Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Hassan Nasrallah, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna Hisbollah, sagði í gær að samtökin væru reiðubúin til þess að mæta Bandaríkjaflota í átökum, og að eina leiðin til þess að koma í veg fyrir að stríðið á Gasasvæðinu breiddist út væri að stöðva árásir Ísraelshers á svæðið.
„Flotinn ykkar í Miðjarðarhafi hræðir okkur ekki,“ sagði Nasrallah meðal annars í ræðu sinni, sem var sú fyrsta frá hryðjuverkum Hamas-samtakanna í suðurhluta Ísraels 7. október síðastliðinn. Nasrallah hrósaði Hamas-samtökunum fyrir árásina og sagði hana hafa verið „dýrðlega“ aðgerð í heilögu stríði gegn Ísrael.
Sagði hann jafnframt að árásin hefði valdið „jarðskjálfta“ í öryggis- og varnarmálum, stjórnmálum og utanríkissamskiptum heimshlutans, og að hún hefði sýnt veikleika Ísraels sem ríkis. Nasrallah neitaði hins vegar að Hisbollah-samtökin hefðu nokkur tengsl við árásina.
Nasrallah gekk heldur ekki svo langt að lýsa yfir stríði Hisbollah-samtakanna á hendur Ísraelsríki, en sagði að skærurnar á landamærunum myndu halda áfram. Þá skoraði hann á arabaríki að hætta öllum viðskiptum með olíu til Ísraels.
Talsmenn Bandaríkjastjórnar vildu ekki tjá sig beint um ræðu Nasrallahs, en endurtóku fyrri viðvaranir Bandaríkjamanna um að Hisbollah-samtökin og aðrir aðilar sem vildu blanda sér í átökin á Gasasvæðinu myndu betur láta það ógert. Þá sögðu þeir að það myndi koma sér verst fyrir Líbanon ef Hisbollah ákvæði að ráðast á Ísrael.
Ræddi hlé á átökunum
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti í gær Ísrael og fundaði þar með Isaac Herzoc Ísraelsforseta og forsætisráðherranum Benjamín Netanjahú hvorum í sínu lagi. Ræddi Blinken við Netanjahú um mögulegt „mannúðarhlé“ á átökunum til þess að hægt verði að tryggja betur öryggi óbreyttra borgara og leyfa neyðaraðstoð að berast til Gasasvæðisins á skilvirkari hátt.
Blinken ítrekaði þó um leið rétt Ísraelsríkis til þess að verja sig og sagði að Ísrael bæri skylda til að tryggja að árásir borð við hryðjuverkin 7. október gætu ekki endurtekið sig.
Netanjahú sagði eftir fundinn með Blinken að hann útilokaði alfarið að samið yrði um tímabundið vopnahlé sem fæli ekki í sér að gíslum Hamas-samtakanna yrði sleppt, en áætlað er að hryðjuverkamenn Hamas hafi tekið 241 til fanga í árás sinni. Fjórum þeirra hefur þegar verið sleppt.
Blinken mun í dag ferðast til Jórdaníu til þess að ræða ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs, en Jórdanar voru annað ríkið á eftir Egyptalandi til þess að undirrita friðarsamkomulag við Ísrael. Stjórnvöld þar kölluðu sendiherra sinn heim frá Ísrael fyrr í vikunni vegna árása Ísraelshers á Gasasvæðið.