Stefán Halldór Steinþórsson fæddist á Sauðárkróki 8. janúar 1935. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands Sauðárkróki 24. október 2023.

Foreldrar Stefáns voru Steinþór Stefánsson, f. 8. apríl 1908, d. 4. nóvember 1977, og Margrét Jóhannesdóttir, f. 17. maí 1916, d. 13. október 1995. Stefán ólst upp á Þverá í Akrahreppi í Skagafirði. Hann var elstur systkina sinna, þau eru: Jóhannes, f. 27. mars 1938, d. 9. ágúst 2005; Björgvin, f. 16. ágúst 1939, d. 12. júlí 2008; Hjörtína Ingibjörg, f. 1. október 1940, d. 23. maí 2001; Gunnar, f. 29. desember 1941, d. 1. nóvember 2018; Magnús Ingi, f. 11. júlí 1944; Steinþór Valdimar, f. 13. maí 1949, d. 2. apríl 2016, og Guðrún Björg, f. 7. júní 1957.

Stefán var ókvæntur og barnlaus. Hann starfaði um langa hríð við brúarsmíði og stundaði vertíðir í Vestmannaeyjum af kappi ásamt bústörfum á Þverá.

Útför Stefáns verður gerð frá Flugumýrarkirkju í dag, 4. nóvember 2023, klukkan 14.

„Nei, blessaður – er þetta Sveinn?“ Bankaðir á tóbaksdósina, hagræddir gleraugunum og kíktir hvað klukkan væri. „Hann hefur runnið ansi létt hjá þér, var ekki heiðin góð?“ Samstundis hófust langar samræður um daginn og veginn, pólitíkina og heimsmálin. Þú varst vel að þér í málefnum líðandi stundar, hafðir skoðanir á flestu, og oftar en ekki gerði ég mér það að leik að vera þér ósammála – aðeins til að fá smá líf í umræðurnar við eldhúsborðið. Svona var dæmigert spjall okkar. Ég mun sakna þess mikið.

Ég minnist okkar síðustu samverustundar með miklum kærleik. Við vissum báðir að nú væri stundin að nálgast, spjallið bar þess merki. Við fórum yfir málin, mál sem við höfðum ekki farið yfir lengi. Það var gott. Við kvöddumst og er ég geng fram heyri ég kallað á eftir mér: „Svenni, þú sérð um skýrsluna er það ekki? Passaðu að Bjarni Ben taki nú ekki allt.“ Við hlógum og spjölluðum aðeins lengur. Það var vaninn, aðeins lengur.

Ég hugsa til æskuáranna og hversu mikil forréttindi það voru að alast upp með þér á heimilinu, minn annar pabbi. Þú kenndir mér lóukvæðin, veiðina, spilin, og allar sögurnar sem þú kunnir, maður lifandi. Ég syng Fyrr var oft í koti kátt iðulega fyrir hana Ragnheiði Borg, lagið sem þú svæfðir mig með.

Þú varst veiðimaður af guðs náð, Blanda var þitt himnaríki. Ég man þegar ég var lítill og þú dróst fram steingráa veiðikassann, þennan úr stáli. Það var Blöndukassinn. Þá stóð mikið til. Þið Maggi bróðir minn skipulögðuð veiðiferðina í þaula. Þið deilduð ástríðunni á laxveiði, það var fallegt samband ykkar á milli. Alla tíð.

Elsku Stóri, minning þín mun lifa um ókomna tíð. Ég sakna þín. Takk fyrir allt!

Þangað til næst!

Sveinn Magnússon.

Í dag verðum við samferða í okkar síðustu ferð saman frá kirkjunni og niður að leiðum skyldmenna okkar. Þær voru ófáar ferðirnar sem við fórum saman á aðventunni til að koma fyrir leiðiskrossi hjá ömmu og afa.

Allt þurfti að vera á sínum stað og vel frágengið svo krossinn stæði af sér öll veður og vinda.

Eins var það í öllum okkar ferðum í að útbúa lagnirnar í Vötnunum, verkið þurfti að geta staðið af sér öll þau veður og flóð sem mögulega gætu komið það sumarið. Það var alltaf vandað til verka.

Þær voru ófáar veiðisögurnar sem fengu að fljóta með í þessum ferðum, svo slæddist líka með ein og ein af vertíðunum í Eyjum.

Ég var ekki gamall þegar ég fékk að þvælast með þér niður að vötnum með stöng að veiða, við vorum ávallt báðir léttstígir á leiðinni niður eftir en það fór yfirleitt eftir veiðinni hversu rösklega heimleiðin gekk hjá mér. Enda ekkert spennandi að ganga með öngulinn í rassinum alla þessa leið heim.

Svo voru það veiðiferðirnar í Blöndu, ég fékk loksins að fara með eftir stífar kastæfingar á gamla túninu allt vorið með Ambassadeur-hjólinu þínu. Það tók þig oft ansi langan tíma að leysa flækjurnar á hjólinu eftir mig, en ég náði tökum á þessu á endanum, þökk sé þolinmæðinni sem þú hafðir. Þessar veiðiferðir eru ógleymanlegar.

