Kjartan Gunnarsson fæddist á Njálsstöðum í Norðurfirði 10. mars 1934. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á Sjúkrahúsinu á Akranesi 21. október 2023.

Hann var sonur hjónanna Gunnars Njálssonar, f. 2. febrúar 1901, d. 6. júlí 1985, og Valgerðar Guðrúnar Valgeirsdóttur, f. 17. apríl 1899, d. 14. ágúst 1971.

Systkini Kjartans voru Súsanna Margrét, f. 12. september 1926, d. 30. apríl 2002, Sesselja, f. 18. ágúst 1928, d. 21. október 2013, Njáll, f. 22. maí 1930, d. 23. janúar 2021, Þórdís, f. 10. mars 1934, d. 29. maí 2015, Tryggvi, f. 4. júlí 1937.

Kjartan kvæntist Árdísi Sveinsdóttur, f. 5. nóvember 1942, 3. júní 1967 og eru börn þeirra Valdís, f. 23. desember 1965, og Gunnhildur, f. 17. desember 1970. Börn Árdísar frá fyrra hjónabandi eru Sigrún Kristinsdóttir, f. 10. ágúst 1960, og Kristinn Ólafur Kristinsson, f. 2. júlí 1963. Kristinn lést 30. desember 2020.

Kjartan og Árdís hófu búskap í Grundarfirði 3. september 1966. Kjartan stundaði sjómennsku og trésmíðar framan af en eftir að þau hófu búskap fór hann í vélskólann og var vélstjóri á bátum og skipum, lengst af á togaranum Runólfi SH 135 í Grundarfirði. Eftir að hann lauk sjómennsku sjötugur var hans yndi að smíða og smíðaði hann marga skemmtilega gripi eins og kirkjur fyrir börnin og ýmiskonar blómaker sem sjá má í görðum bæði hjá einstaklingum, í Grundarfirði, Hornafirði og víðar. Þau hjónin ferðuðust víða um Evrópu og höfðu mikið yndi af Kanaríeyjaferðum meðan heilsa Kjartans leyfði.

Hann verður jarðsunginn frá Grundarfjarðarkirkju í dag, 4. nóvember 2023, klukkan 14.

Pabbi var einstakt ljúfmenni sem talaði aldrei illa um nokkurn mann né gerði á hlut annarra. Rólegur en iðinn, þurfti alltaf að vera að gera eitthvað þó kannski hægt færi. Hann naut þess í sínum frítíma að smíða blómaker og hjólbörur undir blómin, fuglahús sem og heilu kirkjurnar sem jólaskraut sem dæmi. Pabbi elskaði að spila á spil og syngja í góðra vina hópi, jafnvel með glas við hönd. Hann var vélstjóri á Runólfi SH í fjölda-
mörg ár og var alltaf jafn ánægður þar. Samstarfsfélagar minnast margir á hve söngelskur hann var og söng m.a. alltaf lagið Ég fer í fríið ef hann eða einhver var að fara í frí og aðrir tóku undir. Þetta lýsir pabba mjög vel. Var hann svo samviskusamur að eitt sinn átti hann að fara í túr um nótt og svaf yfir sig sem gerðist aldrei nema í þetta eina skiptið. Hann hljóp niður á bryggju og horfði á eftir bátnum sigla út. Það fékk svo mikið á hann að hann fékk martraðir í mörg ár á eftir.

Pabbi var fæddur íþróttamaður, þó að hann iðkaði það ekki mikið, en var þó mikið á skíðum þegar hann var lítill. Við fengum oft að heyra þá sögu að þegar hann var í sveitinni sem ungur drengur þá voru bræðurnir að leika sér í hástökki og héldu bræður hans priki eins hátt uppi og þeir gátu og svo stökk pabbi yfir. Þeir fundu sér tunnur og stóðu uppi á þeim og pabbi stökk enn yfir. Þeir komust ekki hærra svo ekki var hoppað meira þann daginn. Einnig var pabbi einu sinni að spjalla við mömmu þegar hún var að vinna á leikskólanum í Grundarfirði. Mamma var fyrir innan girðingu en pabbi utan. Mamma spurði hann hvort hann vildi ekki koma inn fyrir og þá setti pabbi höndina á girðinguna og stökk yfir. Ætli girðingin sé ekki um 1,60 cm á hæð og hann þurfti ekki einu sinni atrennu og þarna var hann um fimmtugt. Einnig sáum við þegar hann stóð á haus á grasi ekki með neitt til að styðja sig við og þá á sextugsaldri og eigum við skemmtilega mynd af því. Pabbi var byrjaður að leika sér aðeins í golfi þegar hann veiktist.

