Ítalía Hörður Björgvin Magnússon fór 18 ára gamall frá Fram til Juventus, sem hefur fengið til sín flesta unga leikmenn.
Ítalía Hörður Björgvin Magnússon fór 18 ára gamall frá Fram til Juventus, sem hefur fengið til sín flesta unga leikmenn. — Ljósmynd/Szilvia Micheller
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ungir íslenskir knattspyrnumenn sem ganga til liðs við erlend félög á aldrinum 16-18 ára eru líklegri en jafnaldrar þeirra í flestöllum löndum til að ná langt í íþrótt sinni. Breiðablik er í sjötta sæti yfir félög í Evrópu sem eru uppeldisfélög leikmanna sem fara utan á þessum aldri

Baksvið

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ungir íslenskir knattspyrnumenn sem ganga til liðs við erlend félög á aldrinum 16-18 ára eru líklegri en jafnaldrar þeirra í flestöllum löndum til að ná langt í íþrótt sinni.

Breiðablik er í sjötta sæti yfir félög í Evrópu sem eru uppeldisfélög leikmanna sem fara utan á þessum aldri.

Þetta tvennt er meðal þess sem kemur fram í ítarlegri rannsókn sem ECA, Samtök evrópskra knattspyrnufélaga, gekkst fyrir og hefur birt niðurstöðurnar.

Þar var ferill hvers einasta 16-18 ára knattspyrnumanns sem flutti á milli landa á ellefu ára tímabili, frá 2011 til 2022, skoðaður ítarlega.

Á þessu ellefu ára tímabili fóru 73 íslenskir piltar á aldrinum 16-18 ára til erlendra félaga en af þeim fóru 20 frá Breiðabliki. Fimm fóru frá ÍA og fimm frá Víkingi í Reykjavík en hinir 43 dreifðust á fjölmörg íslensk félög.

Ísland í þriðja sæti

Skoðað var hversu hátt hlutfall leikmanna náði að fylgja þessu eftir með því að komast í 21-árs landslið sinnar þjóðar, og hversu margir komust í A-landsliðið.

Ísland er í þriðja sæti þegar horft er til 21-árs landsliðs en 63,6 prósent af þessum 73 leikmönnum hafa náð að spila fyrir Íslands hönd í þeim aldursflokki.

Aðeins Litháen með 80 prósent og Kýpur með 72,7 prósent eru með hærra hlutfall en næst á eftir Íslandi koma Tékkland (58,8%), Noregur (54,2%) og Danmörk (50%).

Versta útkoman er hjá Ítalíu en þar komst ekki einn einasti af 80 ítölskum piltum sem fóru til annars lands í 21-árs landsliðið.

Ísland í öðru sæti

Þegar kemur að A-landsliðum er Litháen áfram með hæsta hlutfallið en 60 prósent af umræddum piltum sem þaðan fóru erlendis komust síðar meir í A-landslið Litháens. Ísland og Kýpur deila síðan öðru sætinu með 45,5% hvor þjóð.

Þar á eftir koma Tékkland (35,3%), Holland (35,3%), Kanada (33,3%) og Lúxemborg (33,3%).

Versta útkoman er hjá Wales en ekki einn einasti af 63 velskum piltum sem fóru utan á þessum aldri komst síðar meir í A-landsliðið.

Breiðablik, Barcelona og Ajax

Breiðablik er í sjötta sæti eins og áður sagði yfir þau félög sem hafa sent frá sér flesta leikmenn á þessum aldri og er þar í athyglisverðum félagsskap, bæði með nokkrum af þekktustu félögum Evrópu og nokkrum lítt þekktum.

Stórveldið Barcelona deilir efsta sætinu með Linfield frá Norður-Írlandi og St. Kevins's Boys frá Írlandi en 29 leikmenn frá hverju þessara þriggja félaga hafa farið til erlends félags á aldrinum 16-18 ára.

Anderlecht í Belgíu og Ajax frá Hollandi, tvö af stærstu félögum sinna landa, koma næst með 25 og 23 leikmenn en síðan er röðin komin að Breiðabliki í sjötta sætinu með sína 20 leikmenn.

