„Sæluríkið er bók númer tuttugu og sjö á jafnmörgum árum og það er líka ákveðinn sigur fyrir mig,“ segir Arnaldur Indriðason.
„Sæluríkið er bók númer tuttugu og sjö á jafnmörgum árum og það er líka ákveðinn sigur fyrir mig,“ segir Arnaldur Indriðason. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þegar ég var að byrja fékk ég þau ráð, sem reyndust mér vel, að taka ekki mark á efasemdaröddunum vegna þess að þær voru margar og háværar í þá daga. Íslenskar glæpasögur áttu sér engan tilverurétt og voru sjoppubókmenntir af versta tagi.

Sæluríkið er nýjasta bók Arnaldar Indriðasonar. Arnaldur hefur hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir bækur sínar sem hafa verið þýddar á tugi tungumála og selst í nær tuttugu milljónum eintaka um allan heim.

Morð og mannshvarf eru í forgrunni í Sæluríkinu en aðalpersónan er fyrrverandi lögreglumaðurinn Konráð, sá breyski maður, og fortíð hans og eldri sakamál eru einnig til umfjöllunar. Bókin fékk lofsamlega dóma í Morgunblaðinu, fjórar og hálfa stjörnu af fimm mögulegum.

Blaðamaður spyr Arnald hvort hann hafi ákveðið hversu margar bækur hann ætli að skrifa um Konráð.

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það,“ segir Arnaldur. „Mér finnst gaman að kynnast Konráði betur og betur með hverri bók en slíkar aðalpersónur eiga sér líka sinn takmarkaða líftíma. Stundum er talað um að tíu bækur ættu að nægja fyrir lögreglumann eins og hann og sumir gera færri og aðrir fleiri. Líklega er þetta ákvörðun sem kemur meira af sjálfu sér þegar manni finnst söguefnið uppurið og maður snýr sér þá að einhverju nýju.“

Kalda stríðið kemur við sögu í bókinni og njósnamál. „Ég hef áður skrifað um kalda stríðið, gerði það í Kleifarvatni, og fannst það mjög upplýsandi,“ segir Arnaldur. „Í þetta sinn er fókusinn meira á Rússana, kannski til þess að minna að einhverju leyti á þá skelfingarsögu sem einræðisstjórnir kommúnista eiga að baki í Rússlandi og við sjáum núna síðast opinberast í hörmungunum í Úkraínu. Njósnir á Íslandi eru líka áhugaverðar, ég fékkst aðeins við þær í stríðsárabókunum mínum, vegna þess að við erum örþjóð í stórum heimi og slíkar sögur fjarri okkar veruleika. Það er svolítið gaman að ímynda sér slíkar aðstæður þegar þær eru langt frá því að vera eitthvað sem er sexí og spennandi. Það er enginn James Bond í þessu, segir Konráð í Sæluríkinu. Heimildarvinnan er talsverð þegar leitað er aftur í fortíðina líkt og í þessari nýju bók og þá kemur netið í góðar þarfir.“

Arnaldur er vinnusamur og er byrjaður á næstu bók. „Ég er að vinna í bók um Konráð sem gerist að mestu eða öllu leyti í samtímanum en annars er það góð regla rithöfunda að tala helst ekki um bækur sem þeir eiga eftir að skrifa. Það tekur svolítið töfrana úr þeim auk þess sem maður veit aldrei hundrað prósent hvort þær verði að veruleika og er þá kannski búinn að fjasa mikið um ekki neitt.“

Er erfitt að byrja á nýrri bók?

„Það er mjög misjafnt. Stundum er það auðvelt og stundum getur það verið erfiðara. Einhvers staðar byrjar maður en það er ekki endilega sú byrjun sem kemur fyrir augu lesenda. Mestu skiptir að fá hugmyndir og á meðan þær koma til manns er ástæða til þess að halda áfram vegna þess að mér finnst gaman að skrifa, sjá setningar verða til, málsgreinar, kafla og sögur þróast í allt aðrar áttir en maður ætlaði sér í fyrstu. Líklega heldur maður áfram að skrifa á meðan maður getur komið sjálfum sér á óvart. Í því liggur sköpunin og hún er auðvitað skemmtilegasti hlutinn af þessu öllu saman.“

Gerirðu plan fyrir söguþráðinn og helstu persónur eða hefurðu bara grófa hugmynd þegar þú byrjar á bók?

