Rafbílar eru auglýstir sem aldrei fyrr þessa dagana, enda hver að verða síðastur áður en endurgreiðslu á virðisaukaskatti allt að 1,3 milljónum króna á bíl verði hætt um áramót. Í staðinn verður reyndar tekin upp endurgreiðsla á allt að 900 þúsund krónum.
Stjórnvöld hafa hingað til ýtt undir kaup á rafbílum og litið á það sem lið í að hraða orkuskiptum í landinu. Ekki er ljóst hvaða áhrif þetta mun hafa á sölu rafbíla. Í Þýskalandi var bundinn endi á niðurfellingu gjalda af nýjum rafbílum í haust og dróst salan verulega saman.
Þá hefur einnig verið tilkynnt að hér á landi verði tekið upp kílómetragjald, sem lagt verði á rafmagnsbíla. Gjaldið á bíla sem aðeins ganga fyrir rafmagni verður sex krónur, en tvær krónur á kílómetrann fyrir bíla sem ganga bæði fyrir rafmagni og jarðefnaeldsneyti.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, segir í samtali í Morgunblaðinu á miðvikudag líklegt að minni ívilnanir vegna rafbíla muni draga úr eftirspurn. Hann segir að verð sé farið að lækka á rafbílum, en það hafi þó ekki lækkað það mikið að tímabært sé að gefa ívilnanirnar eftir.
„Það eru ekki allir drifnir áfram af umhverfissjónarmiðum við kaup á rafbíl. Þetta er stór útgjaldaliður þannig að fólk þarf að huga að ýmsu öðru. Boðaðar breytingar gætu haft í för með sér að það verði ekki lengur hagkvæmt fyrir marga að fara í orkuskipti,“ segir Runólfur.
Umræðan um hagkvæmni rafbíla fer ekki aðeins fram hér á landi.
Runólfur gagnrýnir fyrirætlunina um kílómetragjaldið og segir að samtök sín staldri við að það eigi að leggja á rafknúna fólks- og sendibíla óháð orkuþörf þeirra og þyngd, sem geti verið allt frá einu og hálfu tonni upp í á sjötta tonn sé bílinn með tengivagn. Þá sé drægni tvinnbíla misjöfn.
Þetta er rétt hjá Runólfi. Nú eru peningar til viðhalds vegakerfisins innheimtir í gegnum sölu olíu og bensíns. Gjaldið er lagt á hvern lítra þannig að það hvað leggst til af hverri bifreið á hvern kílómetra fer eftir því hversu sparneytin hún er.
Þá borga neytendur gjaldið jafnharðan í hvert skipti sem þeir fylla á tankinn. Ekkert hefur komið fram um útfærsluna á kílómetragjaldinu eða hvernig eftirliti með akstri verður háttað. Verður það innheimt í eitt skipti á ári þegar bíllinn fer í skoðun? Meðalakstur á ári mun vera um 16 þúsund kílómetrar þannig að það yrðu þá tæpar 100 þúsund krónur í vegatoll. Það getur verið óþægilegt að þurfa að borga það á einu bretti, en kannski verður boðið upp á raðgreiðslur. Síðan þarf ekki að skoða nýja bíla árlega. Hvað verður þá gert? Verður aksturinn áætlaður?
Í grein í tímaritinu Forbes var í liðnum mánuði fjallað um það að sala rafbíla í Evrópu myndi sennilega dragast saman á þessu ári vegna þess að farið væri að draga úr niðurgreiðslum og tryggingakostnaður færi vaxandi.
Þar segir að verð á rafbílum hafi ekki lækkað jafn hratt með vaxandi framleiðslu og búist hafi verið við. Þá hafi því verið haldið fram að tryggingakostnaður yrði minni af rafbílum en bensínbílum vegna þess að vélarnar væru öðruvísi og auðveldara að setja bílana saman. Það hafi ekki reynst rétt.
Segir í blaðinu að dýrara sé að tryggja rafbíla vegna þess að varahlutir séu dýrari og iðulega vandfundnir.
Í greininni í Forbes segir að breskir fjölmiðlar séu um þessar mundir fullir af hryllingssögum um iðgjöld tryggingafélaga og tekið dæmi um eiganda Teslu sem varð fyrir því að þau fimmfölduðust milli ára.
Sérstaklega munu tryggingafyrirtækin hafa áhyggjur af kostnaði við að endurnýja rafhlöður rafmagnsbílanna. Þær séu viðkvæmar fyrir hnjaski vegna þess að þær eru undir bílnum. Það er dýrt spaug ef rafhlaðan eyðileggst því að það getur kostað helminginn af andvirði bílsins að skipta henni út.
Þá hefur nokkur umræða verið um að hættara sé við því að kvikni í rafbílum en bensínbílum, en ekki er hægt að finna tölur því til stuðnings. Hins vegar er erfiðara að slökkva í rafbílunum ef kviknar í þeim, eldurinn getur logað lengi og blossað upp á ný þegar hann virðist hafa verið slökktur.
Þetta er ekki rakið til að letja þá sem hafa hug á að kaupa rafbíla. Þeir hafa sína kosti og galla eins og bensínbílarnir. Það er örugglega auðveldara að skipta yfir í rafbíl á Íslandi en á Bretlandi eða meginlandi Evrópu. Hér eru það margir rafbílar í umferð að meiri þekkingu er að finna á bílaverkstæðum en annars staðar og auðveldara að fá þjónustu. Það er örugglega líka auðveldara – og ódýrara – að hlaða bílana.
En þeir sem hafa hug á að skipta yfir í rafbíl verða hikandi þegar forsendurnar eru óljósar og stjórnvöld breyta þeim með jafn afgerandi hætti og verður um áramót. Það er örugglega rétt hjá formanni FÍB að fæstir kaupa rafbíl eingöngu út af umhverfissjónarmiðum, hagkvæmnin verður að vera fyrir hendi.