Kasínurnar og skákirnar við eldhúsborðið á Þverá, stússa með þér í reykkofanum, verka taðið á eyrunum og leggjast niður og hlusta á fuglana á sumrin meðan þú gekkst úr skugga um að ég þekkti hver það væri. Það var alltaf tími til að hlusta og læra á náttúruna.

Minningarnar eru endalausar. Það var ómetanlegt að alast upp með þig sér við hlið.

Takk fyrir allt Stóri.

Magnús Magnússon.

Í dag er mér efst í huga þakklæti og kærleikur, en jafnframt mikill söknuður er ég kveð föðurbróður minn hann Stefán Halldór Steinþórsson, Stóra eins og hann var yfirleitt kallaður. Ég veit ekki hvar ég á að byrja og hvar ég á að enda, það væri efni í heila bók. Þú bjóst á Þverá frá því ég man fyrst eftir mér og varst á svo margan hátt þátttakandi í mínu uppeldi. Það eru óteljandi skemmtilegar og ánægjulegar minningar sem ég á um þig, þú varst alltaf boðinn og búinn að kenna manni, aðstoða og leiðbeina í hinum ýmsu hlutum, það var alltaf hægt að treysta á þig þegar á reyndi og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur.

Elsku frændi og trausti vinur, ég kveð þig í hinsta sinn með trega og söknuði í hjarta, takk fyrir samfylgdina í gegnum lífið og allt sem þú hefur gert fyrir mig og krakkana. Við söknum þín sárt en minningin lifir.

Hjörtur Ingi Magnússon, Lisbeth Viðja Hjartardóttir, Sigrún Ýr Hjartardóttir, Sæmundur Ingi Hjartarson.

Haustið hefur verið okkur gott með björtum dögum og stillum. Stundum kalt, stundum hlýrra, jarðargróði býr sig undir vetur. Á einum slíkum degi lítum við niður að Vötnum og sjáum grannvaxinn mann ganga hvatlega niður með Þveránni að norðan, hann er í vaðstígvélum með veiðistöng reidda um öxl. Við teljum okkur þekkja manninn, Stefán Halldór Steinþórsson, nágranna okkar og vin. Hann er að fara til að taka nokkur köst í ósnum, segjum við, getur náð urriða eða niðurgöngufiski. Við lítum augnablik af honum og þá er hann horfinn okkur sjónum, kominn vestur yfir Vötn eða lengra. Þannig hverfum við öll yfir móðuna miklu. Við vissum að hverju dró hjá Stebba en samt er eins og dauðinn læðist sífellt aftan að manni og komi á óvart.

Stebbi var traustur vinur, hægur í fasi og framgöngu og öllum góður, bæði mönnum og skepnum, barngóður svo af bar og þess nutu synir okkar í ríkum mæli. Hann var dagfarsprúður maður og óáleitinn, tranaði sér eða sínum skoðunum hvergi fram en hafði vissulega sitt viðhorf og lét sannfæringu í ljós í góðra vina hópi, við munum hressilegar umræður um pólitík við eldhúsborðið á Þverá, þótt menn væru þar ekki alltaf sammála stóð Stebbi á sínu og hafði eigin skoðanir á mönnum og málefnum. Við hið sama eldhúsborð flugu oft sögur og þá var Stebbi í essinu sínu að segja gamansögur af sjálfum sér og öðrum og oft var þar hlegið dátt.

Stebbi var sannkallað náttúrubarn, gaf gaum að umhverfi sínu og velti oft vöngum yfir undrum sköpunarverksins. Hann hafði geysilegan áhuga á veiðiskap, bæði að fara með net og ekki síður að veiða á stöng sem hann gerði mikið af og frístundir sumarsins fóru í þetta hugðarefni, allavega á síðari hluta ævinnar. Ógleymanlegar eru ferðir með honum í Blöndu sem geymast í minni og verða að sögum. Ef hann var að fást við stórlax sem erfitt var að ráða við gat hent að rólegheitin rynnu af honum augnablik og hann fór að gefa fyrirskipanir hvössum rómi í allar áttir. Eitt sinn sem oftar í Blöndu hafði Stebbi sett í stóran fisk sem hann missir niður á brot og þar fer laxinn bak við stóran stein og varð ekki haggað. Með okkur á bakka var Ólafur læknir, óð hann út að steininum og hugðist losa fiskinn, tók í línuna og lyfti henni aðeins upp, laxinn tók kipp og synti út í frelsið. Stefán tapaði í engu geðprýði sinni í það skiptið, leit á okkur og sagði: „Ég skil ekkert í honum Ólafi, svona vönum manni.“

Fleiri verða ferðirnar ekki með Stebba í bili, en hver veit hvort hann er ekki nú þegar farinn að munda stöngina við veiðivötn eilífðarinnar þar sem veiðifang allt hlýtur að vera meira að vöxtum en okkur dauðlegum mönnum er boðið hér á jarðríki. Sé málum þannig háttað verður ekki lengi vík milli vina.

Stefán var trúr sonur sinnar sveitar og verður nú lagður til hinstu hvílu í skauti hennar við rætur Glóðafeykis. Fari hann í friði og hafi kæra þökk fyrir samfylgdina.

Við og synir okkar sendum Magga, Amalíu, sonum þeirra og öðrum aðstandendum einlægar samúðarkveðjur.

Sveinn Sveinsson, Anna Dóra Antonsdóttir.