„Aðeins grófa hugmynd. Þegar maður skrifar seríur eru ákveðnar persónur og söguumhverfi til staðar og maður reynir að finna nýjan og nýjan flöt þar en svo bætast við aðrar sögur inn í það umhverfi. Bækurnar um Konráð hafa í rauninni verið ein samfelld skáldsaga um þróun Reykjavíkur og ævi hans sjálfs og mál sem hann fyrst kynntist í Stúlkunni hjá brúnni þegar í ljós kom að ung stúlka fannst drukknuð í Reykjavíkurtjörn án þess að nokkur skipti sér af því hvað fyrir hana kom. Það gerðist í kringum 1960 og saga hennar og saga Konráðs hafa fylgst að í bókunum sem á eftir hafa komið og eiga marga sameiginlega snertifleti sem varða föður Konráðs og síðan misnotkunarhring eins konar í Reykjavík á árunum eftir stríð. Síðasti angi þeirrar frásagnar allrar fær óvænt sögulok í Sæluríkinu.“

Erlendur er dáinn

Þú skrifaðir gríðarlega vinsæla bókaseríu þar sem Erlendur lögreglumaður var í aðalhlutverki. Svo virtist fara illa fyrir honum en margir geta ekki sætt sig við tilhugsunina um að hann sé látinn. Ég var beðin að spyrja þig spurningar, sem mér finnst reyndar augljóst svar vera við: Er Erlendur látinn?

„Ég held að hann hljóti að vera dáinn eftir að hann lagðist út í vetrarhörkum fyrir austan. En eins og ég hef oft sagt þá tekur það langan tíma fyrir mann að deyja úr kulda.“

Saknar þú hans stundum eða hugsarðu aldrei um hann?

„Ég hugsa eiginlega aldrei um hann. Erlendur átti sinn tíma og síðan hefur margt nýtt tekið við. Það er hins vegar gaman að hafa búið til persónu sem mörgum er svo hugstæð og margir sakna. Það er eitthvert brot úr þjóðarsálinni í þeim manni og maður getur skilið að fólk vilji fá meira af honum. En það er erfitt fyrir rithöfund að sitja fastur í sömu sporum auk þess sem ég held að engum líði betur en Erlendi sjálfum þarna uppi á fjallinu.“

Sagnfræðin skemmtileg

Árið 2021 sendi Arnaldur frá sér Sigurverkið, afar dramatíska sögulega skáldsögu sem gerist á 18. öld. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Spurður hvort það hafi ekki verið viss sigur fyrir rithöfund sem hefur einbeitt sér að glæpasagnaskrifum segir Arnaldur: „Ég veit ekki hvað eru sigrar í bókmenntum. Ég var að ljúka við málsgrein sem ég er sæmilega sáttur við og það er ákveðinn sigur. Að ljúka við bók sem maður er byrjaður á er líka fagnaðarefni. Munkarnir í Chartreuse gáfu mér heilan lítra af líkjörnum sem þeir framleiða þegar þeir sáu að Erlendur Sveinsson naut þess að drekka grænan Chartreuse í sinni einveru. Það er ákveðin bókmenntaviðurkenning. Viðtökurnar við Sigurverkinu komu mjög skemmtilega á óvart. Fólk hafði á henni sterkar skoðanir og hún virtist falla vel í kramið hjá fólki sem er ekki endilega vant að lesa mínar bækur. Mínir sigrar liggja í þeim breiða og ólíka lesendahópi sem bækur mínar hafa átt í gegnum tíðina og hvað þær eru lesnar af mörgum bæði hér heima og erlendis þótt auðvitað séu ekki allir sammála um þær. Sæluríkið er bók númer tuttugu og sjö á jafnmörgum árum og það er líka ákveðinn sigur fyrir mig.“

Ertu með hugmynd að annarri bók sem er ekki glæpasaga?

„Ég geng í sjálfu sér með margar hugmyndir að skáldsögum í maganum á hverjum tíma og eitthvað af því eru sögur sem eru ekki þessar hefðbundnu glæpaskáldsögur og eitthvað af því eru sögur sem verða aldrei til. Ég geri ráð fyrir fleiri bókum í ætt við Sigurverkið, sem eru sagnfræðilegs eðlis, einfaldlega vegna þess að ég hef menntun í sagnfræði og sagnfræði er mikið skemmtilegt fag fyrir forvitna rithöfunda sem nenna grúskinu.“

Færðu aldrei ritstíflu eða verður leiður á skriftum?

