Svona leit kaffihúsið Mokka út árið 1958. Ekki fylgir sögunni hvort fullir dónar gerðu þar usla.
Svona leit kaffihúsið Mokka út árið 1958. Ekki fylgir sögunni hvort fullir dónar gerðu þar usla. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fullir dónar eru annars eitt hvimleiðasta og vandasamasta málið, sem veitingamenn hérlendis eiga við að stríða,“ sagði veitingamaður nokkur, sem ekki lét nafns síns getið, í bréfi til Velvakanda í Morgunblaðinu haustið 1953

Fullir dónar eru annars eitt hvimleiðasta og vandasamasta málið, sem veitingamenn hérlendis eiga við að stríða,“ sagði veitingamaður nokkur, sem ekki lét nafns síns getið, í bréfi til Velvakanda í Morgunblaðinu haustið 1953.

Viðkomandi kvaðst hafa dvalist um lengri tíma í fjórum borgum ytra, sem hann nafngreindi þó ekki, en hvergi orðið þess var, að gestir gerðu eða gætu gert sér leik að því að ónáða og óvirða afgreiðslufólk á matsölustöðum. „Hér virðist hins vegar allt leyfilegt. Ég hef heyrt drukkinn mann æpa ókvæðisorðum að heiðvirðri og með afbrigðum prúðri stúlku, sem kvaðst ekki geta afgreitt hann. Það, sem maðurinn sagði, var ekki prenthæft, en gestir hlógu að honum í stað þess að verja stúlkuna og teyma dónann út. Sannaðist þarna það, sem Helgi Hjörvar mælti svo réttilega í útvarpið í sumar: „Rónarnir eiga landið.“

Að sögn veitingamannsins var það einmitt vegna þessara róna sem mjög erfitt var að fá góðar stúlkur til að gegna afgreiðslustörfum á veitingahúsum. „Þær gefast fljótlega upp, þegar þær eru daglega ausnar auri fyrir það eitt að framfylgja settum reglum. Allir vita, að bannað er að hafa áfengi um hönd á matsölustöðum. Auk þess er kunnugt, að flestir siðlegir gestir flýja þann veitingastað, er líður drukkna menn. Þeir vilja ekki umgangast dóna, sem rápa milli borðanna, hella niður súpunni, klæmast við starfsstúlkurnar o. s. frv. enda er kappsmál sérhvers heiðvirðs veitingamanns, sem vill geta stundað atvinnu sína, að bægja þessum fuglum frá húsakynnum sínum með öllum hugsanlegum ráðum.“

Tilefni skrifa veitingamannsins voru skrif Þórs nokkurs sem birtust á sama vettvangi fáeinum dögum áður. „Skiptu þér ekki af því, þér kemur það ekki við – Ég álít mér ekkert mannlegt óviðkomandi. – Hvort er réttara?“ velti hann fyrir sér í upphafi máls síns.

Saga Þórs var þessi: „Eitt kvöld sem oftar sat ég ásamt tveimur kunningjum mínum inni á kaffihúsi einu hér í bænum. Inn kemur maður og biður um að fá keypt tóbak en var synjað vegna ölvunar. Við þekktum manninn ekkert, en hann var fullkomlega rólegur, mátti vart greina, að hann væri ölvaður. Hann fór ekki fram á að fá keypt kaffi en settist niður og vildi ekki fara út.“

Afgreiðslustúlkurnar tóku þá til sinna ráða og hringdu á lögregluna sem kom von bráðar og tók manninn á brott. En við næsta borð sátu menn og drukku áfengi. „Okkur fannst við ekki geta látið þetta afskiptalaust – hér var ekki hið sama látið yfir báða ganga. Okkur var gefið í skyn, að þetta kæmi okkur ekki við og síðan neitað um afgreiðslu. Við spurðum eiganda veitingahússins um ástæðuna fyrir þessari framkomu gagnvart okkur og fengum það svar, að við hefðum komið dónalega fram við stúlkurnar. Við sögðum honum hvað okkur hafði farið á milli og hann átti ekkert svar við því.“

Þór og félagar furðuðu sig á þessari framkomu, ekki síst þar sem þeir höfðu jafnan haft mikil viðskipti við umgetinn veitingastað, og varð á að spyrja hvort viðunandi væri, að duttlungar afgreiðslufólks fengju að ráða hverja það afgreiddi og hverja ekki. „Gerðum við rétt í að hafa afskipti af þessu, frekar en að láta það afskiptalaust?“ spurði Þór að lokum.

