Líf og fjör Vigdís Halla Birgisdóttir sem dvergtröllið Skrúfa og Øystein Magnús Gjerde sem dvergurinn Austri.
Líf og fjör Vigdís Halla Birgisdóttir sem dvergtröllið Skrúfa og Øystein Magnús Gjerde sem dvergurinn Austri. — Ljósmyndir/Tara Ösp Tjörvadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta á upphaf sitt í því að fyrir þremur árum var ég að vinna fyrir austan í samstarfi við Sláturhúsið með leikhópnum mínum sem heitir Svipir. Þá gerði ég leiksýningu upp úr handriti sem skrifað er af Árna Friðrikssyni kennara fyrir austan, en hann leikur einmitt í leikritinu núna

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbls.is

„Þetta á upphaf sitt í því að fyrir þremur árum var ég að vinna fyrir austan í samstarfi við Sláturhúsið með leikhópnum mínum sem heitir Svipir. Þá gerði ég leiksýningu upp úr handriti sem skrifað er af Árna Friðrikssyni kennara fyrir austan, en hann leikur einmitt í leikritinu núna. Þá var í bígerð að bæta aðstöðuna í Sláturhúsinu með nýju og stærra sviðsrými og sú hugmynd spratt fram milli mín og Ragnhildar [Ásvaldsdóttur] forstöðukonu í Sláturhúsinu að gaman væri að skrifa opnunarleikrit sem væri sérstaklega skrifað fyrir nýja sviðið. Við ákváðum að ég myndi skrifa barnaleikrit af því að börn eru áhorfendur framtíðarinnar. Ég setti saman hugmynd á blað og hlaut náð hjá Uppbyggingarsjóði Austurlands og þá varð ekki aftur snúið. Ég settist niður til að semja verkið,“ segir Þór Tulinius leikari og leikstjóri, en nýtt íslenskt barnaleikrit eftir hann, Hollvættir á heiði, verður frumsýnt í dag í Sláturhúsinu menningarmiðstöð á Egilsstöðum. Þessi atvinnuleiksýning er tvímælalaust stærsta sviðslistaverkefni sem Sláturhúsið hefur framleitt, en í Hollvættum á heiði segir af systkinunum Fúsa og Petru sem fara að næturlagi að leita að Þokkabót, uppáhaldsánni sem ekki hefur skilað sér af fjöllum. Þeim berst liðsauki frá dvergtröllinu Skrúfu og um nóttina lenda þau í ýmsum ævintýrum þar sem galdrasteinar, söngelskir álfar, ruglaðir dvergar og Lagarvatnsormur koma meðal annars við sögu. Ævintýrið er kryddað með sérsaminni tónlist og söng.

„Þetta leikrit er mjög innblásið af menningu og náttúru þarna fyrir austan, við sögu koma hreindýr, fjölbreyttar steinategundir, fjárbændur, sauðfé og fleira. Aðalpersónurnar heita í höfuðið á frægum Austfirðingum, til dæmis er Fúsi skírður í höfuðið á Sigfúsi Sigfússyni sem safnaði saman þjóðsögum fyrir austan og Petra sækir nafn sitt til Steina-Petru sem safnaði steinum á Stöðvarfirði. Ég lét allt þetta svæði seytla inn í mig áður en ég byrjaði að skrifa,“ segir Þór og bætir við að boðskapur verksins sé marglaga.

„Þarna er mikið þras á milli heima, rétt eins og er í dag í mannheimum. Við mannfólkið erum alltaf að þrasa, en ættum kannski að gera minna af því. Mér er líka hugleikin umgengni okkar við náttúruna og svo er fjölbreytileikanum fagnað í þessu verki, því þarna takast ástir með trölli og dverg. Ástir milli heima eru klassískt efni í söngleikjum, til dæmis í West Side Story og Rómeó og Júlíu,“ segir Þór, sem leikur sér með alls konar sjaldséð orð í leikritinu.

„Ég er mjög meðvitaður um að láta texta fyrir börn ekki vera of einfaldan, og Ágústa [Skúladóttir] leikstjóri er á sömu línu, því börn eru mjög klár og hafa gaman af orðum. Tungumálið þróaðist í mismunandi áttir þegar ég var að skrifa þetta, til dæmis er orðaforði og orðnotkun tröllsins líka til að skapa sérstöðu fyrir þann heim.“

Þór segist sérlega ánægður með hópinn sem kemur að uppsetningu verksins, en hann samanstendur bæði af lærðum og leikum og kemur bæði frá höfuðborginni og austan af fjörðum.

„Ágústa sá um leikaravalið og í aðalhlutverkum eru þrír ungir atvinnuleikarar að sunnan, Jökull Smári Jakobsson, Vigdís Halla Birgisdóttir og Kristrún Kolbrúnardóttir, en brúðuleikkonan Tess Rivarola, sem býr á Seyðisfirði en er frá Paragvæ, stýrir brúðunni Þokkabót sem brúðugerðarkonan Aldís Davíðsdóttir skapaði af mikilli snilld. Við Ágústa vorum með áheyrnarprufur fyrir austan fyrir öll hin hlutverkin og við fundum marga snillinga þar, meðal annars eru tvenn feðgin, þau Árni Friðriksson og dóttir hans Gyða og Stefán Bogi Sveinsson og dóttir hans Auðbjörg Elfa. Auk þess eru í hópnum brilljant listamenn að austan, til dæmis tónlistarstjórinn Øystein Magnús Gjerde sem sér um að skapa hljóðheiminn í verkinu. Eyvindur Karlsson semur tónlistina. Í hópnum er líka atvinnusöngkonan Hlín Behrens. Þetta er fjölbreyttur og skemmtilegur hópur, en auðvitað er viss áskorun fyrir leikstjórann að stýra stórum hópi þar sem tveir reynsluheimar nætast, fagfólk og leikmenn, en Ágústa leysir þetta mjög vel.“

Þór segir að sennilega komi sýningin ekki suður til höfuðborgarinnar, til þess sé flækjustig of mikið.

„Höfundurinn var svo galinn að skrifa leikrit með svo mörgum persónum að það gerir það ferlega flókið og dýrt. Þetta fólk þarf að sinna sínum störfum og námi fyrir austan, svo það er ekki hlaupið að því að sýna fyrir sunnan, en hver veit …“ segir Þór, sem hefur áður skrifað nokkur leikrit.

„Ég skrifaði mitt fyrsta leikrit á níunda áratugnum með Ásu Hlín Svavarsdóttur og ég hef líka gert nokkrar leikgerðir upp úr bókum, til dæmis Manntafli og Dal hinna blindu. Einnig skrifaði ég leikritið Framtíðardrauga fyrir Borgarleikhúsið og ég var með einleik í Landnámssetrinu í Borgarnesi sem heitir Blótgoðar.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir