Þorgeir Eyjólfsson
Þorgeir Eyjólfsson
Stjórnvöld gefi bólusettum landsmönnum kost á að koma í rannsókn fyrir hjartaskaða af völdum mRNA-bóluefnanna.

Þorgeir Eyjólfsson

Það vakti athygli þegar Pfizer breytti upplýsingum um hugsanlegan skaða af völdum mRNA-bóluefnisins og varar nú við hjartaskemmdum af völdum efnisins. Rannsóknir sýna að fjöldi bólusettra varð fyrir hjartaskaða af völdum bóluefnanna og skaðinn á hjartavöðvanum gengur ekki til baka nema hjá hluta. Því er hætta á að þúsundir bólusettra landsmanna hafi orðið fyrir varanlegum hjartaskaða. Skemmd á hjartavöðva sem fæstir skaðaðra hafa gert sér grein fyrir.

Eðlilega spyr almenningur hvernig það geti átt sér stað að lyfjaframleiðandi vari við hjartaskaða af völdum bóluefnis tæpum þremur árum eftir að bóluefnið hefur verið tekið í notkun. Birst hafa nýverið athuganir á gögnum klínískrar rannsóknar mRNA-bóluefnis Pfizer/BioNTech sem náði til 44.060 þátttakenda í nokkrum löndum á tímabilinu 27. júlí 2020 til 13. mars 2021. Ekki gekk átakalaust að fá aðgang að gögnunum. Málaferli þurfti til þar sem FDA (lyfjaeftirlitsaðili vestra) vildi halda gögnunum leyndum um 75 ára skeið. Rannsóknargögn Pfizer eru tæpar 400.000 blaðsíður. FDA er að birta þessi skjöl í hlutum og er ekki búið að birta öll gögnin þótt dómarinn hafi krafist þess. Hópur vísindamanna vinnur við að greina þann hluta rannsóknargagnanna sem búið er að birta. Tvær rannsóknir hafa birst nýlega þar sem afmarkaður hluti gagna Pfizer er krufinn. Eftirfarandi sýnishorn af verklagi lyfjaframleiðandans við að koma bóluefninu í gegn um leyfisferli FDA auðveldar lesandanum að skilja hvers vegna FDA taldi almenningi fyrir bestu að vita sem minnst um framkvæmd klínískrar rannsóknar Pfizer.

Fyrra dæmið er úr athugun[i] sem sýndi fram á alvarlegar aukaverkanir lyfleysuhópsins í rannsókninni þrátt fyrir að hafa verið sprautaðir með saltlausn að sögn Pfizer. Hjartatengdum alvarlegum atvikum fjölgaði í bólusetta hópnum u.þ.b. 100 dögum eftir bólusetningu og fyrir einskæra tilviljun fjölgaði á sama tíma hjartatengdum áföllum í hópnum sem fékk saltlausnina. Mjög undarlegt. Ekki hvarflar að höfundi að Pfizer hafi haft rangt við í klínísku rannsókninni með því að dæla einhverju öðru en saltlausn, t.d. mRNA-bóluefni, í upphandlegg þátttakenda í lyfleysuhópnum.

Seinna dæmið er úr rannsókn sem birtist sem grein[ii] í fagtímaritinu International Journal of Vaccine Theory en í rannsókninni voru dánarorsakir 38 þátttakenda í klínísku rannsókninni greindar. Rannsakendur fundu sannanir um 3,7 sinnum fleiri dauðsföll af hjartatengdum ástæðum en skýrsla Pfizer upplýsti. Telja rannsakendur ólíklegt að FDA hefði veitt mRNA-bóluefni Pfizer neyðarleyfi með þessa vitneskju fyrirliggjandi.

Í greininni í IJVT vakti athygli hversu fá dauðsföll urðu hjá þátttakendum í rannsókninni á tímabilinu sem hún spannaði. Miðað við bandarískar dánarlíkur létust aðeins 18% af þeim fjölda sem búast hefði mátt við í klínísku rannsókninni. Þetta er útskýrt með því að 395 þátttakendur í klínísku rannsókninni hafi „týnst“ þar sem ekki náðist samband við þá til að kanna heilsufar þeirra. Því liggur ekki fyrir hvort þeir eru lífs eða liðnir.

Ljóst er að ýmislegt má finna að framkvæmd klínískrar rannsóknar Pfizer á mRNA-bóluefninu. Eftirlitsaðilar, sem eiga að vernda almenning fyrir lyfjum sem eru skaðleg, brugðust hlutverki sínu. Umframdauðsföll bæði hér á landi og erlendis eru því órækt vitni. Dánarmeinaskrá landlæknis fyrir árið 2022 sýnir svart á hvítu að dauðsföllum af völdum krabbameins hefur fjölgað mikið hérlendis. Er það hliðstæð þróun og víða hefur orðið vart erlendis.

Þar sem Pfizer, ásamt helsta ráðgjafa sóttvarnalæknis, hefur nú staðfest skaðsemi mRNA-efnisins á hjartavöðvann er tímabært að rifja upp tillögu til stjórnvalda um að gefa bólusettum landsmönnum kost á að koma í rannsókn fyrir hjartaskaða af völdum mRNA-bóluefnanna. Með slíkri aðgerð geta stjórnvöld mildað óframkominn skaða á heilsu landsmanna af völdum mRNA-bóluefnisins.

[i] https://bit.ly/te-hl1

[ii] https://bit.ly/te-hl2

Höfundur er eftirlaunaþegi.

Höf.: Þorgeir Eyjólfsson