Erna Hallgrímsdóttir fæddist á Jaðri á Dalvík 30. október 1933. Hún lést á heimili sínu, Dalbæ á Dalvík, 29. október 2023.

Foreldrar hennar voru hjónin Þóra Jónsdóttur, f. 11. júlí 1903, d. 15. apríl 1974, og Hallgrímur Friðrik Sigurðsson, f. 19.10. 1913, d. 1.9. 1967.

Erna var elst sex systkina, hin eru Pálína Ingibjörg (látin), Ragnhildur Annbjörg, Sigfríður Jóna (látin), Frímann Kristinn (látinn) og Sigurður Anton (látinn).

Erna giftist Sverri Ósmann Sigurðssyni múrara, f. 21.1. 1928, d. 26.1.2004. 26.12. 1952. Þau eignuðust 13 börn. Þau eru: 1) Halla Kristín, f. 28.6. 1953. Hún á 5 börn og 6 barnabörn. 2) Emilía Kolbrún, f. 4.4. 1955, gift Sigurbirni Benediktssyni, þau eiga 4 börn, 8 barnabörn og eitt barnabarnabarn. 3) Hrafnhildur Hafdís, f. 10.3. 1956, gift Stefáni Björnssyni, þau eiga 3 börn og 2 barnabörn. 4) Baldvina Sigrún, f. 13.2. 1957, gift Sveini Valþóri Sigþórssyni, þau eiga 4 börn og 4 barnabörn. 5) Sigfús, f. 7.7. 1958, hann á 5 börn og 5 barnabörn. 6) Valgeir, f. 4.7. 1960, hann á 2 börn, 5 barnabörn og 1 barnabarnabarn. 7) Elísabet Jónheiður, f. 9.3. 1961, gift Guðjóni Oddssyni, þau eiga 3 börn og 5 barnabörn. 8) Sigurður Ragnar, f. 18.10. 1963, giftur Halldóru Gísladóttur, þau eiga 3 börn og 4 barnabörn. 9) Örn Víðir, f. 29.8. 1965, d. 14.9. 1998, hann átti 3 börn og 5 barnabörn. 10) Ása, f. 15.11. 1966, hún á 3 börn. 11) Inga Hrönn, f. 1.4. 1969, gift Rúnari Óskarssyni, þau eiga 2 börn. 12) Arnar, f. 28.5. 1972, giftur Sigrúnu Maríu Ólsen, þau eiga 5 börn. 13) Halldór, f. 28.5. 1972, í sambúð með Ingu Rós Eiríksdóttur, þau eiga 3 börn.

Að auki tók Erna tvö af barnabörnum sínum í fóstur, þau Hallgrím Má Matthíasson, f. 26.3. 1970, giftur Sigrúnu Ásgrímsdóttur, þau eiga 2 börn og Önnu Lísu Sigfúsdóttur f. 22.9. 1980, í sambúð með Kristni Jósepi Gallagher, þau eiga 2 börn.

Erna gekk í Dalvíkurskóla og í framhaldi í Húsmæðraskólann á Laugum í Reykjadal 1951-1952. Hún vann ýmsa verkamannavinnu. Var t.d. kaupakona á Grímsstöðum á Fjöllum, safnaði þar fyrir húsmæðraskólavistinni þar sem hún hafði mikinn hug til þessa náms. Hún hafði óbilandi áhuga á saumum og prjónaskap að ótalinni matargerð. Eftir námið réð hún sig sem kaupakonu að Ási í Vatnsdal. Þar kynntist hún eiginmanni sínum Sverri Ósmanni Sigurðssyni. Þau fóru að Þingeyrum og unnu þar saman við ýmis sveitastörf. Þaðan flytjast þau að Orrastöðum í Húnavatnssýslu. Erna fór ein, þunguð, til Dalvíkur og eignaðist þar þeirra fyrsta barn í Litla-Koti. Síðar fara þau saman til Vestmannaeyja og reka þar bú í Hábæ sem var í eigu Helga Benediktssonar. Voru þar til haustsins 1956. Fluttu þaðan að Breiðabakka í sama bæ. Ráku þar hænsna- og svínabú fram til ársins 1959. Þá flutti Erna ein norður með börnin sín fimm í foreldrahús í Litla-Koti. Síðan bauðst henni ráðskonustaða á Þverá í Svarfaðardal hjá Helga Símonarsyni. Þar var hún í eitt og hálft ár. Á því tímabili fæðist Valgeir. Hann fór í fóstur til Rósfríðar Eiðsdóttur og Þórhalls Péturssonar í Hreiðarsstaðakoti, síðar Grund í Svarfaðardal.

Erna og Sverrir tóku saman aftur 1961 og flytja þá að Upsum á Dalvík. Síðar Tungu (1962) á Dalvík og þaðan í Sólheima á Dalvík (1973). Erna bjó á Dalbæ á Dalvík frá 29. janúar 2008 og allt til dánardags

Útför Ernu fer fram frá Dalvíkurkirkju í dag, 4. nóvember 2023, klukkan 13.

Streymt verður frá athöfninni:

mbl.is/go/3tap8

Takk fyrir allt og allt elsku mamma.

Hún bar þig í heiminn og hjúfraði
að sér.

Hún heitast þig elskaði' og fyrirgaf þér.

Hún ætíð er skjól þitt, þinn
skjöldur og hlíf.

Hún er íslenska konan, sem ól þig og þér helgaði sitt líf.

Með landnemum sigldi'hún um svarrandi haf.

Hún sefaði harma. Hún vakti'er
hún svaf.

Hún þerraði tárin. Hún þerraði blóð.

Hún var íslenska konan, sem allt á að þakka vor þjóð.

Ó! Hún var ambáttin hljóð.

Hún var ástkonan rjóð.

Hún var amma, svo fróð.

Ó! Athvarf umrenningsins,

inntak hjálpræðisins,

líkn frá kyni til kyns.

Hún þraukaði hallæri, hungur
og fár.

Hún hjúkraði'og stritaði gleði
snauð ár.

Hún enn í dag fórna sér endalaust má.

Hún er íslenska konan, sem gefur þér allt sem hún á.

Ó, hún er brúður sem skín!

Hún er barnsmóðir þín

eins og björt sólarsýn!

Ó! Hún er ást, hrein og tær!

Hún er alvaldi kær

eins og Guðsmóðir skær!

Og loks þegar móðirin lögð er
í mold

þá lýtur þú höfði og tár falla'á fold.

Þú veist, hver var skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf.

Það var íslenska konan sem ól þig og gaf þér sitt líf.

En sólin, hún sígur, og sólin,
hún rís,

og sjá: Þér við hlið er þín ham- ingjudís,

sem ávallt er skjól þitt, þinn skjöldur og hlíf:

Það er íslenska konan, tákn trúar og vonar, sem ann þér og þér helgar sitt líf.

(Ómar Ragnarsson)

Þín dóttir,

Hrafnhildur Hafdís.

Minningarljóð:

Eins og gullhörpuljóð,

eins og geislandi blær,

eins og fiðrildi og blóm,

eins og fjallalind tær,

eins og jólaljós blítt,

eins og jörðin sem grær,

lifir sál þín í mér,

ó þú systir mín kær.

Þú varst mildi og ást

og þitt móðerni bar

við sinn líknsama barm


dagsins lifandi svar:

allt sem grét, allt sem hló,

átti griðastað þar

– jafnvel nálægð þín ein

sérstök náðargjöf var.

Hversu þreytt sem þú varst,

hvað sem þrautin var sár,

þá var hugur þinn samt

eins og himinninn blár:

eins og birta og dögg

voru bros þín og tár.

Og nú ljómar þín sól

bak við lokaðar brár.

(Jóhannes úr Kötlum)

Með djúpri virðingu og innilegu þakklæti fyrir allt og allt.

Hvíldu í friði elsku mamma mín.

Baldvina Sigrún
Sverrisdóttir.

Mamma, elsku mamma,

man ég augun þín,

í þeim las ég alla,

elskuna til mín.

Mamma, elsku mamma,

man ég þína hönd,

bar hún mig og benti,

björt á dýrðarlönd.

Mamma, elsku mamma,

man ég brosið þitt,

gengu hlýir geislar,

gegnum hjarta mitt.

Mamma, elsku mamma,

mér í huga skín,

bjarmi þinna bæna,

blessuð versin þín.

Mamma, elsku mamma,

man ég lengst og best,

hjartað blíða, heita –

hjarta, er sakna ég mest.

(Sumarliði Halldórsson)

Ég kveð þig með söknuði elsku mamma mín.

Minningar um okkar samveru og lífshlaup koma upp í hugann. Þú varst sterkur karakter og úrræðagóð. Ég var kannski ekki alltaf stilltur og prúður sem barn og unglingur en yfirleitt tókst þú á því með jafnaðargeði þótt stundum gustaði nú hressilega um eldhúsið í Tungu og seinna í Sólheimum.

Við vorum alla tíð í miklu sambandi. Seinni árin meira símleiðis þar sem langt var á milli okkar.

Þú fylgdist vel með og varst vel upplýst um hvað við fjölskyldan þín vorum að gera þótt mörg værum.

Margar skemmtiferðir fórum við eftir að ég fékk bílprófið sem varla eru hafandi eftir.

Duglegri kona var vandfundin. Þú varst nánast alltaf vinnandi bæði heima og í frystihúsinu og í þeim litla frítíma sem þú fékkst varstu annaðhvort að sauma föt á okkur krakkana eða prjónandi sokka og vettlinga. Því nógir voru fætur og hendur til að prjóna á. Þegar ég giftist og eignaðist börnin mín þrjú sem voru á ýmsum aldri þá tókst þú þeim strax sem þínum eigin barnabörnum. Varst þeim sönn amma alla tíð og þeim þótti vænt um þig. Barnabörnin mín elska langömmu sína og þér þótti mjög vænt um þau.

Nú er komið að ferðalokum elsku mamma mín, takk fyrir allt og allt.

Farðu í friði!

Þinn sonur,

Sigurður Ragnar (Siggi).