Kolbrún Benediktsdóttir
Kolbrún Benediktsdóttir
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu í dómi sínum í síðustu viku að sú athöfn að stinga fingri upp í endaþarm einstaklings félli undir nauðgunarhugtak almennra hegningarlaga

Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu í dómi sínum í síðustu viku að sú athöfn að stinga fingri upp í endaþarm einstaklings félli undir nauðgunarhugtak almennra hegningarlaga. Árið 2012 komst meirihluti Hæstaréttar að þeirri niðurstöðu að hvatinn að baki athöfn yrði að vera kynferðislegur svo hún félli undir nauðgunarhugtakið. Ingibjörg Benediktsdóttir þáverandi hæstaréttardómari skilaði ein sératkvæði og taldi hvatann að baki athöfn ekki þurfa að vera kynferðislegan svo nauðgunarhugtakið ætti við.

Dómurinn olli miklu fjaðrafoki og var efnt til mótmæla við Hæstarétt í kjölfar hans. Töldu sumir að með dómnum væri horfið frá því að tryggja kynfrelsi brotaþola.

„Það sem er gert í þessum landsréttardómi er að ekki er gert að skilyrði, svo að háttsemi geti talist nauðgun, að hvati ákærða sé af kynferðislegum toga,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari. „Það er nægjanlegt að um sé að ræða athafnir sem almennt séu til þess fallnar að veita geranda kynferðislega fullnægingu.“

Spurð hvort sjónarmiðin í sératkvæði Ingibjargar Benediktsdóttur séu gildandi í dag segir Kolbrún erfitt að draga ályktanir um það af þessum eina landsréttardómi. Hún segir nauðgunarákvæðið snúast um að vernda kynferðislega friðhelgi brotaþola. „Þar af leiðandi getur maður ekki verið annað en ánægður með þessa niðurstöðu.“

Kolbrún er spurð hvort hún telji að áfrýjað verði til Hæstaréttar. „Það gæti náttúrlega verið, það er ekkert ólíklegt að það yrði látið reyna á það þar sem héraðsdómur telur þetta ekki falla undir nauðgunarhugtakið en Landsréttur kemst að annarri niðurstöðu. Það gæti verið ágætt að vera komin með fordæmi Hæstaréttar.“