Guðmundur Jóhannsson fæddist á Þórshöfn á Langanesi 19. janúar 1961. Hann varð bráðkvaddur 20. október 2023.
Foreldrar hans voru Jóhann Guðmundsson, f. 18. febrúar 1935, d. 5. apríl 1983, og Guðbjörg Guðmundsdóttir, f. 25. maí 1932, d. 15. ágúst 2019.
Systkini Guðmundar eru: Elísabet Magnea, f. 18. mars 1955, Sumarrós Kristín, f. 2. september 1958, og Gunnar Hólm, f. 17. desember 1966.
Þann 23. ágúst 2003 giftist Guðmundur eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurrós Jónasdóttur, f. 28. júní 1967. Faðir hennar var Jónas Pálsson, f. 12. nóv. 1947, d. 13. júlí 1995. Móðir hennar er Margrét Sigurðardóttir, f. 14. mars 1949.
Börn Guðmundar og Sigurrósar eru: 1) Bergrún, f. 12. janúar 1994, í sambúð með Hirti Harðarsyni, f. 19. ágúst 1994. Dætur þeirra eru Tinna Rós, f. 29. júlí 2018 og Eivör Lilja, f. 26. janúar 2021. 2) Jóhann, f. 30. desember 1996, í sambúð með Inamar Ferreira, f. 8. ágúst 1996. 3) Margrét, f. 30. júlí 1999, í sambúð með Sigtryggi Brynjari Þorlákssyni, f. 7. janúar 1990. Sonur þeirra er Óliver Máni, f. 19. janúar 2023. 4) Björg, f. 12. júlí 2001. 5) Alexander, f. 23. október 2006, í sambandi með Þórnýju Söru Arnardóttur, f. 22. apríl 2006.
Guðmundur stundaði nám við Grunnskóla Þórshafnar. Hann lauk gagnfræðaprófi frá Laugaskóla í Reykjadal. Hann náði sér í réttindi í Stýrimannaskólanum til að stjórna bátum, allt að 24 metrar á lengd.
Guðmundur hafði sjómennsku að ævistarfi. Lengst af starfaði hann hjá Geir ehf. Í framhaldi af því hóf hann eigin útgerð ásamt Gunnari Hólm, bróður sínum, og gerðu þeir út bátinn Gunnar KG. Þeir voru bæði á grásleppu- og standveiðum. Á veturna reri hann hjá öðrum aðilum.
Áhugamál Guðmundar tengdust m.a. hvers konar veiði. Hann stundaði bæði gæsa- og rjúpnaveiðar. Hann hafði mikinn áhuga á að spila bridge. Hann hafði gaman af að horfa á fótbolta og var dyggur stuðningsmaður Arsenal.
Útför Guðmundar fer fram frá Þórshafnarkirkju í dag, 4. nóvember 2023, og hefst athöfnin kl. 14.
Að sitja hér og skrifa minningargrein um mág minn og vin, Guðmund Jóhannsson, er þyngra en tárum taki. Ég átti ekki von á því, þegar ég ræddi við hann í síma á sunnudegi, að hann yrði farinn fimm dögum síðar.
Kynni okkar Guðmundar hófust fyrir rúmum 27 árum, er leiðir okkar Elsu, systur hans, lágu fyrst saman. Fljótlega kom í ljós hve skemmtilega stríðinn Guðmundur gat verið. Hann átti það til að banka upp á hjá nýja parinu eldsnemma á morgnana, þ.a. hann myndi örugglega ná að vekja okkur. Þetta var bara gaman. Guðmundur þoldi líka stríðni vel sjálfur. Það hnussaði eitthvað í honum, en hann hafði lúmskt gaman af.
Þegar börnin þeirra Lillóar voru lítil var oft mikið fjör og hávaði á heimili þeirra. Þá valdi ég jólagjafir handa börnunum, þannig að þau myndu valda sem mestum hávaða, t.d. rafmagnsgítar o.fl. Einhvern
tíma keyptum við Liverpool-fatnað handa Jóhanni, bara af því að Guðmundur hélt með Arsenal. Guðmundur sagði að Jóhann fengi aldrei að fara í þetta. Ekki veit ég um frekari afdrif þess fatnaðar. Allt var þetta gert til að stríða Guðmundi. Það versnaði síðan í því, þegar við Elsa eignuðumst Ástu okkar. Þá komu hótanir að norðan. Ykkur verður borgað í sama, sagði einn góður. Hann sendi Ástu einhvern tíma hljóðfæri í jólagjöf. Einhvern tíma er þau Lilló komu með öll börnin sín til okkar, hengdi á þau hljóðfæri og lét þau spila fyrir undirritaðan. Þá sömdum við frið.
Vinátta okkar Guðmundar dýpkaði með hverju árinu, enda var hann mörgum
góðum kostum gæddur. Hann var hjálpsamur, úrræðagóður og afar þægilegur í allri umgengni. Alltaf var gaman að fá þau Lilló í heimsókn suður og heimsækja þau fyrir norðan. Ég stríddi honum gjarnan á því, og nú síðast í haust, að hann
kæmi svo oft í bæinn, að ég ætlaði að finna íbúð handa þeim. Hann hélt nú ekki og vildi komast sem fyrst norður aftur.
Í hvert skipti sem ég kom norður hin síðari ár, buðu Guðmundur og Gunnar Hólm mér í einn túr með þeim á strandveiðar. Það voru skemmtilegir tímar.
Ég er mjög þakklátur fyrir þær stundir sem ég átti með Guðmundi og Lilló sl. sumar, er Elsa mín dvaldi á sjúkrahúsi. Við fórum út að borða nokkur kvöld í röð, fórum á kaffihús og naut ég vel samvista við þau.
Það voru ófáar máltíðirnar sem Guðmundur færði okkur Elsu. Það var hangikjöt fyrir jólin og rjúpur, ef þær var að hafa. Ekki má gleyma öllum fiskinum sem hann færði okkur. Fyrir þetta erum við afar þakklát.
Fyrr á árinu tók ég við bókhaldi í fyrirtæki þeirra bræðra. Samstarfið var fullkomið fyrir mig, algjörlega hnökralaust.
Að leiðarlokum vil ég þakka Guðmundi fyrir allt það sem hann var mér og mínum. Ég sakna hans mikið. Stórt skarð er komið í fjölskyldu- og vinahópinn. Ég bið honum Guðs blessunar á þeim leiðum sem hann hefur nú lagt út á.
Elsku Lilló, Bergrún, Jóhann, Margrét, Björg, Alexander, Elsa mín, Gunnar Hólm og Rósa. Missir okkar allra er mikill. Ég bið Guð að blessa okkur öll í þessari djúpu sorg.
Páll Brynjarsson.