Pabbi var einstaklega heilsuhraustur alla tíð en fékk reyndar flensu árið 1978. Hann var alltaf grannur og flottur en fékk aldrei seddutilfinningu. Hann ýtti alltaf á magann til að athuga hvort hann gæti borðað meira. Það eina sem pabbi borðaði aldrei voru bananar. Það eltist af honum því þegar hann var kominn með alzheimer borðaði hann banana á hverjum degi. Pabbi tók í nefið frá því að hann var 13 ára. Eftir að hann fékk alzheimer sá mamma að hann var farinn að setja kaffiduft í silfurneftóbaksdósina sína og spurði hún lækninn hvað hún ætti að gera. Læknirinn sagði að kaffi væri miklu heilsusamlegra en tóbak svo hún ætti ekki að gera neitt í þessu. Svo bara gleymdi þessi elska að hann tæki í nefið og tók ekkert síðustu árin.

Ég minnist pabba með mikilli gleði og ást í hjarta enda einstakt góðmenni og glaðlyndur með afbrigðum. Ég trúi því að nú líði honum vel, laus undan sjúkdómnum sem hrjáði hann. Nú syngur hann í Sumarlandinu með sínum nánustu sem eru farin. Takk fyrir allt pabbi minn, ég elska þig.

Þín dóttir,

Gunnhildur.

Í dag kveð ég tengdaföður minn, Kjartan Gunnarsson. Samvera okkar hefur verið með miklum hléum í gegnum árin, bæði vegna langrar dvalar minnar erlendis og einnig vegna fjarveru hans til sjós. En þær stundir sem við áttum saman voru gæðastundir, með löngu spjalli um daginn og veginn, um uppvaxtarár hans í Norðurfirði, um sjómennsku og önnur störf. Ánægju- og gleðistundir á heimili þeirra hjóna voru margar í gegnum árin. Ég var í áhöfn togarans Runólfs SH 135 í eitt ár, en það var helsti vinnustaður Kjartans á lífsleiðinni. Hann var þar í góðum hópi áhafnarinnar, oftast í vélstjórarýminu.

Verandi kokkur um borð hitti ég áhöfnina á skiptandi vöktum. Mér er það einkar minnisstætt, að á sex tíma hvíldarvakt kom Kjartan oftast fram á miðri vaktinni, gekk hljóðlega inn í borðsal, fékk sér bolla af kaffi, tók myndarlega í nefið og hélt síðan áfram að sofa þar til kallað var „ræs“. Kjartan var hraustmenni, gerði gjarnan leikfimisæfingar til að halda liðleika og styrk og það sem lenti í greip hans við vinnu slapp ekki svo auðveldlega. Mikill hagleiksmaður var hann á tré og handverk og til vitnis um það er hlýlegt heimili þeirra hjóna þar sem öllu var haldið við sem nýtt væri.

Kjartani þótti gaman að skemmta sér og var þá söngurinn skammt undan. Þau hjónin voru dugleg að ferðast bæði innan lands og utan og halda vinskap við vini sína víða um land.

Hann var virtur af samferðamönnum sínum og voru samskipti við þá gjarnan á léttari nótunum, gantast og glaðst yfir minningum. Síðustu árin dvaldi hann á Fellaskjóli í Grundarfirði þar sem hann naut góðs atlætis starfsfólksins. En enginn á meiri þátt í að vakta velferð hans í því ferli sem smátt og smátt fjarlægði hann umhverfi sínu en Árdís kona hans. Með þessum orðum kveð ég kæran vin, tengdaföður og afa barnanna okkar.

Bjarki
Sveinbjörnsson.

Við þekkjum hinn söngglaða sjómann

úr sædjúpi björgina dró hann

og fyrir þjóð

- hann færði í sjóð

aflahlut ekki svo mjóan.

(Ásjón)

Þessar ljóðlínur koma mér í hug er við kveðjum Kjartan Gunnarsson, sjómann, vélstjóra, náfrænda og vin.

„Nú garpur er genginn frá borði“ kvað skáldið Ásjón mágur Kjartans til hans sjötugs er hann fór í land af sjónum.

Valgerður Valgeirsdóttir móðir Kjartans var systir Laufeyjar móður minnar úr Norðurfirðinum og Njáll afi Kjartans og Guðrún föðuramma mín voru alsystkin frá Kjós í Árneshreppi. Það var ekki aðeins að skyldleikinn væri náinn heldur vinskapur mikill milli fjölskyldnanna. Ekki hvað síst eftir að þær fluttust af Ströndunum, við frá Asparvík í Bjarnarhöfn 1951 og fjölskylda Kjartans 1952 úr Norðurfirðinum að Suður-Bár í Eyrarsveit. Gagnkvæm fjölskylduboð og samvinna var á milli heimilanna.

Kjartan fór ungur til sjós bæði á eigin bát, Voninni, síðar á bátum frá Grundarfirði. Í viðtali við Norðurstjörnuna 2005 lýsir Kjartan ævi sinni stuttlega: „Ætli að ég hafi ekki verið um tíu þúsund daga á sjó, – fékk flensu og var settur í land eina viku, síðar hálfan mánuð með slitið liðband og krossband.“

Kjartan var vinsæll og hvers manns hugljúfi og lagði alltaf gott til og með hlýja nærveru. „Mér finnst gaman að vera með góðum félögum í vinnu og reyndar hvar sem er. Og að syngja í vinahópi og tek hressilega undir þegar fagnaður er eða menn hittast.“

Sem ungur maður minnist ég ballferða, þegar búið var að stappa í jeppana fólki eins og komst, ríflega það og ekið á Breiðablik, Skjöld eða í Borgarfjörðinn. Þá var sungið á báðum leiðum og á ballinu, Kjartan leiddi og gaf ekki eftir.

Þau hjónin Kjartan og Dídí (Árdís Sveinsdóttir) bjuggu sér hlýtt heimili í Grundarfirði, gestrisin og samheldin hjón: „Ég ber mikla virðingu fyrir sjómannskonunni“ segir Kjartan: „Það var ekki alltaf auðvelt fyrir Dídí að vera langtímum ein í landi með börnin og heimilið.“

„Við Kjartan byrjuðum loksins að búa saman fyrir þremur árum þegar hann hætti á sjónum,“ segir Dídí kankvís.

„Já, Dídí hefur alltaf verið mín hægri hönd í öllu.“ Fallegt bros Kjartans og hlýjan í augunum staðfesta það. „Lífsskoðun mín er að vera sjálfum sér samkvæmur hvar sem er og vera bjartsýnn og láta sér líða sem best.

Standa fyrir sínu og með fólki sem hallað er á í samfélaginu,“ segir þessi höfðingi í lok viðtalsins.

Kjartan minnist súkkulaðikökunnar sem mamma hans bakaði 17. júní fyrir norðan með „þykka“ kreminu. Ég er viss um að móðir hans hefur kökuna tilbúna með pönnukökum og kleinum eins og hann lýsti. Kjartani verður vel fagnað í sumarlandinu eins og hvarvetna þar sem hann fór:

Ljúfmennið götuna gengur,

glaður og reifur sá drengur.

Hvar sem hann fer, velkominn er

sem gleðinnar góði fengur.

Þá verður sungið.

„Um byggðina söngur hans hljómar

og hlustendaskarinn þá ljómar.

Loksins hann má

nú létta á þrá

sem ávallt í salnum ómar.

(Ásjón).

Kjartan Gunnarsson var einn þeirra sem byggðu upp Ísland frá fátækt til velmegunar. Hógvær, bjartsýnn, lá aldrei á liði sínu

Við þökkum Kjartani fyrir samferðina, aflahlutinn, glettnina, sönginn og vináttuna. Guð gefi landi voru marga slíka.

Dídí og fjölskyldunni allri sendum við Ingibjörg okkar einlægu samúðarkveðjur.

Guð blessi minningu Kjartans Gunnarssonar.

Jón Bjarnason
og Ingibjörg Kolka.

Fallinn er frá kær vinur og samstarfsmaður Kjartan Gunnarsson vélstjóri.

Ég varð þeirrar gæfu njótandi að vera samskipa honum í áratugi, jafn ljúfan og tryggan mann var vart hægt að hugsa sér.

Kjartan var gleðimaður og jafnframt mikill alvörumaður, á góðum stundum var hann oft fyrstur til að hefja upp raust sína en söngrödd hafði hann afar fallega.

Samstarfið á sjónum var ljúft þó stundum komi brælur, en á hverjum morgni kom hann og bauð góðan dag og fór ekki frá mér fyrr en ég sagði: Guð gefi þér góðan dag.

Síðustu árin voru erfið
eftir að hann veiktist af alzheimersjúkdómnum, en alltaf var hann jafn ljúfur þegar ég heimsótti hann.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem)

Fyrir hönd fyrirtækis okkar, Guðm.Runólfssonar hf.,
þakka ég áratuga samstarf og tryggð.

Aðstandendum sendum við okkar dýpstu samúðarkveðju.

Runólfur
Guðmundsson.