Laufey Brá Jónsdóttir
Laufey Brá Jónsdóttir
Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir sóknarpresti til þjónustu í Setbergsprestakalli í Grundarfirði. Þrjár umsóknir bárust og varð Laufey Brá Jónsdóttir guðfræðingur fyrir valinu hjá valnefnd. Tveir umsækjenda óskuðu eftir nafnleynd

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir sóknarpresti til þjónustu í Setbergsprestakalli í Grundarfirði.

Þrjár umsóknir bárust og varð Laufey Brá Jónsdóttir guðfræðingur fyrir valinu hjá valnefnd. Tveir umsækjenda óskuðu eftir nafnleynd.

Vígslubiskup Skálholtsumdæmis, sem staðgengill biskups Íslands, hefur staðfest ráðninguna, að því er fram kemur í tilkynningu á vef þjóðkirkjunnar.

Laufey Brá Jónsdóttir fæddist í Hafnarfirði hinn 22. júlí árið 1972. Hún er menntuð leikkona frá Leiklistarskóla Íslands.

Þá hefur hún einnig lokið meistaragráðu í mannauðsstjórnun og er menntaður markþjálfi auk guðfræðimenntunarinnar.

Síðustu sex ár hef Laufey unnið sem ráðgjafi í Kvennaathvarfinu. Einnig hefur hún unnið sem leikkona á sviði, í kvikmyndum og í sjónvarpi.

Hún hefur unnið sem leikstjóri og umsjónarkennari. Hún hefur skrifað efni fyrir Biskupsstofu og unnið með atvinnuleitendum í hruninu svo eitthvað sé nefnt. Maður hennar er Jón Ingi Hákonarson.

Í Setbergsprestakalli er einn þéttbýlisstaður og dreifbýli. Prestakallið er ein sókn, Setbergssókn, með tvær kirkjur, Grundarfjarðarkirkju og Setbergskirkju. sisi@mbl.is