Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Umræða á Alþingi um stuðning við einkarekna fjölmiðla á Íslandi hefur fyrst og fremst verið römmuð inn sem vandamál í rekstri vegna ójafnrar samkeppnisaðstöðu á auglýsingamarkaði. Þó er nauðsynlegt að horfa til fleiri þátta, segir Birgir Guðmundsson, prófessor við Háskólann á Akureyri. Þau Birgir og Valgerður A. Jóhannsdóttir, dósent við Háskóla Íslands, fluttu í gær erindi á Þjóðarspegli – ráðstefnu Félagsvísindastofnunar HÍ – sem þau nefndu Frjálslynt eða norrænt velferðarkerfi í fjölmiðlum.
Efasemdir um markaðsmiðla
Birgir bendir í samtali við Morgunblaðið á að þegar fjölmiðlamál hafi verið rædd á vettvangi stjórnmálanna hafi lítið verið rætt um aðrar áskoranir en afkomu og rekstur. Mikilvægt sé þó að gefa öðrum atriðum gaum, svo sem því að hefðbundið upplýsingakerfi lýðræðis hafi raskast vegna tækniþróunar og upplýsingaóreiðu.
Á Íslandi hefur opinber stuðningur við fjölmiðla að mestu einskorðast við rekstur RÚV, segir Birgir. Svo hefur verið litið á að ríkið ætti að hafa sem minnst afskipti af frjálsum og einkareknum fjölmiðlum. Slíkir væru best komnir undir lögmálum markaðarins. Efasemdir um þessa nálgun hafi þó á síðustu árum orðið meira áberandi. Hugmyndir um norrænt velferðarmódel í fjölmiðlum hafi verið einn þráður í umræðum um stuðning við fjölmiðla á Alþingi árið 2020, þegar Lilja Alfreðsdóttir lagði fram frumvarpið um málið og talaði fyrir því.
„Hugmyndin var í raun að umbylta fjölmiðlastefnu stjórnvalda frá því að vera fyrst og fremst frjálslynt afskiptaleysi í eitthvað annað og meira. Með slíku væri viðurkennt í raun að fjölbreytni í fjölmiðlum er annað en fyrirtækjarekstur. Þetta er grundvallaratriði í upplýsingakerfi lýðræðisins,“ segir Birgir og heldur áfram:
„Og án þess að gera á nokkurn hátt lítið úr rekstrarvanda fjölmiðla er nú tekin marglaga umræða sem snertir rekstur, hugmyndafræði, tungumálið, blaðamennsku, menningu, tækniþróun í upplýsingum og í raun sjálft lýðræðið. Slík mál eru talsvert rædd hjá norrænum frændum okkar þegar fjölmiðlar eru annars vegar, en síður hér á landi.“
Fjölmiðlastefna stjórnvalda er óskrifað blað
Birgir segir hugmyndafræðilegar deilur um stuðning við fjölmiðla ennþá áberandi hér. „Fyrir vikið er óvíst hvort grundvallarbreyting verði á fjölmiðlakerfinu á Íslandi, því geta tiltölulega litlar hreyfingar á pólitísku fylgi ráðið. Þó verður áhugavert að sjá hver þróunin verður, nú þegar fyrir liggur áframhaldandi stuðningur við einarekna miðla, um sinn að minnsta kosti. Eins hefur verið boðuð sérstök fjölmiðlastefna stjórnvalda, en framkvæmd hennar og útfærsla er óskrifað blað.“