Ennfremur hefir oss tekist að fá nokkra af þeim mönnum, hér í bæ, sem bezt og skemtilegast rita til að lofa aðstoð sinni við Morgunblaðið.

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Símanúmerið á ritstjórn Moggans annan nóvember 1913 var 500 en til að ná í afgreiðsluna var hringt í 48. Mikið vatn er runnið til sjávar síðan, en einmitt þennan dag kom Morgunblaðið út í fyrsta sinn undir ritstjórn Vilhjálms Finsen. Það varð því 110 ára nú í vikunni sem verður að teljast ansi gott fyrir fjölmiðil. Til hamingju Moggi!

Á forsíðu fyrsta tölublaðsins, sem var átta síður, mátti lesa þessi orð Vilhjálms: Dagblað það, sem hér byrjar starf sitt, á fyrst og fremst að vera áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað.

Hann heldur áfram: En Morgunblaðið tekur engan þátt í flokkadeilum, þó það auðvitað muni gefa lesendum sínum kost á að kynnast fljótt og greinilega öllu því helzta er gerist í lands- og bæjar málum.

Vilhjálmur útskýrir svo hvað nýja blaðið muni bjóða lesendum upp á: Símfréttir munu við og við birtast frá öllum stærri bæjum og kauptúnum landsins, og úr sveitum, þegar þess gefst kostur. Þá munum vér og einnig gera vort ítrasta til þess að hafa efni blaðsins að öðru leyti eins skemtilegt og fræðandi sem frekast er unt.

Ennfremur hefir oss tekist að fá nokkra af þeim mönnum, hér í bæ, sem bezt og skemtilegast rita til að lofa aðstoð sinni við Morgunblaðið. Enginn einn maður skapar nýtízku dagblað. En með góðri samvinnu rithöfunda, lesenda og auglýsenda, virðast öll skilyrði vera fyrir hendi til þess að Reykjavíkurbær geti eignast hið langþráða frétta-, fræði- og skemtidagblað, sem er markmið Morgunblaðsins að verða.

Í blaðinu þennan dag eru skemmtilegar auglýsingar um tóbak, osta og pylsur, undirföt, regnföt og glansföt, skauta og gullskúfhólka, kaffi, rúðugler og kítti, fóðurmjöl, súkkulaði og nýtízkuefni. Ein auglýsingin hljómar svona:

Matvörurnar í matarverzlun Tómasar Jónssonar mæla með sér sjálfar. Nýjar kjötbirgðir hvern dag! Nýtt kálmeti með hverri skipsferð! Hvers óska menn frekar?

Önnur hljómar svona: Mjólkurleysið í bænum, Kaffið í Bankastræti nr. 4 þarf enga mjólk eða neinn rjóma til bragðbætis. Það er svo bragðgott sjálft, að nokkur blöndun er með öllu óþörf.

Skemmtilegt er að skoða þetta fyrsta tölublað af tugþúsundum sem út hafa komið. Að sjálfsögðu hefur Morgunblaðið breyst í áranna rás en alltaf segjum við fréttir, fræðum og skemmtum fólki, alveg eins og lofað var í upphafi.