Matthildur Björnsdóttir
Matthildur Björnsdóttir
Um borð í Star Trek-skipinu voru samræður á háu siðmenntuðu plani og það þó að ekki væru allir sammála.

Matthildur Björnsdóttir

Ég hafði ekki horft á neinn Star Trek-þátt fyrr en ég kom til Ástralíu. Það var af því að maðurinn sem ég hafði hitt og kynnst á Íslandi í safaríferð Úlfars Jacobsen horfði á þá og hafði gert í mörg ár.

Það tók mig samt þó nokkurn tíma að ná öllu sem var í gangi í þeim, enda er það mikill og nýr veruleikaheimur sem Gene Roddenberry sýndi með því sem sjá mátti á skjánum. Ég skildi svo smám saman, að hann sá mannkynið á sinn hátt í sköpunarfjölbreytni með öllum litbrigðum húðar og líkamsforma. Hugmyndaflug hans um verur frá öðrum plánetum settu svo nýja vídd í allt dæmið.

Það sem var svo stórkostlegt við þá þætti var, að Gene Roddenberry var langt á undan sinni samtíð varðandi mannkynið hér á jörðu og um hæfileika kvenna af hvaða húðlit sem var og er. Það voru konur alls staðar frá jörðunni sem unnu tæknileg störf á skipinu. Hann var greinilega sál frá framtíðinni eins og Louise L. Hay sem var það, samt á annan hátt. Það eru ábyggilega fleiri slíkar sálir núna hér á jörðu sem ég kann ekki að nefna.

Læknisfræðin sem var í gangi þar var á háu tæknilegu sviði, sem las svo margt í líkama manna sem ég veit ekki til að hafi náð til jarðar fram að þessu. Þó að framfarirnar hafi verið víða þó nokkrar.

Já, Gene Roddenberry var fyrir jafnrétti og sá allar mannverur sem jafnar og skildi rétt varðandi húðlit manna, að hvaða húðlit sem mannvera hefur, er það mannvera. Veruleiki sem við erum því miður ekki að sjá nærri nóg af í verki hér á jörðinni í dag.

Um borð í Star Trek-skipinu voru samræður á háu siðmenntuðu plani og það þó að ekki væru allir sammála. Tjáskipti á plani sem ég hafði ekki orðið vitni að áður.

Það var svo frelsandi að verða vitni að þessu öllu í þessum þáttum hans Gene Roddenberry og gætu þættir hans verið notaðir til að kenna ótal margt, sem er ekki ennþá almennur veruleiki mannkyns í dag. Eins og til dæmis um samskipti og jafnrétti bæði kynja og flokka mannvera hvaðan sem þær koma á jörðu.

Tilhneigingar þeirra leiðtoga sem vilja að allir séu nákvæmlega eins, setti hann í tegund mannvera sem hann kallaði Borgs. Það er hins vegar ekki í eðli margra mannvera að vera það sem Gene Roddenberry sýndi sem Borgs. Þær mannverur eru þó til sem líður vel þannig. Sumar mannverur af báðum kynjum eru til dæmis að minni upplifun þær mannverur sem styðja menn eins og Donald Trump, Pútín eða leiðtoga Kína og Norður-Kóreu. Af því að þær mannverur hugsa hvorki rökrétt né skilja hvað alvöru lýðræði er. Borgs áttu ekki og máttu ekki hafa sjálfstæða hugsun, ekki hafa sitt eigið sjálf sem aðrir flokkar mannvera máttu og hafa.

Svo var mannveruútlitið frá öðrum plánetum sem hann sýndi í margs konar líkamlegu formi, öðru en því sem við jarðarbúar eigum að venjast. Það sjónarhorn að það séu hugsanlega verur á ótal öðrum plánetum, en þó líklegt að þær séu ekki sýnilegar okkar venjulegu augum, af því að þær eru í annarri vídd en við erum í. Þær gætu verið sýnilegar þeim sem hafa stærri sýn inn í hinar og þessar víddir í himingeimnum.

Samskipti við þær verur kölluðu svo á aðra hæfileika í tjáskiptum. Sumar af þeim verum hegðuðu sér meira eins og börn í frekjukasti.

Mér verður oft hugsað til þessara þátta, við að sjá æsinginn sem er að verða æ algengari og meiri í heiminum nú til dags.

Nýlega var efni í sjónvarpinu hér í Ástralíu í tilefni þess að hálf öld var liðin síðan þættirnir urðu til sem í raun var fyrir 57 árum. Þar kom fram að Roddenberry var sá sem gaf innblástur fyrir mikið af símatækni og tölvutækni nútímans, sem og samskipti mannvera hvaðanæva. Þar kom líka fram að hugsun hans í Star Trek-þáttunum hafi líka gefið mörgum innblástur til að læra læknisfræði og margt fleira sem þeir fengu hugmyndir um í þessum þáttum. Hann var dásamlega langt á undan sinni samtíð í svo mörgu.

Höfundur býr og starfar í Adelaide Suður-Ástralíu.

Höf.: Matthildur Björnsdóttir