Hjónin Sigurgeir og Margrét eignuðust fimm börn og eru barnabörnin tólf talsins. Margrét lést fyrir 30 árum.
Hjónin Sigurgeir og Margrét eignuðust fimm börn og eru barnabörnin tólf talsins. Margrét lést fyrir 30 árum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurgeir Jónasson fæddist 4. nóvember 1928 á Hólabrekku í Miðneshreppi en ólst upp á Garðskaga í Gerðahreppi. Sigurgeir bjó í heimahúsum fram yfir gagnfræðipróf

Sigurgeir Jónasson fæddist 4. nóvember 1928 á Hólabrekku í Miðneshreppi en ólst upp á Garðskaga í Gerðahreppi.

Sigurgeir bjó í heimahúsum fram yfir gagnfræðipróf. „Að loknu prófi vann ég um tveggja ára skeið á togurunum Snorra goða og Hilmari gamla. Eftir það hóf ég matreiðslunám á Hótel Borg árið 1945. Fór svo þaðan í áframhaldandi nám á Restaurant Viviex í Kaupmannahöfn. Var þar á árunum 1946-48, en þetta var mjög fínn veitingastaður sem var hluti af Tívolí.

Ég kunni vel við mig í Danmörku og hefði getað ílengst þar. Var meira að segja farið að dreyma á dönsku! En ættjörðin kallaði á mig og ég ákvað að flytja aftur heim.“ Sigurgeir lauk meistaraprófi árið 1955.

„Ég starfaði sem kokkur á Goðafossi og Gullfossi á árunum 1948-54. Síðan hóf ég eigin rekstur. Átti og rak skemmtistaðinn Silfurtunglið við Snorrabraut sem var mjög vinsæll um tíma. Sá staður var á efri hæðinni á Austurbæjarbíói. Þetta var á árunum 1954-63.“

Næstu árin á eftir starfaði Sigurgeir á ms. Esju og fleiri skipum, meðal annars var hann um tíma kokkur hjá sænskri skemmtiferðaskipaútgerð, en skipið sem hann starfaði á sigldi milli Southampton í Englandi og Marseille í Frakklandi. „Þá vann ég þrjá mánuði í einu og átti svo frí aðra þrjá.“

Sigurgeir ákvað að fara í land árið 1971. „Þá tók ég að mér rekstur mötuneytis stúdenta hjá Félagsstofnun stúdenta í Háskóla Íslands. Þar var ég næstu fimm árin. Eftir það starfaði ég sem bryti á ýmsum skipum Eimskipafélags Íslands fram að starfslokum,“ segir Sigurgeir.

Sigurgeir dvelst nú í góðu yfirlæti á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ.

Fjölskylda

Eiginkona Sigurgeirs var Margrét Björnsdóttir, f. 25.2. 1930, d. 4.6. 1993, starfsleiðbeinandi. Foreldrar hennar voru Björn M. Björnsson, f. 9.2. 1900, d. 14.6. 1976, bókbindari, og Ágústa H. Hjartar, f. 8.8. 1898, d. 21.8. 1981, húsmóðir.

Börn Sigurgeirs og Margrétar eru: 1) Ágústa Rut, f. 23.6. 1951, d. 25.3. 2022, starfaði lengst af við skrifstofustörf, maður hennar var Úlfar Árnason rafvélavirki og er dóttir hennar Margrét Hugrún Gústavsdóttir, f. 1970; 2) Sigrún Margrét, f. 9.8. 1953, gjaldkeri, búsett á Suðureyri við Súgandafjörð, maður hennar er Guðni Albert Einarsson framkvæmdastjóri og eru börn þeirra Guðný Erla, f. 1976, Sólveig Kristín, f. 1979, og Auður Birna, f. 1983; 3) Halla, f. 28.1. 1961, kennari, búsett í Hafnarfirði, maður hennar var Rúnar Gíslason lögfræðingur, d. 2018, og er sonur hennar Emil Örn Sigurðarson, f. 1981, en börn hennar og Rúnars eru Rúnar Steinn, f. 1991, og Hrólfur Sturla, f. 1995; 4) Sigurgeir Orri, f. 18.2. 1967, bókmenntafræðingur, búsettur í Kaliforníu, kona hans er Heiðrún Gýgja Ragnarsdóttir verkfræðingur og eru börn þeirra Ragnar Orri, f. 2006, og Freydís Heiður, f. 2017; 5) Jónas Björn, f. 4.10. 1968, bókaútgefandi, búsettur í Hafnarfirði, kona hans er Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri og eru börn þeirra Sigurgeir, f. 1995, Bjartmar, f. 1998, d. 2003, Margrét Lovísa, f. 2002, og Jónas Bjartmar, f. 2004. Alls eru barnabarnabörn Sigurgeirs og Margrétar 12 talsins auk þess sem a.m.k. eitt er væntanlegt.

Systur Sigurgeirs voru Sólveig Jóhanna, f. 5.9. 1926, d. 31.3. 2022, og Erla, f. 14.11. 1927, d. 26.6. 1976.

Foreldrar Sigurgeirs voru hjónin Jónas Bjarni Bjarnason, f. 14.10. 1898, d. 10.3. 1996, byggingameistari, og Sigrún Sigurjónsdóttir, f. 10.11. 1896, d. 9.12. 1974, húsmóðir.