„Sjö-níu-þrettán. Það hefur ekki gerst ennþá en ég er oft spurður að þessu. Fyrir mér er rithöfundarstarfið heilmikil vinna og það skiptir máli, held ég, að ganga skipulega til verks og mæta í vinnuna á hverjum degi og reyna að skrifa, endurskrifa, endurskrifa aftur og svo aftur og lesa síðan prófarkir og endurskrifa á ný. Ég er sífellt að vinna í textanum fram að þeim degi að bókin verður að fara í prent. Eins og einhver sagði er texti í rauninni aldrei fullsaminn. Ég geng mjög skipulega til verks og reyni að hugsa ekki um stíflur og einhvern veginn tommast þetta áfram, stundum hraðar, stundum hægar en hefur ekki stíflast ennþá.“

Hugurinn við næstu sögu

Blaðamaður forvitnast um það hvað Arnaldur sé að lesa. „Þessa stundina er ég að lesa ljóð eftir norskt skáld og síðan er ég kominn miðja vegu í Ferðasögu Árna Magnússonar frá Geitastekk. Ég er að lesa tvær Árbækur Ferðafélags Íslands. Ég hafði líka mjög gaman af Stund milli stríða eftir okkar góða forseta fyrir utan nú handbók um golf sem er því miður aldrei hægt að klára að fullu. Ég tek mér frí frá vinnunni með því að lesa annað en glæpasögur. Mest horfi ég á íþróttir í sjónvarpinu en hef gaman af öllu sannsögulegu og til þess að nefna eitthvað sá ég um daginn Sharp Objects sem var ágæt sería.“

Glæpasögur njóta mikilla vinsælda og margir eru að skrifa þær. Hvaða ráð myndirðu, sem þrautþjálfaður glæpasagnahöfundur, gefa ungum glæpasagnahöfundum?

„Þegar ég var að byrja fékk ég þau ráð, sem reyndust mér vel, að taka ekki mark á efasemdaröddunum vegna þess að þær voru margar og háværar í þá daga. Íslenskar glæpasögur áttu sér engan tilverurétt og voru sjoppubókmenntir af versta tagi en ég hugsaði þetta öðruvísi og fékk stuðning til þess að fara mínu fram. Í dag er allt mögulegt og glæpasagan á miklum vinsældum að fagna eins og þú segir, svoleiðis að eina ráðið sem maður hefur fyrir þá sem eru að byrja er að hika ekki við að demba sér í slaginn. Ísland er frábær staður fyrir skemmtilegar glæpasögur og það eru í rauninni engin takmörk fyrir því hvaða stefnu þær taka eða hvaða atburðum þær segja frá eða hvaða undirgreinum þær tilheyra. Mér finnst það til dæmis kostur ef þær eru samfélagslegar og taka á málefnum líðandi stundar.“

Nú eru rithöfundar á miklum þeytingi milli landa til að kynna verk sín. Bækur þínar eru þýddar á fjölmörg tungumáll, ertu mikið á ferðalögum til að kynna þær?

„Ég er eiginlega alveg hættur slíkum ferðalögum. Ég gerði mjög mikið af því að ferðast og kynna bækurnar mínar og íslenskar bókmenntir og eiginlega allt sem er íslenskt en fékk svo nóg af því. Komst að því að það var ekki það skemmtilegasta við að skrifa að þeytast landa á milli út af bókunum. Það gefur mér sáralítið að tala um sjálfan mig og bækurnar og þegar ferðalögin voru farin að taka of mikinn tíma frá skrifunum dró ég verulega úr þeim.“

Heyrirðu frá lesendum þínum?

„Ég geri það stundum í mínu daglega stússi. Þá er ég kannski spurður um eitt og annað eins og er klukka Habrechts í Rósenborgarhöll og er hægt að fara og sjá hana? Eða hvenær kemur Erlendur aftur? Ertu ekki til í að skrifa eina bók í viðbót um hann? Sástu einhvern tíma listann yfir þá sem voru í Petsamoferðinni? Er hægt að hafa samúð með gallagrip eins og Konráði? Hvar stóð húsið í Grafarþögn nákvæmlega í Grafarholtinu?

Ég reyni að svara þessu eftir bestu getu en hugurinn er ekki bundinn við þetta heldur næstu sögu. Ég tek gömlu bækurnar aldrei úr hillu, ef satt skal segja. Ég hugsa frekar um þá næstu. Og þá næstu á eftir henni.“

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir