Atvinnusvæði Baðstaður og hótel Bláa lónsins í forgrunni og virkjunin í Svartsengi í bakgrunni til vinstri. Óróasvæðið er til hægri við svæðið á myndinni.
Atvinnusvæði Baðstaður og hótel Bláa lónsins í forgrunni og virkjunin í Svartsengi í bakgrunni til vinstri. Óróasvæðið er til hægri við svæðið á myndinni. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Á undanförnum árum og áratugum hefur byggst upp mikil atvinnustarfsemi á því svæði norðan Grindavíkur þar sem eldgos kann nú að vera yfirvofandi. Líkt og fjölmiðlar hafa greint frá hefur orðið vart við þenslu af völdum kvikuinnskots norðvestur af…

Baksvið

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Á undanförnum árum og áratugum hefur byggst upp mikil atvinnustarfsemi á því svæði norðan Grindavíkur þar sem eldgos kann nú að vera yfirvofandi.

Líkt og fjölmiðlar hafa greint frá hefur orðið vart við þenslu af völdum kvikuinnskots norðvestur af fjallinu Þorbirni en skammt þar frá er Bláa lónið, eitt verðmætasta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, sem rekur bæði samnefnda heilsulind og hótelin The Retreat og Silica Hotel að ógleymdum Michelin-veitingastaðnum Lava Restaurant. Á sama stað er jarðvarmavirkjunin í Svartsengi og gistiheimilið Northern Light Inn.

Mikil verðmæti eru fólgin í húsakosti og búnaði næst óróasvæðinu og jafnvel ef engar skemmdir yrðu af völdum eldgoss gæti röskun á starfsemi valdið fyrirtækjunum þar umtalsverðu tekjutapi.

Nærri 600 manna vinnustaður

Í ársreikningi Bláa lónsins fyrir árið 2022 kemur fram að virði fastafjármuna félagsins var um 20 milljarðar króna m.v. gengi í upphafi árs, en félagið gerir upp í evrum. Vátryggingaverðmæti fasteigna samstæðunnar nam um 21,5 milljörðum króna en í ársreikningi segir að lausafé og byggingar séu brunatryggð hjá vátryggingafélagi Bláa lónsins og því hvíli bótaskylda á Náttúruhamfaratryggingum Íslands ef kemur til tjóns vegna náttúruhamfara.

Námu tekjur af rekstri heilsulindar og hótela, vöru- og veitingasölu, og öðrum tekjuliðum samtals rúmum 16,8 milljörðum króna í fyrra, eða að jafnaði um 46 milljónum króna fyrir hvern dag ársins. Þá störfuðu 589 manns hjá fyrirtækinu á síðasta ári og voru samanlögð útgjöld vegna launa og launatengds kostnaðar liðlega 7,5 milljarðar króna á árinu.

Erfitt er að áætla þann óbeina kostnað sem ferðaþjónustufyrirtæki gætu orðið fyrir ef starfsemi Bláa lónsins raskast en lónið er vinsæll áfangastaður ferðaþjónustufyrirtækja. Í ársreikningi síðasta árs kemur fram að félagið greiddi rösklega 930 milljónir króna fyrir aðkeypta þjónustu og til viðbótar nam markaðskostnaður um 577 milljónum króna.

Virkjunin tryggð

Raforka hefur verið framleidd í Svartsengi frá því seint á áttunda áratugnum og starfsemin þar aukist jafnt og þétt svo að árleg raforkuframleiðsla virkjunarinnar er í dag 66 MW af raforku og 150 MW af varma. Stendur orkuverið ofan á hrauni sem rann árið 1226.

Í ársreikningi HS Orku kemur fram að í árslok 2022 hafi heildarvirði orkuvera fyrirtækisins verið samtals 54,3 milljarðar króna en inni í þeirri tölu eru, auk virkjunarinnar í Svartsengi, Reykjanesvirkjun og Brúarvirkjun. Þá festi félagið kaup á Fjarðarárvirkjunum í Seyðisfirði í ágúst síðastliðnum.

Fasteignamat bygginga nam 4,1 milljarði króna í árslok 2022, fasteignamat lands nam tæpum 3,4 milljörðum, og vátryggingafjárhæð eigna félagsins var rösklega 59 milljarðar króna, að því er fram kemur í ársreikningi.

