

Daginn eftir segir Arnar að David Kershenbaum hafi óskað eftir zoom-fundi. Niðurstaðan hafi verið sú að Bandaríkjamaðurinn hafi viljað framleiða plötu með lögum hans. Þeir hafi gert samning þar um, valið sex lög og tekið upp fimm þeirra. David Kershenbaum hafi bent á mögulega hljóðfæraleikara eins og til dæmis Leland Sklar. „Hann er einn besti og reyndasti bassaleikari í heiminum og spilaði meðal annars með Phil Collins í um 30 ár,“ staðhæfir Arnar og bætir við að hann hafi einnig leikið með Toto, Bee Gees og James Taylor. Denny Fongheiser, trommuleikari í rokkbandinu Heart, spili á trommur og Nick Tsang, gítarleikari Eds Sheerans, spili á gítar. Aðrir erlendir hljóðfæraleikarar eigi jafnframt hlut að máli og sjálfur spili hann á kassagítar. „Þetta er einvalalið af efstu hillu og allir nema ég hafa unnið Grammy-verðlaun.“ Pétur Valgarð spili á rafmagnsgítar í nokkrum lögum, Kristinn Sturluson á gítar í einu lagi og stjórni upptökum á strengjahljóðfærum, Kristín Lárusdóttir spili á selló og Ásta Kristín Pjetursdóttir á víólu, en framlag þeirra hafi verið tekið upp hérlendis.

Tónlistarferill Arnars hófst í grunnskóla. Hann sigraði í söngvakeppni Fjölbrautaskólans í Ármúla 2005 og á árunum 2007-2010 var hann í strákabandinu Luxor, gaf út nokkur lög og var með háleita drauma á tónlistarsviðinu. Síðan kom hann víða við, söng í einkasamkvæmum og í Söngvakeppni Sjónvarpsins og víðar. Vorið 2019 var hann á tónleikum hjá kanadíska söngvaranum Michael Bublé og söng með honum eitt lag. „Það var frábært að syngja dúett með einu af tónlistargoðunum mínum fyrir framan 20 þúsund áhorfendur,“ rifjar hann upp. Hólmfríður Ósk Samúelsdóttir, Hófí Samúels, gaf út plötu í liðinni viku og lagði Arnar henni lið.

„Þetta er klárlega eitt mest spennandi verkefni sem ég hef tekið mér fyrir hendur í tónlist,“ heldur Arnar áfram um útgáfuna vestanhafs. Hann er húsasmiður og með B.Sc.-gráðu í vélorkutæknifræði frá Háskólanum í Reykjavík og tók nýlega við sem aðstoðarmaður skipulags- og byggingarfulltrúa á Hvolsvelli. „Það er ótrúlegt að þetta sé að gerast hjá verkfræðingi á Íslandi, en markmið mitt sem fyrr er að geta unnið við tónlist, að fara út fyrir landsteinana og spila mína eigin tónlist.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson