Í Höllinni
Jón Kristinn Jónsson
jonkr@mbl.is
Ísland vann stórsigur á Færeyjum í vináttuleik karla í handbolta í Laugardalshöll í gærkvöldi í fyrsta leik íslenska liðsins undir stjórn Snorra Steins Guðjónssonar en leikurinn endaði 39:24.
Mikið jafnræði var með liðunum fyrstu 25 mínútur leiksins en þá setti íslenska liðið í næsta gír og seig hægt og rólega fram úr því færeyska. Voru hálfleikstölur 20:15. Síðari hálfleikurinn var algjör einstefna en þá keyrði íslenska liðið yfir það færeyska og vann Ísland að lokum 15 marka stórsigur.
Handbragð Snorra sást
Það sást vel í leiknum að Snorri Steinn er byrjaður að setja mark sitt á varnarleikinn, en liðið varðist mun aftar en áður. Ísland á þó talsvert inni í varnarleik sínum og margt sem þarf að slípa til.
Sóknarleikur liðsins var fínn í gærkvöldi, eins og markaskorun gefur til kynna. Hins vegar var leikurinn mjög hraður og fékk íslenska liðið fáar uppstilltar sóknir og náði lítið að æfa sig gegn uppstilltri vörn Færeyinga. Það á því eftir að koma betur í ljós hvaða mark Snorri Steinn mun setja á sóknarleik íslenska liðsins.
Þjálfarinn rúllaði vel á öllu liðinu í gærkvöldi og var lítið um skiptingar milli sóknar og varnar sem hlýtur að teljast styrkleikamerki. Sömuleiðis átti Viktor Gísli Hallgrímsson frábæran leik í marki Íslands og varði 18 skot, þar af eitt vítaskot.
Helsti styrkleiki Færeyja er að spila sjö á móti sex og tókst íslenska liðinu að leysa það nokkuð vel í vörninni. Sömuleiðis tókst íslenska liðinu að þvinga frændur okkar til að skjóta mikið fyrir utan sem er veikleiki í þeirra leik.
Færeyska liðið spilaði of mikið á sama liðinu í gærkvöldi og mætti segja að það hafi verið þeirra banabiti, því Færeyingarnir virtust springa. Það þýddi að Færeyingar spiluðu á mun veikara liði í síðari hálfleik sem útskýrir stórsigur Íslands.
Haukur mættur aftur
Það var afar ánægjulegt að sjá Hauk Þrastarson aftur í íslensku landsliðstreyjunni og skoraði hann þrjú mörk í leiknum en alls skoruðu 11 leikmenn Íslands í leiknum. Þar var Elliði Snær Viðarsson markahæstur með tíu mörk en á eftir honum kom Ómar Ingi Ómarsson með átta mörk.
Utan hóps í gær voru þeir Magnús Óli Magnússon, Þorsteinn Leó Gunnarsson, Ágúst Elí Björgvinsson og Viggó Kristjánsson.
Það hlýtur að teljast líklegt að þeir komi allir inn í hópinn þegar liðin mætast öðru sinni í dag klukkan 17.30, en sá leikur fer einnig fram í Laugardalshöll.