Grundarfjörður Norðurljósin hafa dansað á himninum undanfarið og glatt auga heimamanna og ferðamanna.
Grundarfjörður Norðurljósin hafa dansað á himninum undanfarið og glatt auga heimamanna og ferðamanna. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sólin er að því komin að kveðja okkur Grundfirðinga um sinn og fela sig bak við fjallgarðinn sem umlykur bæinn okkar frá austri til vesturs. Hún fer svo að gægjast aftur upp þar sem skarð er í fjallgarðinn í lok janúar 2024

Úr bæjarlífinu

Gunnar Kristjánsson

Grundarfirði

Sólin er að því komin að kveðja okkur Grundfirðinga um sinn og fela sig bak við fjallgarðinn sem umlykur bæinn okkar frá austri til vesturs. Hún fer svo að gægjast aftur upp þar sem skarð er í fjallgarðinn í lok janúar 2024. Það er þó einn kostur sem má þakka fyrir, að sólin er ekki ökumönnum til trafala í umferðinni á meðan hún er sem lægst á lofti. Á móti kemur að á kvöldin hafa norðurljósin glatt okkur oftar en einu sinni með fallegri danssýningu.

Þeir íbúar sem dvalið hafa í sólinni á suðrænum ströndum nú á haustmánuðum koma svo heim í sólarlausan bæinn sinn senn hvað líður og þá er eins gott að skella sér í leikfimi hjá þeim hressu konum sem halda úti Heilsueflingu fyrir 60+ fjórum sinnum í viku í íþróttahúsi bæjarins og tækjasal Ræktarinnar. Í leikfiminni ræður gleðin ríkjum og alls konar uppátæki í tímum. Bleikur dagur þegar það á við og núna í vikunni var hrekkjavökublær á hrekkjavökuæfingu svífandi yfir.

Rökkurdagar eru nú yfirstandandi í bænum með tilheyrandi uppákomum og skemmtiefni fyrir alla aldurshópa og kennir þar margra grasa. Í kvöld verður ball í samkomuhúsinu og á morgun, sunnudag, verður ljósaganga Krabbameinsfélagsins Vonar í Grundarfirði ef veður leyfir. Þá verða örtónleikar í Grundarfjarðarkirkju á þriðjudag, Rökkurdagabingó unglingastigsins í Grunnskólanum á miðvikudag og svona mætti áfram telja. Rökkurdögum lýkur þann 12. nóvember með hundapartýi í hundagerðinu við Háls.

Bygging íbúðarhúsnæðis er nú aftur komin á skrið en skortur hefur verið viðvarandi um hríð á íbúðarhúsnæði til kaups og leigu. Tvö einbýlishús eru komin á rekspöl, og eitt fjölbýlishús komið á það stig að fólk hefur flutt inn í þrjár íbúðir af sjö. Þá er búið að steypa sökkla fyrir einbýlishús og hafnar framkvæmdir fyrir fimm íbúða raðhús við Ölkelduveg. Í sumar reisti Vélsmiðja Grundarfjarðar stálgrindarhús á iðnaðarsvæðinu við Ártún með átta bilum sem öll seldust á augabragði. Þá byggði Vélsmiðjan við húsnæði sitt og hefur í þeirri viðbót sett upp verslun með bílavörum og ýmsu öðru og hlaut sú verslun nafnið Snæsmiðjan.

Orkuskipti fyrir grunnskóla, íþróttahús og sundlaug eru nú í farvatninu. Frá byggingu skólans snemma á sjöunda áratug síðustu aldar hafa hann og síðari tíma byggingar verið hitaðar upp með olíu. Í sumar voru boraðar tíu holur við suðurenda bygginganna og tókst sú borun vel. Borað var niður á 250 metra og reyndist hitinn á vatni í botni holanna flestra um 20 gráður. Ákveðið var að nota sjö af holunum til upphitunar á mannvirkjunum með varmaskipti og verður spennandi að fylgjast með framvindunni á næstu vikum og mánuðum. Við rannsókn á efnasamsetningu vatns úr holunum kom í ljós áhugaverð niðurstaða þegar í einni holunni greindist efnasamsetning sem bendir til þess að finna megi hitaveituæð ef borað yrði dýpra, það mál er nú til skoðunar.

Sorpmálin hafa nú verið í skoðun um hríð eftir að tilskipun kom fram um nákvæmari flokkun á sorpi um allt land. Grundarfjörður og Snæfellsbær ákváðu að hafa samflot um lausn málsins en fjölgun um eina tunnu, úr þremur í fjórar, þótti mörgum ekki kostur. Enn bólar ekki á neinni ákvörðun í tunnumálum og hver sú lending verður. Það er komið að því að bjóða út sorphirðu og ákveða sorphirðugjald þannig að þetta hlýtur að fara að skýrast.

Höf.: Gunnar Kristjánsson