Kvikmyndir
Jóna Gréta
Hilmarsdóttir
Þrátt fyrir háan aldur heldur Óskarsverðlaunahafinn Agnieszka Holland ótrauð áfram að gera kvikmyndir. Nýjasta mynd hennar, Grænu landamærin, fjallar um landamæri Póllands og Hvíta-Rússlands eða Belarús sem voru notuð sem pólitískt vopn. Alexander Lúkasjenkó forseti Hvíta-Rússlands hefur á undanförnum árum leyft inngöngu flóttafólks og lofað því leið þaðan yfir til Póllands og ESB í gegnum Białowieza-skóginn. Pólland, líkt og Hvíta-Rússland, vill hins vegar ekkert með flóttafólkið hafa enda markmið Hvíta-Rússlands einungis að refsa og grafa undan Evrópusambandinu. Þó er myndin ekki síður gagnrýni á ESB og Pólland. Verkferlar varðanna báðum megin við landamærin eru ómannúðlegir en þeir henda flóttafólkinu fram og til baka yfir landamærin, lifandi og dánu, til að forðast ábyrgðina.
Opnunaratriði í Grænu landamærunum er drónaskot í lit yfir Białowieza-skóg en smátt og smátt verður myndin svarthvít og við tekur atriði í flugvél þar sem áhorfendur kynnast sex manna sýrlenskri fjölskyldu frá Harasta sem lifði af borgarastyrjöld heima og vonast til að komast í gegnum Hvíta-Rússland og Pólland á leið til Svíþjóðar. Fjölskyldan er aðalviðfangsefni fyrri hluta kvikmyndarinnar. Hún samanstendur af Bashir (Jalal Altawil), en í för með honum eru faðir hans (Mohamad Al Rashi), eiginkona Bashirs Amina (Dalia Naous), sonurinn Nur (Taim Ajjan), yngri systir hans Ghalia (Talia Ajjan) og ungbarn þeirra. Við hliðina á syninum Nur situr Leila (Behi Djanati Atai) frá Afganistan sem verður fljótlega hluti af fjölskyldunni í hamförunum sem eiga eftir að verða. Þegar vélin lendir gefa flugfreyjurnar farþegum sínum rósir, sem er mjög kaldhæðnislegt því þegar þeir koma að pólsku landamærunum er þeim mætt með riffilskotum og neyddir til að hlaupa yfir einskismannsland.
Holland leyfir áhorfendum að kynnast fjölskyldunni ekki aðeins sem fórnarlömbum heldur manneskjum í eins konar mótvægi við herferðir Póllands og Hvíta-Rússlands, en í myndinni eru landamæraverðirnir ítrekað minntir á að flóttafólkið sé ekki fólk heldur lifandi byssukúlur eða vopn Lúkasjenkós og Pútíns. Þessi hugsunarháttur verður greinilegur í átakanlegu atriði þar sem pólskir landamæraverðir henda ófrískri afrískri konu yfir landamæri, sem veldur því að hún missir fóstrið.
Leikstjórinn Holland beinir sjónum hins vegar ekki einungis að flóttafólkinu heldur fá aðrar pólskar sögupersónur einnig að segja sína sögu, þar á meðal ungur landamæravörður, Jan (Tomasz Wlosok), sem á von á barni, og geðlæknirinn Julia (Maja Ostaszewska) sem verður vitni að dauða flóttabarns og gengur til liðs við unga pólska aðgerðasinna sem veita þá aðstoð sem þeir geta. Sögurnar eru missterkar en allar áhrifamiklar. Holland tekur síðan þá sterku leikstjórnarákvörðun í lok myndarinnar að sýna sömu pólsku landamærasveitina taka á móti þúsundum úkraínskra flóttamanna en viðhorfið er allt annað.
Grænu landamærin er mjög krefjandi en þrátt fyrir það er að finna ákveðna bjartsýni eða von í henni; von um að áhorfendur telji sig neydda til að gera eitthvað í málinu. Maður upplifir samt sem áður gífurlegt máttleysi við að horfa á þessa mynd, einnig í ljósi þess að á sama tíma og þessi dómur er skrifaður á sér stað þjóðarmorð í Palestínu. Maður heldur áfram að lifa sínu hversdagslega lífi, skrifar kannski undir hjá Amnesty sem krefst vopnahlés allra aðila á hernumdu svæði Gasa og í Ísrael og mætir á mótmælin, en slíkt virkar smávægilegt miðað við ofbeldið sem á sér stað fyrir augunum á okkur. Eitt atriðið er mjög sláandi og tengist þessu fyrrnefnda en það er þegar flóttamaðurinn Bashir neitar að sýna aðgerðasinnunum, sem eru að taka upp, örin á baki sér eftir ISIS og segir: „Af hverju ætti ég að sýna þeim? Þau hafa fylgst með okkur í 10 ár.“
Holland hlaut dómnefndarverðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum á þessu ári fyrir Grænu landamærin en henni hefur ekki verið tekið eins vel heima fyrir. Myndin hefur verið skotmark hægrisinnaðra hópa og á Filmweb, vinsælasta kvikmyndavef Póllands, hafði mynd Holland, þrátt fyrir að hún væri ekki enn komin í sýningu, hlotið þúsundir neikvæðra athugasemda. Samkvæmt vef Guardian líkti dómsmálaráðherra Póllands, Zbigniew Ziobro, Grænu landamærunum við áróðursmynd nasista í Þýskalandi. Slíkur samanburður er einfaldlega móðgandi enda um að ræða vel gerða og mikilvæga kvikmynd.