„Ég hugsaði með mér: Sá almerkilegasti af þessu tagi er maðurinn sem varð heimsmeistari í skák á Íslandi.“
„Ég hugsaði með mér: Sá almerkilegasti af þessu tagi er maðurinn sem varð heimsmeistari í skák á Íslandi.“ — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í nýrri skáldsögu sinni Heimsmeistari skrifar Einar Kárason um Bobby Fischer „Ég er að skrifa skáldsögu um Ameríkana sem varð heimsmeistari í skák á Íslandi án þess að hann sé nefndur á nafn. Þar sem einungis einn Ameríkani hefur orðið heimsmeistari í skák á Íslandi þá er tengingin við Bobby Fischer augljós,“ segir Einar.

Í nýrri skáldsögu sinni Heimsmeistari skrifar Einar Kárason um Bobby Fischer „Ég er að skrifa skáldsögu um Ameríkana sem varð heimsmeistari í skák á Íslandi án þess að hann sé nefndur á nafn. Þar sem einungis einn Ameríkani hefur orðið heimsmeistari í skák á Íslandi þá er tengingin við Bobby Fischer augljós,“ segir Einar.

Fischer varð heimsmeistari í Reykjavík árið 1972 í einvígi aldarinnar, eins og viðureign hans við hinn rússneska Boris Spasskí var kölluð. „Ég var á sínum tíma heltekinn af þessu einvígi, sextán ára strákur, og ég man að á sama ári las ég í fyrsta sinn Manntafl eftir Stefan Zweig,“ segir Einar. „Með árunum fóru að verða æ meiri tengingar á milli bókarinnar og þessa mikla viðburðar sem ég hafði fylgst með.

Ég var oft með það í huga að þarna væri stórt og merkilegt söguefni. Svo datt ég í að lesa bækur eftir annan austurrískan höfund, Thomas Bernhard, sem lést árið 1989, en er alltaf að verða stærra nafn í evrópskum 20. aldar bókmenntum. Hann skrifaði mikið um snillinga, tónsnillinga, heimspekinga, rithöfunda, sem eru orðnir rosknir, uppfullir af þráhyggju, og búnir að mála sig út í horn í veröldinni. Ég hugsaði með mér: Sá almerkilegasti af þessu tagi er maðurinn sem varð heimsmeistari í skák á Íslandi. Það sem meira er þá kom hann hingað og lifði hér síðustu æviárin.“

Móðurbróðir Einars er Einar S. Einarsson, sem var í forsvari fyrir hóp sem vann að því að Fischer yrði látinn laus úr fangelsi í Japan og fengi íslenskan ríkisborgararétt. „Ég heyrði margar sögur af Fischer og hafði aðgang að ýmsum upplýsingum. Það hefur verið skrifað töluvert um hann og í seinni tíð í alltof fáránlega neikvæðum, allt að illgjörnum, tón.

Ég las sjö til átta bækur sem hafa verið skrifaðar um hann og fékk einhverja hugmyndir þaðan. Á einum stað er sagt frá því þegar hann fer í veiðiferð á Íslandi og mér fannst það varpa skemmtilegu ljósi á hann. Svo eru til upptökur af honum á leiðinni til landsins þar sem hann er að syngja dægurlög og kann alla textana. Einn af þeim sem skrifuðu um hann hér á Íslandi sagði frá því að hann væri mikill dýravinur og hefði mikið lag á köttum og hundum. Ég nota svona lýsingar til að fylla út í myndina af honum og stækka hana. Fischer var miklu margbrotnari en margir hafa álitið.“

Einar hitti Fischer einu sinni. „Hann heilsaði, hafði hlýlega nærveru og fallegt augnaráð.“

Þráhyggjukennd hugsun

Spurður hvernig gengið hafi að finna réttu aðferðina við að segja söguna svarar Einar: „Ég velti fyrir mér ýmsum möguleikum, eins og hvort ég ætti að hafa frásögnina í fyrstu persónu en sá að það myndi ekki passa. Ég velti fyrir mér að skipta frásögn milli sjónarhorna eins og ég geri stundum í bókum mínum, en fannst það heldur ekki passa. Svo þegar ég fór að vinna með þriðju persónu, þá fannst mér það vera nákvæmlega rétta aðferðin, að vera eiginlega við hlið hans, tala eins og skuggi hans og og vita hvað hann er að hugsa.“

Komst í mikið stuð

Stíllinn byggist upp á löngum setningum. „Fischer hugsaði rosalega hratt og ég held að þar hafi alltaf verið margar hugsanir í gangi í einu. Hann var skákmaður sem þurfti að reikna út á sama augnablikinu alls kyns möguleika. Það er kannski það sem ég er að ná fram og líka þessari hröðu, þráhyggjukenndu hugsun hans.“

Þótt Einar styðjist við heimildir leyfir hann sér líka mikið frjálsræði, það er til dæmis engin japönsk eiginkona í sögu hans. Er það til að leggja áherslu á einsemd og einangrun heimsmeistarans?

„Undir lokin voru það aðallega japanska eiginkonan og einstaka íslenskir vinir sem Fischer hafði samband við. Það sem öllu máli skiptir er þessi gríðarlega einsemd hans allt hans líf sem ágerist undir lokin þegar hann er búinn að missa heimaland sitt og öll tengsl þangað. Hann er hér á landi og smám saman fer hann að ímynda sér, með réttu eða röngu, að menn standi ekki með honum til fulls.“

Einar segist hafa komist í mikið stuð þegar hann vann að bókinni. „Þegar ég taldi mig vera búinn að vinna þann daginn var ég að hlaupa þrisvar til fjórum sinnum í tölvuna til að bæta við söguna. Svo spilaði inn í að það leit mjög illa út með heilsufar í minni nánustu fjölskyldu í byrjun árs. Svo komu miklu betri fréttir og það lyfti mér líka á flug.“