Brommapojkarna frá Svíþjóð og Glentoran frá Norður-Írlandi koma næst með 18 leikmenn hvort en síðan koma Benfica frá Portúgal með 17 og enska félagið Chelsea með 16 leikmenn sem hafa farið utan á aldrinum 16-18 ára.

73 Íslendingar

Ísland er í 21. sæti á listanum yfir fjölda leikmanna, með sína 73 pilta. Frakkar eiga flesta, 246, og síðan koma Írar (219), Spánverjar (164), Englendingar (151) og Norður-Írar (142).

Aftur á móti eru það Englendingar sem hafa fengið til sín flesta af þessum ungu leikmönnum, 966 talsins. Þeim hefur hins vegar snarfækkað frá því Brexit tók gildi í ársbyrjun 2021 en frá þeim tíma geta Englendingar aðeins fengið unga leikmenn frá hinum bresku þjóðunum.

Ítalir og Þjóðverjar hafa stóraukið innflutninginn á þeim tíma en Englendingar hafa snúið sér betur að uppeldi eigin leikmanna.

Fimm komu til Íslands

Næstir á eftir þeim koma Ítalir sem hafa flutt inn 829 unga leikmenn en síðan er langt bil í Þjóðverja sem eru þriðju með 355 leikmenn. Þar á eftir koma Holland með 156, Portúgal með 122 og Ungverjaland með 106. Ísland er í hópi neðstu þjóða en fimm erlendir leikmenn á þessum aldri komu til íslenskra liða á árunum 2011-2022. Þeir komu til Breiðabliks, Fram, HK, Fylkis og Gróttu.

Flestir til Englands

Flestir af Íslendingunum 73 fóru til Englands, 17 talsins, en 16 fóru til Hollands, 14 til Ítalíu, 11 til Danmerkur, fimm til Svíþjóðar, fjórir til Þýskalands, tveir til Belgíu, tveir til Noregs, einn til Portúgals og einn til Wales.

Flestir til Juventus

Juventus á Ítalíu er það félag sem hefur fengið til sín flesta af þessum ungu erlendu leikmönnum, 57 talsins. Í þeim hópi var Hörður Björgvin Magnússon sem kom til Juventus frá Fram í ársbyrjun 2011, rétt orðinn 18 ára gamall. Inter Mílanó og Manchester City koma næst með 50 leikmenn hvort, þá Manchester United með 47 en í fimmta sæti er ítalska félagið SPAL með 42 leikmenn. Meðal þeirra sem fóru til SPAL var Mikael Egill Ellertsson sem fór þangað 16 ára frá Fram árið 2018.

Íslenskir landsliðsmenn

Af núverandi íslenskum landsliðsmönnum sem eru í þessum 16-18 ára hópi má einnig nefna Albert Guðmundsson sem fór til PSV í Hollandi, Arnór Sigurðsson og Ísak Bergmann Jóhannesson sem fóru til Norrköping í Svíþjóð, Hákon Arnar Haraldsson og Orra Stein Óskarsson sem fóru til FC Köbenhavn í Danmörku, Jón Dag Þorsteinsson sem fór til Fulham á Englandi, Júlíus Magnússon sem fór til Heerenveen í Hollandi og Kristian Nökkva Hlynsson sem fór til Ajax í Hollandi.

Margir sem spila heima

Margir þeirra íslensku stráka sem fóru 16-18 ára gamlir utan hafa snúið heim og leika í Bestu deildinni og fram kemur í skýrslunni að það sé mjög algeng þróun á ferli leikmanna.

Í þeim hópi eru m.a. Oliver Sigurjónsson, Viktor Karl Einarsson, Ágúst Eðvald Hlynsson og Alexander Helgi Sigurðarson úr Breiðabliki, Ari Sigurpálsson, Arnór Borg Guðjohnsen og Danijel Dejan Djuric úr Víkingi, Stefan Ljubicic úr Keflavík, Orri Hrafn Kjartansson úr Val og Emil Ásmundsson úr Fylki, svo einhverjir séu nefndir til sögunnar.

Höf.: Víðir Sigurðsson