Landris Jörð skelfur og land rís við Svartsengi. Fjallið Þorbjörn er í baksýn.
Landris Jörð skelfur og land rís við Svartsengi. Fjallið Þorbjörn er í baksýn. — Morgunblaðið/Hákon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ef við skoðum gögnin er líklegast að gos komi upp í grennd við þann stað sem kallast Illahraunsgígar og eru vestnorðvestan við Þorbjörn. Illahraunsgígar eru líklegasti gosstaðurinn, þar er mesta landrisið og flestir skjálftarnir

Baksvið

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Ef við skoðum gögnin er líklegast að gos komi upp í grennd við þann stað sem kallast Illahraunsgígar og eru vestnorðvestan við Þorbjörn. Illahraunsgígar eru líklegasti gosstaðurinn, þar er mesta landrisið og flestir skjálftarnir. Sú sprunga er á vatnaskilum, þannig að það er mjög erfitt að spá um hvert hraun myndi renna,“ segir Þorvaldur Þórðarson prófessor í eldfjalla- og bergfræði í samtali við Morgunblaðið, spurður um hvert líklegast sé að hraun rynni ef til eldgoss kæmi norðvestan við fjallið Þorbjörn, sem er skammt frá Svartsengi og Grindavík. Þorvaldur bendir reyndar á að mögulegt sé að gossprunga teygi sig yfir vatnaskilin og þá gæti hraun runnið til beggja átta.

Svartsengi og Bláa lónið væru berskjölduð

„Hvert hraunið myndi fara ræðst mjög af því hvar sprungan yrði nákvæmlega; það gæti runnið til norðausturs í áttina að Svartsengi eða til suðurs í áttina að Grindavík. Ef gossprunga opnast á þessum slóðum þá eru bæði Svartsengi og Bláa lónið berskjölduð. Menn eru að hugsa um hvernig hægt yrði að vernda það svæði og leggja leiðigarða þannig að hægt verði að leiða hraunið frá þessum innviðum,“ segir Þorvaldur, en vísindamenn skoða nú líklegustu rennslisleiðir hrauns og hvernig hægt verði að bregðast við.

Spurður hvað Illahraunsgígar séu langt frá Grindavík annars vegar og frá orkuverinu í Svartsengi og Bláa lóninu hins vegar segir Þorvaldur að ef kvika komi upp þar sem landrisið er mest, þ.e. við Illahraunsgíga, þá sé vegalengdin að Bláa lóninu og Svartsengi 1 til 1,5 km, heldur lengra sé til Grindavíkur, 3 til 4 km.

Þróaðri kvika, gasríkari og stendur grunnt

Fram hefur komið að efnasamsetning kvikunnar sé þess eðlis að hraun myndi renna mjög hratt yfir kæmi til goss og undir það tekur Þorvaldur.

„Þetta er þróaðri kvika og og gasríkari þannig að hún getur farið hratt yfir í upphafi. Hún er líka að safnast upp tiltölulega grunnt undir svæðinu í nágrenni Þorbjarnar og er að byggja upp þrýsting. Eftir því sem ferlið stendur lengur yfir, þeim mun meiri þrýstingur byggist upp og gos yrði aflmeira og öflugri kvikustrókar í byrjun. Við vitum að þeir geta farið mjög hratt yfir í upphafi og þótt upphafsfasinn yrði ekki lengri en 15 mínútur eða klukkustund, þá geta slík hraun runnið með hraða sem nemur nokkrum tugum kílómetra á klukkustund,“ segir Þorvaldur.

Atburðarásin getur orðið mjög hröð

„Þetta er allra versta sviðsmyndin og alls ekki víst að hún raungerist, en ef svo fer erum við að tala um tiltölulega stuttan viðbragðstíma, mínútur en ekki klukkutíma, ef kvikan kemur upp nálægt byggð. Þá er nú betra að vera búinn að fara í viðeigandi aðgerðir áður en kemur að gosi,“ segir hann.

Þorvaldur bendir á að gosin við Fagradalsfjall hafi byrjað fremur rólega, þótt kvikurennsli frá síðasta gosi hafi farið upp í 40 rúmmetra á sekúndu.

„Í þessu tilviki getum við verið að tala um nokkur hundruð rúmmetra á sekúndu og þá getur atburðarásin orðið mjög hröð, þótt í stuttan tíma sé, og þá höfum við afskaplega stuttan viðbragðstíma. Kvikan í Fagradalsfjalli kom af meira dýpi og í rólegheitunum, þannig séð. En það sem er að gerast núna er að kvikan er að safnast fyrir tiltölulega grunnt, á 4 til 5 kílómetrum, og þrýstingurinn meiri og ef tankurinn brestur gerist það með meira afli. Það er ekkert sem segir að yfirborðið haldi ekki og þetta getur stoppað, en maður verður samt að gera ráð fyrir vestu tilfellunum. Það er betra að taka mið af þeim og gera ráðstafanir í samræmi við það. Ég hef áhyggjur af því að við séum ekki nógu vel undirbúin. Þetta er alvarleg staða sem er komin upp,“ segir Þorvaldur Þórðarson.

Landris með miðju norðvestan við Þorbjörn heldur áfram og er þenslan af völdum kvikuinnskots á um 4 km dýpi. Jarðskjálftavirkni hélt áfram á svæðinu í gær vegna kvikusöfnunar undir Þorbirni og var stærsti skjálftinn 4,3 að stærð og er skjálftavirknin af völdum spennubreytinga í skorpunni sem innskotið veldur. Engar vísbendingar voru þó um gosóróa, en vel er fylgst með svæðinu, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson