Þórður Áskell Magnússon
Þórður Áskell Magnússon
Við höfum aldrei haft það betra. … Ef þetta er ástand sem býr til kreppu, hvað gerist þegar það kreppir að?

Þórður Áskell Magnússon

Af hverju ættum við að ganga í ESB og af hverju ekki?

Fyrst nokkrar staðreyndir. Landsframleiðsla okkar er ein sú mesta í heimi, um 70.000 bandaríkjadalir á mannsbarn. Mun meira en í Þýskalandi. Miklu meira en í Póllandi. Hér ættu lífskjör því að vera mun betri. Er er það svo? Að mínu mati ekki. Vegakerfið er verra á Íslandi, heilbrigðiskerfið er verra, menntakerfið mun lakara. Mögulega er utanríkisþjónusta okkar betri. Það er mín skoðun að íslenskar lausnir séu afskaplega dýrar, skili litlu og endist illa. Dæmi: danska húsnæðiskerfið stóð af sér tvær heimsstyrjaldir og er enn við lýði. Hvað um það íslenska? Finnska menntakerfið skilar frábærum árangri. Árangur þess íslenska er sá að þriðjungur drengja getur ekki lesið sér til gagns eftir tíu ár í skóla. Þeir hafa þá varla lært mikið annað. Þýska lífeyrissjóðakerfið er svo gott að allir eru farnir að hafa óþol fyrir þýskum túristum.

Við erum með næstmest ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi heims, og hverju hefur það skilað? Vel stæðum bændum? Svari hver fyrir sig. Meira matvælaöryggi? Ef einhver vill svara þessari spurningu með orðinu „já“ þarf hinn sami að fara í eina matvörubúð, hvar sem er í Evrópu, taka mynd og senda okkur. Meðalmatvörubúð, hvar sem er í Evrópu, er með gæði sem við höfum varla séð.

Við borgum fjármálastofnunum fáránlegt gjald, krónunnar vegna. Kostnaður við bankana er út úr öllu korti. En kemur í veg fyrir samkeppni. Ég bý í Póllandi hluta af árinu og hef því samanburð. Þar á ég bifreið, sem ég áður borgaði 140.000 ISK fyrir tryggingar á ári, en eftir að ég flutti hann til Póllands borga ég 18.000 á ári. Fyrir sama bíl. Matur og drykkur, allt, ósamanburðarhæft. Af hverju?

Svarið er einfalt: Ef við værum í ESB þá væri samkeppni. Þetta er svolítið eins og að reka búð í Hafnarfirði en glíma við alls kyns hindranir að senda vörur til Reykjavíkur. Nú flyt ég talsvert inn fyrir fyrirtæki sem er í minni eigu, Vélsmiðju Grundarfjarðar, þannig að ég veit hver sá kostnaður er. Hann liggur á bilinu 60 og 110 kr. á kíló. Sem er ekki neitt, ekki í stóru myndinni. Viljum við verja fákeppni? Ef svo er þá skulum við líka þora að segja það upphátt.

Hverjir eru ókostirnir? Eftir að hafa búið innan ESB í 20 ár þá veit ég ekki svarið, en gefum okkur fyrir fram þetta: Skrifræði. Samkvæmt google eru allir starfsmenn ESB 33.000 manns. Til að setja það í samhengi skulum við skoða hvað það er í íslenskum samanburði: 33.000 / 448,4 milljónir manna í ESB x 376.00 sem er mannfjöldi Íslands. Niðurstaðan er 28 manns. Það vinna 300 manns í Seðlabanka Íslands. Ellefu sinnum fleiri en allur starfsmannakostnaður ESB per íbúa þar. Hvað annað? Nú skortir mig þekkingu. Annað? Hvað er það? Fullveldið? Telur einhver í alvöru að við séum meira fullvalda en Danmörk, svo dæmi sé tekið?

En staðreyndir eru samt þessar: Við höfum aldrei haft það betra. Aldrei haft meiri tekjur af sjávarútvegi, aldrei haft meiri tekjur af raforkusölu, aldrei haft meiri tekjur af ferðamönnum. Í þeirri stöðu bjuggum við til kreppu; unga fólkið er að bugast undan vaxtakostnaði. Ef þetta er ástand sem býr til kreppu, hvað gerist þegar það kreppir að?

Íslendingar þurfa að svara þessari spurningu: Við hvaða þjóð vill ein ríkasta þjóð veraldar miða sig?

Svari hver fyrir sig.

Höfundur er atvinnurekandi.

Höf.: Þórður Áskell Magnússon