Virði mannvirkja og búnaðar í Svartsengi er ekki sundurliðað í ársreikningi HS Orku. Eru skrifstofur félagsins einnig staðsettar þar en HS Orka heldur líka úti vinnustöðvum í Reykjanesvirkjun og í Turninum í Kópavogi.

Ein leið til að reyna að áætla virði eigna HS Orku á hættusvæðinu er að leggja til grundvallar að á síðasta ári framleiddi Svartsengi um 43% af heildarraforkuframleiðslu félagsins. Það felur í sér töluverða einföldun, og undanskilur vægi heitavatnsframleiðslu hjá þessari blönduðu virkjun, en miðað við þessa hlutfallstölu gætu eignir HS Orku í Svartsengi verið að lágmarki 20 til 25 milljarða króna virði. Rekstrartekjur HS Orku voru um 10,5 milljarðar króna á síðasta ári, og ef miðað er við sömu hlutfallstölu má leiða að því líkum að starfsemin í Svartsengi skili félaginu rekstrartekjum í námunda við 4,5 milljarða króna árlega sem myndi jafngilda nærri 12,5 milljónum króna á dag.

Þær upplýsingar fengust hjá HS Orku að félagið er tryggt bæði fyrir eignatjóni og rekstrarstöðvun m.a. vegna jarðskjálfta og eldgosa, en félagið telur ótímabært að áætla hve mikið tjón yrði af því fyrir reksturinn ef starfsemi myndi stöðvast tímabundið.

Þá myndi skert raforkuframleiðsla í Svartsengi ekki hafa áhrif á raforkuframboð á Suðurnesjum til skamms tíma svo fremi að Suðurnesjalína I skemmist ekki. Grindavík yrði þó undanskilin þar sem tenging þangað liggur um Svartsengi og gæti laskast. Öllu meiri röskun yrði á framboði af heitu vatni, líkt og áður hefur komið fram í fjölmiðlum.

Eiga til birgðir af fræjum

Þá er rétt að nefna að ORF Líftækni rekur gróðurhús á Melhólabraut 4, um 1 km norðan við Grindavík og um 2,5 km suður af Svartsengi. Þar ræktar félagið dýrmætar byggplöntur sem framleiða sérvirk prótín, sk. vaxtarþætti, sem seldir eru til viðskiptavina innanlands og erlendis.

Bókfært virði eigna félagsins á svæðinu er lágt enda eru þær að stórum hluta afskrifaðar. Í svari frá ORF Líftækni kemur fram að mestu verðmætin felist í gróðurhúsinu sjálfu, þeim plöntum og fræjum sem þar eru og ræktunarkerfinu sem þar hefur verið sett upp. „Starfsemi gróðurhússins er þess eðlis að ekki yrði um tilfinnanlegt tjón að ræða vegna stuttrar og tímabundinnar stöðvunar starfseminnar,“ segir í svarinu. „Ef um langtímastöðvun yrði að ræða þá hefði það í för með sér mögulega seinkun á uppskeru og tafir á þróun nýrra vara.“

Þá segir félagið að tímabundin stöðvun muni ekki valda viðskiptavinum tjóni enda sé það hluti af áhættustýringu ORF Líftækni að eiga til staðar umframmagn af fræbirgðum í samræmi við þarfir viðskiptavina. Eru eignir félagsins á svæðinu tryggðar gagnvart náttúruhamförum, þar með talið gróðurhúsið sjálft, innbú og lausafé.

Velta milljörðum

Mannvirkin næst óróasvæðinu eru nokkurra tuga milljarða króna virði.

Á síðasta ári komu um að meðaltali um 46 milljónir í kassann hjá Bláa lóninu, hvern dag ársins.

Áætla má að orkuframleiðslan í Svartsengi skili HS Orku að lágmarki 12,5 milljónum króna í tekjur daglega.

Í fyrra störfuðu nærri 600 manns hjá Bláa lóninu, sem rekur m.a. tvö hótel og veitingastað með Michelin-stjörnu.

Höf.: Ásgeir Ingvarsson