Fyrrnefndur veitingamaður svaraði því í bréfi sínu til Velvakanda: „Vegna bréfs „Þórs“ á sunnudag, vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að gestir eigi ekki að blanda sér í málefni, sem varða rekstur einstakra veitingahúsa. Ef þjónn synjar manni um afgreiðslu, er áreiðanlega einhver ástæða til slíks, og sú ástæða getur verið gesti ókunn. Maðurinn, sem nefndur var í bréfinu, hafði ef til vill komið áður og valdið hneyksli. Þeir, sem sátu við borð og drukku áfengi á veitingahúsinu, hafa augsýnilega leikið á afgreiðslustúlkurnar og hefði ’Þór‘ staðið nær að gera stúlkunum aðvart um brot mannanna, en taka upp hanzkann fyrir drukkna manninn, sem þrjóskaðist.“

Sálsjúkir vesalingar

Líitið fór fyrir samfélagsmiðlum árið 1953, réttara sagt ekkert, þannig að Velvakandi var ekki verra kommentakerfi en hvað annað. Það voru ekki bara fullir dónar sem voru bréfriturum ofarlega í huga þarna um haustið, barnafjölskyldur komust líka á blað – og það ekki af góðu.

Húseigandi nokkur stakk niður penna til að bregðast við ásökunum á hendur húseigendum þess efnis að þeir vildu ekki leigja barnafjölskyldum, meðal annars í dálki Velvakanda. „Þar er þeim gefin nafnbótin „barnahatarar“ og stungið er upp á því, að húseigendur verði skyldaðir til að leigja barnafólki og ennfremur er þar talað um þá sem sálsjúka vesalinga.“

Hann sagði húseigendur ekki verra fólk en hvað annað og að það væri ekki tær og ómenguð mannvonska af þeirra hálfu að vilja síður leigja barnafólki húsnæði. Svo gerði hann grein fyrir ástæðunni. „Árið 1939 átti ég hús hér í bænum. Ég gerði það mjög vel í stand, kostaði til þess um 11 þús. krónur. Eina hæðina leigði ég fólki sem átti sjö börn, öll innan fermingar. Einum mánuði eftir að fólkið flutti í húsið kom ég þangað til eftirlits, því að ég bjó ekki sjálfur í húsinu. Það fyrsta, sem ég sá, þegar ég kom inn í húsið voru allskonar merki, svo sem hakakross, hamar og sigð o.fl. málað með tjöru á nýmálaðan vegg í stigahúsinu, og var öll umgengnin hjá þessari níu manna fjölskyldu í samræmi við þetta. Aðrir ágætir leigjendur í húsinu kváðust mundu flytja burt, ef þessi blessuðu börn ættu að vera þar áfram.“

Húseigandi gat þess ennfremur að standsetningin á húsinu eftir þessa tíu mánuði, sem þetta fólk leigði hjá honum, hefði kostað fjórum sinnum meira en leigan sem það greiddi.

Eftir þetta, sumsé í 14 ár, hafði hann reynt að sniðganga barnafjölskyldur eftir mætti. Kvaðst þó ekkert hafa á móti börnunum sjálfum enda væri fyrst og fremst við uppeldið að sakast. „Ég vil forðast fólk, sem elur börn sín þannig upp, að þau eru ekki í húsum hæf.“

Höf.: Orri Páll Ormarsson