Hér má sjá hóp fólks sem fór í dásamlega ferðaskíðaferð í kringum Snæfell.
Hér má sjá hóp fólks sem fór í dásamlega ferðaskíðaferð í kringum Snæfell.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vinkonurnar sem kalla sig Millu og Krilllu heita fullu nafni Emelía Blöndal og Kristín Jóna Hilmarsdóttir en saman reka þær ferðaskrifstofuna Millu og Krillu ferðir. Milla hitti blaðamann í vikunni til að segja frá vetrarferðum sem þær bjóða upp á…

Vinkonurnar sem kalla sig Millu og Krilllu heita fullu nafni Emelía Blöndal og Kristín Jóna Hilmarsdóttir en saman reka þær ferðaskrifstofuna Millu og Krillu ferðir. Milla hitti blaðamann í vikunni til að segja frá vetrarferðum sem þær bjóða upp á og hafa notið mikilla vinsælda, ekki síst hjá miðaldra fólki sem vill stíga aðeins út fyrir þægindarammann.

Við höfum það huggulegt

„Við vinkonurnar höfum verið í útivist í yfir tuttugu ár og vorum alltaf í gönguhópi með konum. Okkur langaði svo í eitthvað meira og fórum þá í leiðsögunám fyrir tæpum áratug til að fara aðeins út fyrir boxið,“ segir Milla og segir þær í kjölfarið hafa farið að leiðsegja fyrir Íslenska fjallaleiðsögumenn.

„Við gerðum það meðfram öðru en áttum svo alltaf þann draum að gera eitthvað aðallega með konum. Við bjuggum því til eina ferð norður á Strandir og fórum þangað með tvo hópa af konum. Það var svo gaman að þær vildu nýja ferð. Þannig byrjaði boltinn að rúlla,“ segir hún.

„Svo kom covid og þá bættum við í og fórum að nýta okkur hótelin,“ segir Milla og útskýrir að á tímum faraldursins hafi verið hægt að fá góð tilboð fyrir íslenskt ævintýrafólk þar sem engir erlendir ferðamenn voru á landinu.

„Við fórum í ferð yfir Hengilinn og sló sú ferð alveg í gegn. Þetta var tveggja daga lúxusferð og ætluðum við tvisvar en enduðum í tólf ferðum. Þá var búið að setja hærri „standard“ því við vorum vanar að sofa í litlum plássum í skálum, þótt við gerum það alveg líka. En nú bjóðum við upp á aðeins betri gistingu. Við höfum það huggulegt í þessum ferðum,“ segir hún og segir þær nú bjóða upp á ferðir allan ársins hring.

Nánast bara konur

Gönguskíðamennska hefur notið vaxandi vinsælda hér á landi og hafa Millu og Krillu ferðir lagt sitt lóð á vogarskálarnar með því að bjóða upp á skíðakennslu og gönguskíðaferðir.

„Í janúar núna byrjum við með gönguskíðin, fjórða veturinn í röð. Við byrjuðum með námskeið norður á Ströndum rétt hjá Hólmavík og leigðum lítið hótel þar. Það er alltaf uppselt og nánast bara konur sem mæta, þótt við reynum að bjóða körlunum með,“ segir hún.

„Það er algengt að heilu vinkonuhóparnir kaupi upp heilu námskeiðin,“ segir Milla og segir þær Kristínu báðar skíðakonur.

„Við ákváðum að halda okkur við gönguskíðin en ég hafði lært það sem barn,“ segir Milla og segist hafa haldið að þessar vinsældir núna myndu ná hámarki en svo dala.

„Ég hélt að þetta væri bóla sem myndi springa og allir myndu selja skíðin sín eftir tvö ár en það virðist ekki vera að gerast. Við erum nú með sex námskeið og það er nánast fullt,“ segir hún og segir afar heilsueflandi að skrá sig í ferð því þá fari fólk út að æfa sig.

Lúxus en alvöruútivist

Nýjasta nýtt hjá Millu og Krillu eru ferðir þar sem fólk gengur á milli staða á ferðaskíðum eða utanbrautarskíðum.

„Þetta eru breiðari gönguskíði með stálköntum og fólk er ekki í sporum,“ segir Milla og útskýrir að þessi skíði séu ekki það sama og fjallaskíði.

„Það er gengið á rólegra tempói en á hefðbundnum gönguskíðum og fólk er að ferðast úti í náttúrunni. Núna eru allir mínir vinir komnir á þessi skíði, en ég byrjaði sjálf í covid,“ segir hún.

„Þetta er nýjasta „trendið“ hjá miðaldra fólki. Það er ekkert skemmtilegra en að ferðast um í hvítri náttúrunni,“ segir Milla og segir þennan ferðamáta ekki svo erfiðan en gott sé að kunna á gönguskíðum áður.

„Í okkar ferðum er trússað þannig að fólk þarf ekki að bera eða draga á eftir sér farangur. Flottasta ferðin okkar er á Austurlandi þar sem við ferðumst hringinn í kringum Snæfell. Sú ferð hefur slegið í gegn,“ segir Milla og nefnir að gist sé á góðu hóteli í Laugafelli þar sem hægt er að láta líða úr sér í heitum potti eftir langan dag á skíðum.

„Þetta er svolítill lúxus en samt alvöruútivist. Aðra nóttina er gist í skála og svo endum við í Óbyggðasetrinu. Við erum nú að fara þriðja árið í röð. Fólk á ekki að bíða eftir því að komi vor heldur að njóta vetrarins,“ segir Milla og segir fleiri ferðaskíðaferðir í boði á öðrum stöðum á landinu. Einnig bjóða þær stöllur upp á ýmiss konar útivistarferðir erlendis.

Milla segir alla geta byrjað að stunda útivist og fyrir byrjendur í skíðamennskunni er upplagt að byrja á byrjendanámskeiði á gönguskíðum.

„Við fáum alveg fólk til okkar sem kann ekki að reima á sig skóna. Við erum ansi góðar í að kenna byrjendum á gönguskíði.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir