Dómhús Ungur maður var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir manndráp.
Dómhús Ungur maður var dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir manndráp. — Morgunblaðið/Eggert
Ungur karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í gær dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir manndráp en hann stakk 27 ára gamlan pólskan karlmann ítrekað með hnífi á bílastæði við verslunina Fjarðarkaup í Hafnarfirði í apríl með þeim afleiðingum að hann lést

Ungur karlmaður var í Héraðsdómi Reykjaness í gær dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir manndráp en hann stakk 27 ára gamlan pólskan karlmann ítrekað með hnífi á bílastæði við verslunina Fjarðarkaup í Hafnarfirði í apríl með þeim afleiðingum að hann lést.

Lesa má úr dómnum að ástæða átaka milli mannana hafi verið ágreiningur um fíkniefnaviðskipti. Segir í dómnum að þótt ásetningur ákærða til manndráps hafi ekki verið einbeittur hafi hann gengið fram af mikilli heift og vægðarleysi gagnvart brotaþola, sparkað m.a. 7-8 sinnum af afli í hnakka hans og nálægt höfði eftir að brotaþoli lá yfirbugaður á jörðinni og fylgt þeim spörkum eftir með því að leggja til hans þrisvar með hnífi.

Tveir aðrir ungir karlmenn, báðir undir lögaldri, hlutu tveggja ára dóm fyrir sinn þátt í árásinni en brot þeirra flokkast undir vísvitandi líkamsárás. Segir í dómnum að þeir hafi sparkað nokkrum sinnum í brotaþola og stutt þannig þann sem hnífstungurnar veitti. Hafi hvorugur þeirra axlað ábyrgð á aðkomu sinni að andláti Pólverjans.

Sautján ára gömul stúlka hlaut 12 mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm fyrir brot á hjálparskyldu, en hún tók myndskeið af árásinni á farsíma sinn. Segir í dómnum að stúlkan eigi sér engar málsbætur. Öll aðkoma hennar að málinu sé að mati dómsins svívirðileg og þyki dapurt að hún reyni að skjóta sér undan ábyrgð með því að vísa til uppeldisráðgjafar foreldra sinna um að taka atvik upp á farsíma ef hún lenti í vafasömum aðstæðum.

Sá sem hlaut þyngsta dóminn var 18 ára og fimm mánaða gamall þegar hann varð manninum að bana. Hann var einnig dæmdur til að greiða móður þess sem hann banaði 2,4 milljónir króna í skaða- og miskabætur og dóttur hans 3 milljónir í miskabætur og rúmlega 8,1 milljón í bætur vegna missis framfæranda. Þá var hann dæmdur til að greiða 15,6 milljónir króna í máls- og sakarkostnað. Hinir ungu mennirnir tveir voru dæmdir til að greiða tæpar 10,5 milljónir króna í sakarkostnað og stúlkan til að greiða 5,1 milljón í sakarkostnað.

Jónas Jóhannsson héraðsdómari kvað upp dóminn. Málflutningur og dómsuppsaga fór fram fyrir luktum dyrum vegna ungs aldurs sakborninga. gummi@mbl.is