Þessi lífsglöðu börn una sér vel úti í náttúrunni. Þau eru ung og lífið hefur ekki enn gert þau fúllynd, eins og fullorðið fólk er því miður svo oft.
Þessi lífsglöðu börn una sér vel úti í náttúrunni. Þau eru ung og lífið hefur ekki enn gert þau fúllynd, eins og fullorðið fólk er því miður svo oft. — Morgunblaðið/Eggert
Það að ana út í rifrildi á samfélagsmiðli er eins og að stinga hausnum í andfúlt gin ljónsins.

Sjónarhorn

Kolbrún Bergþórsdóttir

kolbrun@mbl.is

Yfirleitt reynir maður með öllum mögulegum ráðum að forðast rifrildi og deilur. Enda er löngu vitað að æsingur skapar vanlíðan og rænir mann orku, þannig að eftir á minnir maður helst á sprungna blöðru. Það er engan veginn gott ástand að vera algjörlega andlega úrvinda og því reynir maður umfram allt að lifa í sæmilegri sátt við umhverfið. Það jafngildir engan veginn því að maður þori ekki að segja skoðun sína vegna hræðslu við álit annarra. Merkir einungis það að maður lætur samfélagsmiðla ekki lokka mann til sín, enda er æsingur, reiði og fúllyndi þar of oft við völd og lítil eftirspurn eftir yfirveguðum rökræðum.

Fjölmiðlar fylgjast vel með skoðanaskiptum á samfélagsmiðlum. Þau geta sannarlega verið hörð og verða að vinsælum og æsilegum netfréttum sem fá mikinn lestur. Í samtíma okkar er stundum eins og fólk sé beinlínis að leita uppi deilur við aðra. Kannski leiðist því bara svona mikið. Oft hefst þetta á því að einstaklingur segir skoðun sína á einhverju máli afdráttarlaust á samfélagsmiðlum og er andmælt fýlulega. Hann bregst við með að svara fullum hálsi og áður en hann veit af er hann kominn í hávaðarifrildi við einhvern samfélagsmiðla-kunningja. Í framhaldinu skiptast þeir á svívirðingum sín á milli og kalla hvor annan óþolandi hrokagikk, illa upplýstan vitleysing, landsþekktan hálfvita og fleira miður fallegt. Enginn kristilegur kærleiksandi þar á ferð.

Sú sem þetta skrifar hitti fyrir allnokkru kunningja sem var greinilega í miklu tilfinningalegu uppnámi og hafði ríka þörf fyrir að ræða ástæðuna. Hann hafði verið að rífast við mann á Facebook. „Ég er enn að jafna mig,“ sagði hann titrandi röddu og hríðskalf af taugaæsingi.

Þrátt fyrir bágt andlegt ástand var nokkuð erfitt að hafa samúð með honum. Það að ana út í rifrildi á samfélagsmiðli er eins og að stinga hausnum í andfúlt gin ljónsins. Maður getur engum um kennt öðrum en sjálfum sér verði maður gerður höfðinu styttri.

Þessi kunningi mun engan veginn læra af reynslunni. Hann er fyrir löngu orðinn háður því að tjá sig á samfélagsmiðlum og hefur síðan þetta gerðist nokkrum sinnum fengið yfir sig holskeflu svívirðinga og verður alltaf jafn sár. Það á við hann eins og svo marga að þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur.

Annar kunningi fór fyrir einhverjum mánuðum í einlægt viðtal við fjölmiðil þar sem hann talaði opinskátt um erfiðleika í lífi sínu. Reiðir og bitrir miðaldra og eldri karlmenn úti í bæ sendu honum samstundis skilaboð á samfélagsmiðlum þar sem þeir kölluðu hann athyglissjúka væluskjóðu. Sjálfir, sögðu þeir, hefðu þeir lent í yfirgripsmiklum erfiðleikum og mótlæti á ævinni en harkað af sér eins og sannir karlmenn gera og alls ekki séð ástæðu til að hlaupa í fang fjölmiðla, enda væru þeir ekki sami vitleysingurinn og hann væri svo greinilega.

Þessi viðbrögð bitru og reiðu karlanna minntu pistlahöfund á atvik sem kona, verðlaunaður barnabókahöfundur, sagði henni frá. Sú fékk skammarpóst frá bláókunnugri konu sem gerði sjálfa sig að sjálfskipuðum bókmenntagagnrýnanda og tilkynnti henni þjösnalega að nýjasta bók rithöfundarins, sem varð reyndar verðlaunabók, væri hreinasta hörmung.

Einstaklingur fer í viðtal og er einlægur og fólk úti í bæ fær fýlukast en vill ekki sitja eitt að gremju sinni heldur skellir henni yfir manninn sem leyfði sér að vera hann sjálfur. Rithöfundur skrifar bók og það þykir bráðnauðsynlegt að senda honum tölvupóst um að bókin sé ömurleg og hefði aldrei átt að koma út. Var virkilega gríðarleg þörf á að koma neikvæðum skilaboðum á framfæri við þessa einstaklinga?

Það er ýmislegt í þessu lífi sem ber að varast. Eitt af því er hættan á að tapa lífsgleði og forvitni og verða æ reiðari og bitrari eftir því sem árin færast yfir mann. Það er alveg voðalegt hlutskipti.

Maður getur ekki annað en spurt: Hvernig í ósköpunum nennir fólk að lifa í biturð og reiði? Af hverju reynir það ekki að láta sér líða vel? En svo er það auðvitað þannig, eins og góður maður benti eitt sinn á, að sumum líður best illa.