Heung-Min Son og James Maddison fagna enn einu markinu. Þeir virðast fæddir til að leika saman knattspyrnu.
Heung-Min Son og James Maddison fagna enn einu markinu. Þeir virðast fæddir til að leika saman knattspyrnu. — AFP/Glyn Kirk
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það þýðir ekkert að vera með 24 heimsklassaleikmenn, það myndi aldrei virka.

Undanfarinn áratug var Tottenham Hotspur Harry Kane og Harry Kane var Tottenham Hotspur. Síðan hætti Harry Kane og þótti þá ýmsum hreinlega tímabært að leggja klúbbinn niður. Til hvers að halda áfram? Enginn miðherji var kominn í staðinn og við liðinu tekinn maður sem enginn þekkti og hafði hvergi komið nálægt knattspyrnu í bestu deildum heims. Nóttin svarf að, niðdimm og grimm. Tíu leikjum síðar er Tottenham Hotspur á toppi ensku úrvalsdeildarinnar.

Nei, lagsar mínir og lögsur, þetta er enginn prentvilla. Tottenham er í raun og sann á toppi úrvalsdeildarinnar þegar flautað verður til 11. umferðarinnar. Án Harrys Kanes. Hversu oft gerðist það meðan Kane lék með liðinu? Tja, seg þú mér, frændi!

Þetta er heldur engin tilviljun, Tottenham hefur einfaldlega leikið betur en önnur lið á þessu hausti og verðskuldar toppsætið fyllilega. Áhangandi Arsenal gekk í flasið á grjótharðri bullu, sem leit út fyrir að vera að koma þráðbeint frá níunda áratugnum, á götu í Lundúnum um liðna helgi. Bullan hafði greinilega óþol fyrir Arsenal og skyrpti galli yfir aumingja áhangandann. „5:0 á móti Sheffield United. Flott hjá ykkur, ógeðin ykkar! En þið eruð samt ennþá fyrir neðan Tottenham í töflunni!“

Hverju orði sannara.

Sama er hvar borið er niður í liði Tottenham, allir hafa leikið vel í haust. Það gleymist stundum að Heung-Min Son hefur um árabil verið einn af skæðustu sóknarmönnum deildarinnar. Hann tók sér að vísu pásu frá því hlutverki í fyrra en nú skíðlogar í kappanum sem gert hefur átta mörk í fyrstu tíu leikjunum. Og lítið haft fyrir því. Fáránlega klókur leikmaður, jafnvígur á báða fætur.

Nýi maðurinn, James Maddison, sem keyptur var frá fallistunum í Leicester City, hefur líka rokið upp úr rásblokkunum. Það munar svo miklu upp á snemmheimtur að menn þekki til deildarinnar. Að þeir þurfi ekki hálft ár eða heilt í aðlögun. Maddison lítur út fyrir að hafa verið í Tottenham frá dögum Glenns Hoddles og Steves Archibalds. Betri „tía“ er vandfundin í sparkinu í dag. Þrjú mörk og fimm stoðsendingar hefur kappinn lagt á vogarskálarnar og engu er líkara en að þeir Son hafi vaxið úr grasi á sama leikskólanum í Chuncheon. Milli þeirra liggur segulþráður.

Frændi okkar frá Svíþjóð Dejan Kulusevski býr ekki að eins brakandi huggulegri tölfræði, alltént ekki enn sem komið er, en hefur eigi að síður leikið frábærlega vel. Síógnandi á hægri kantinum og gefur liðinu góða vídd. Synd væri að segja að Brassinn Richarlison hefði farið á kostum hjá Tottenham eftir komuna frá Everton í fyrra en er þó loksins búinn að skora mark. Guð og góðir vættir hjálpi andstæðingum Tottenham hrökkvi hann líka í gírinn.

Skipt hefur verið um áhöfn á miðri miðjunni með eftirtektarverðum árangri, Senegalinn Pape Matar Sarr og Malímaðurinn Yves Bissouma hafa ráðið þar ríkjum í haust en hvorugur átti upp á pallborðið á liðinni leiktíð. Lúsiðnir og óþreytandi. Leikur Tottenham hefur verið mun dínamískari en fyrr með þá í liðinu. Ekki veikir það heldur liðið til lengri tíma að Úrúgvæinn Rodrigo Bentancur sé loksins að stíga upp úr langvarandi hnémeiðslum. Þá er ekki minni maður en Pierre-Emile Højbjerg til taks á bekknum.

Í vörninni hefur nýi hafsentinn Micky van de Ven frá Hollandi byrjað með afgerandi hætti og myndað sterkt par með heimsmeistaranum Christian Romero. Spánverjinn Pedro Porro hefur líka litið vel út í hægri-bakverðinum. Markið ver nú Ítalinn Guglielmo Vicario og er með fjögur hrein net í leikjunum tíu. Eina sem út á hann má setja er líklega nafnið. Hver gefur barninu sínu nafnið Guglielmo? Hvað er maðurinn kallaður dags dagslega? Guggi eða Gugli? Hvort tveggja í rugli. En það er önnur saga.

