Bláfjöll Unnið í lóninu fyrir snjóframleiðsluna í haust.
Bláfjöll Unnið í lóninu fyrir snjóframleiðsluna í haust. — Morgunblaðið/Eggert
Útlit er fyrir að starfsmenn í Bláfjöllum geti hafist handa síðar í mánuðinum við að framleiða snjó fyrir skíðasvæðið en vinna við að koma snjóframleiðslu í gagnið er nú í fullum gangi, að sögn Magnúsar Árnasonar, framkvæmdastjóra skíðasvæðanna á höfuðborgarsvæðinu

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Útlit er fyrir að starfsmenn í Bláfjöllum geti hafist handa síðar í mánuðinum við að framleiða snjó fyrir skíðasvæðið en vinna við að koma snjóframleiðslu í gagnið er nú í fullum gangi, að sögn Magnúsar Árnasonar, framkvæmdastjóra skíðasvæðanna á höfuðborgarsvæðinu.

„Nú er verið að fylla lónið og Veitur vinna alla daga í að koma straumi á kerfið. Borholan virðist hafa skilað því sem henni var ætlað að skila. Verkið er því á lokametrunum en þegar kominn er straumur á kerfið verður þrýstiprófað á ný.

Við erum að horfa á aðra eða þriðju vikuna í nóvember þar sem kerfið ætti að vera tilbúið og er það í samræmi við áætlanir. Það væri gott að geta byrjað að framleiða snjó fyrir desember,“ segir Magnús en tekur fram að veðurfarið geti haft áhrif á framvinduna.

Alger bylting

„Þetta verður alger bylting fyrir okkur. Við höfum reyndar barist fyrir þessu lengi. Þegar ég réð mig til skíðasvæðanna sumarið 2007 var eitt af mínum fyrstu verkum að funda í Skálafelli með fulltrúum frá Veitum og fulltrúum frá snjóveitufyrirtæki.

Veitur ætluðu þá að fjárfesta í slíku tæki fyrir okkur en í bankahruninu fór allt í baklás. Upp úr 2010 minnir mig að við höfum farið að berjast fyrir þessu á ný og okkur finnst því kominn tími til að þetta verði að veruleika.“

Magnús segir að erfitt sé að átta sig á því hvort dögum fjölgi mikið þar sem hægt er að hafa opið með snjóframleiðslu að vopni. Veðurguðirnir spili mikið inn í en Magnús segir að með þessu sé alla vega hægt að tryggja lágmarksrekstrargrundvöll.

Örfá snjókorn síðasta vetur

„Síðasta vetur var frost allan desember en aðeins þrisvar yfir veturinn kom smá snjóföl. Sá snjór var svo léttur að hann fauk nánast niður í borg.

Þá voru í raun afar góðar aðstæður til að framleiða snjó en við héngum á örfáum snjókornum allan veturinn. Á hinn bóginn var allt á kafi í snjó veturinn þar áður og brjálað veður.

Það er því erfitt að gera nákvæmar áætlanir en ef við getum haft opið oftar en áður þá verður bara brugðist við því,“ segir Magnús Árnason.

Höf.: Kristján Jónsson