Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Festi ehf. hefur sótt um leyfi til Reykjavíkurborgar um uppbyggingu fjölorkustöðvar N1 á lóðinni Fiskislóð 15-21 á Granda. Á lóðinni eru verslanir Krónunnar, Jysk, Elko og Byko. Í næsta nágrenni, Ánanaustum, er Olís með bensínstöð. Þar er einnig hraðhleðslustöð Ísorku.
Samkvæmt tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna Fiskislóðar 15-21 verður komið fyrir þremur nýjum byggingarreitum þannig að búnaður til eldsneytissölu og rafmagnshleðslu komist fyrir í jaðri lóðarinnar. Byggingarreitir sýna jafnframt það sem er neðanjarðar, tankar og fleira. Komið er fyrir tveimur dælum fyrir fjóra bíla og búnaði til rafhleðslu fyrir allt að átta bíla. Að öðru leyti gilda núverandi skilmálar.
Með umsókn fygldi samþykkt Faxaflóahafna fyrir breytingunni. „Ef jákvæðar undirtektir verða við beiðni um breytingu á deiliskipulagi mun lóðarhafi vinna erindið nánar í samvinnu við umhverfis- og skipulagssvið Reykjavikur,“ segir í umsókninni.
Samkvæmt samningi Festi ehf. og Reykjavíkurborgar dags 27. maí 2021 um fækkun bensínstöðva sé lögð fram fyrirspurn um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Fiskislóðar 15-21 sem er skráð í eigu Festi fasteigna ehf., dótturfélags Festi hf. Óskað er eftir afstöðu umhverfis- og skipulagssviðs til beiðni lóðarhafa um uppbyggingu fjölorkustöðvar á lóðinni samanber deiliskipulagsuppdrátt. Á fundi borgarráðs 9. maí 2019 hafi verið lögð fram og samþykkt tillaga borgastjóra um samningsmarkmið sem leggja skal til grundvallar í viðræðum Reykjavíkurborgar við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík.
Um sérstakt samkomulag sem vitnað er til segir m.a.: „Við Ægisíðu 102 stendur 513,5 fm bensínstöð með fjórum dælum auk 824 fm þvottaaðstöðu og afgreiðslu. Lóðarhafa er heimilt að flytja tvær dælur á lóð Festi fasteigna hf. að Fiskislóð 15-21 og hefja notkun þeirra þegar rekstri bensínstöðvar á Ægisíðu 102 er hætt.“
Ósk um breytingu á deiliskipulagi Fiskislóðar 15-21 var vísað til meðferðar verkefnastjóra skipulagsfulltrúa Reykjavíkur.