Svo fauk í ömmur

Tottenham hefur reynt margt á umliðnum árum til að freista þess að mjaka sér nær fyrsta meistaratitli sínum frá árinu 1961. Það var áður en Bítlarnir gáfu út sinn fyrsta smell. Hugsið ykkur. Kanónur á borð við Mauricio Pochettino, José Mourinho og Antonio Conte voru fengnar að hirðinni, auk þess sem Nuno Espirito Santo fékk að spreyta sig í heilt korter. En hvorki gekk né rak og Mourinho og Conte fóru báðir langt með að drepa allan lífsvilja hjá stuðningsmönnum liðsins, svo fauk í ömmur þeirra yngstu. Hver hefur geð í sér að græta saklaus börn með leikstíl sínum? Slíkir menn eru best geymdir í öðrum löndum, þar sem ekki er litið á fótmenntir sem skemmtun og vopn í baráttunni gegn bættri andlegri lýðheilsu.

En hver er hann þessi maður sem snúið hefur gengi Tottenham við og komið liðinu makindalega fyrir á toppnum? Djöfull hefði ég viljað hafa verið fluga á vegg í stjórnarherberginu þegar einhver henti fyrrverandi þjálfara liða á borð við Whittlesea Zebras og Brisbane Roar inn í hringinn. Að ekki sé talað um Yokohama F. Marinos. Öllum þessum liðum hefur Ange Postecoglou stýrt. Hvaða Ange? Ange Ange ári? Hvet hér með Hjálmar Örn Jóhannsson, einn heitasta stuðningsmann Tottenham á Íslandi, til að gera skets um þetta augnablik í stjórnarherberginu. Jafnvel með dassi af hvítvíni.

Til að gæta allrar sanngirni þá var Ange karlinn ekki sóttur yfir haf og höf en næst á undan var hann með lið Celtic í Skotlandi og gerði það að meisturum bæði árin 2022 og 2023. Hann hafði líka gert góða hluti með ástralska landsliðið frá 2013-17. En enska úrvalsdeildin er allt önnur Ella.

Efasemdaraddirnar glumdu líka hátt í aðdraganda móts en eru nú allar þagnaðar – alltént um stund. Postecoglou hefur verið eins og fiskur í vatni – og það enginn grálúsugur strokulax – í ensku úrvalsdeildinni og ekki bara heillað fólk með leikstíl liðsins heldur ekki síður með ljúfmennsku sinni, húmor og almennt geðþekku fasi. Hafi maður við alþýðuskap einhvern tíma stigið fram þá er það Postecoglou, eða bara Ange – það fer honum miklu betur.

Ange fæddist í Aþenu árið 1965 en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Ástralíu aðeins fimm ára gamall eftir að faðir hans missti fyrirtæki sitt þegar herinn tók völdin í landinu. Faðir hans vann alla tíð eins og skepna og feðgarnir áttu sínar bestu stundir á fótboltavellinum enda báðir elskir að hinum göfuga og fallega leik. Einu sinni var haft eftir Ange að hvati hans sem knattspyrnustjóra væri að búa til lið sem faðir hans, sem nú ert látinn, hefði haft yndi af að horfa á.

Ange nýtur þegar mikillar hylli meðal blaða- og fréttamanna í Englandi fyrir að vera blátt áfram á blaðamannafundum og afslappaður. Þá fer víst fátt fram hjá honum. Þannig bauð hann einn úr hópnum velkominn heim á blaðamannafundi fyrir leik Tottenham gegn Chelsea á mánudaginn en sá hafði verið á ferðalagi á heimaslóðum knattspyrnustjórans í Prahran, úthverfi Melbourne. „Það eru betri staðir til að fara á með frúna. Þú verður að bæta henni þetta upp, lagsi,“ varð honum að orði.

Ange bar líka lof á Mauricio Pochettino stjóra Chelsea, en gengi liðsins undir hans stjórn hefur verið misjafnt í fyrstu umferðunum. Hann hefði unnið frábært starf hjá Tottenham á sínum tíma og myndi ábyggilega ná þeim bláklæddu á flug – fyrr en síðar. Ýmsir sem vildu fá Pochettino aftur til Tottenham í sumar hafa ugglaust skipt um skoðun.

Pochettino situr á digrari sjóðum hjá Chelsea en Ange hjá Tottenham en Ástralinn lætur það ekki trufla sig. „Ég hef alltaf sagt að þetta snúist um fleira en að eyða peningum. Það hefur margsýnt sig. Það þýðir ekkert að vera með 24 heimsklassaleikmenn, það myndi aldrei virka. Hópurinn þarf að vera í góðu jafnvægi og með menn innanborðs sem gefa allt fyrir málstaðinn, hvort sem þeir leika meira eða minna. Lykillinn er að ná fram rétta andanum, í liðinu og hópnum. Það gera menn ekki með því að kaupa 24 bestu leikmenn heims. Það er í öllu falli hausverkur sem ég vil víkja mér undan.“