Kristinn Haukur Þórhallsson fæddist í Reykjavík 3. október 1938. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Víðihlíð 7. október 2023.

Foreldrar hans voru hjónin Ásrún Guðmunda Magnúsdóttir, f. 16.12. 1919, d. 26.10. 1969, og Þórhallur Einarsson, f. 23.10. 1911, d. 10.4. 1995. Systir hans er Helga Hrönn Þórhallsdóttir, f. 17.5. 1946, gift Stefáni Bergmann, f. 2.7. 1942. Eiginkona Kristins var Guðrún Rósborg Jónsdóttir, f. 6.1. 1942, d. 10.2. 2009, hún var dóttir hjónanna Jarþrúðar Guðmundsdóttur og Jóns Salómons Jónssonar frá Flateyri. Kristinn og Guðrún gengu í hjónaband 25.6. 1960. Börn þeirra eru: 1) Valdís Inga, f. 3.3. 1960, gift Bjarna Ólasyni, f. 26.7. 1960, börn þeirra eru a) Rósa Kristín, f. 23.3. 1983, gift Jóhannesi Haraldssyni, f. 24.11. 1983, þeirra börn eru Emilía Ósk, Júlía Björk og Hafþór Óli. b) Óli Baldur, f. 31.10. 1989, kvæntur Rakel Evu Eiríksdóttur, f. 6.5. 1992, þeirra synir eru Bjarni Óliver og Heiðar Axel. 2) Þórhallur, f. 16.10. 1962, d. 24.1. 2023, kvæntur Torie Kristinsson, f. 7.4. 1968. Börn hans eru a) Jóna Guðný, f. 3.11. 1984, hennar dætur eru Agnes og Ásdís Freyja. b) Fannar Carlson, f. 1.4. 1988, sambýliskona hans er Maria Alejandra Crespo Cabrera, f. 23.5. 1991. c) Tinna Zizka Smrcka, f. 28.9. 1989, sambýlismaður Kasper Lund Hansen, f. 23.12. 1980, þeirra dætur eru Zilva og Evie. c) Karen Carlson, f. 1.7. 1993, sambýliskona Guðrún Jóhannesdóttir, f. 3.9. 1991, sonur Guðrúnar er Dagur. 3) Guðmundur Heiðar, f. 23.4. 1966, kona hans er Jenny Kristinsson, f. 8.10. 1972, dætur þeirra eru a) Jennie, f. 16.3. 1995, sonur hennar er Malik. b) Anna, f. 4.6. 2001, sambýlismaður Sebastian Melander, f. 6.5. 2000. 4) Ásrún Helga, f. 17.10. 1974, hennar maður er Reynir Ólafur Þráinsson, f. 1.12. 1969, dætur þeirra eru a) Margrét Rut, f. 15.1. 1997, og Arna Rún, f. 7.7. 2005.

Kristinn, sem jafnan var kallaður Diddi, ólst upp í Grindavík og bjó þar alla sína tíð. Hann lærði rafiðn og starfaði fyrst hjá Helga Hjartarsyni og stofnaði síðan fyrirtækið Rafborg 1968 ásamt félaga sínum Tómasi Guðmundssyni, þeir seldu fyrirtækið syni Tómasar en Diddi starfaði við það þar til heilsan bilaði. Diddi var tómstundabóndi og hafði mikla ánægju af því að vera með sauðfé. Hann var mjög gamansamur og sagnamaður mikill, hann var ótrúlega minnugur og kunnugur öllum staðháttum í Grindavík og nágrenni.

Kristinn verður jarðsunginn ásamt syni sínum, Þórhalli, frá Grindavíkurkirkju í dag, 6. nóvember 2023, klukkan 14.

Komið er að leiðarlokum, full þakklætis kveðjum við elskulegan föður okkar Kristin Hauk Þórhallsson sem jafnan var kallaður Diddi. Pabbi var ákaflega sterkur karakter sem lá ekki á skoðunum sínum. Hann var mikill sagnamaður og sögurnar sem hann sagði bæði frá barnæsku sinni og starfsárunum í rafmagninu gæddi hann lífi og einstakri kímni. Hann gat gert grín að sjálfum sér og eins og einn góður maður sagði þá höfðu sögurnar hans stundum meira skemmtanagildi en sannleiksgildi þótt ekki væri um hreinar lygasögur að ræða. Pabbi var stundum fenginn til að vera veislustjóri á viðburðum og vitum við ekki til þess að hann hafi þurft að styðjast við niðurskrifaða minnispunkta. Þegar við systkinin fjögur vorum að alast upp vann pabbi mjög mikið og oft var það þannig að útköll voru um nætur eða helgar þegar um var að ræða að laga rafmagn í bátum, þrátt fyrir það voru þau mamma dugleg að fara með okkur í bíltúra og útilegur víða um landið. Pabbi naut þess að fræða okkur um þá staði sem við heimsóttum og eigum við margar góðar minningar tengdar þessum ferðum. Uppáhaldið var að heimsækja Vestfirði en þaðan var mamma ættuð.

Þegar heilsan leyfði ekki lengur þá erfiðu vinnu sem bátarafmagnið var vann hann með Halla bróður okkar í ýmsum verkefnum sem þeir tóku að sér en þeir voru báðir ákaflega verklagnir.

Pabbi fylgdist með okkur, barnabörnum og langafabörnum í leik og starfi og sýndi áhuga og var alltaf meðvitaður um hvað var í gangi hjá okkur, gilti það einu hvar við vorum búsett hérlendis eða erlendis. Hann gat hlegið dátt að prakkarastrikum og skemmtilegum tilsvörum þeirra yngri.

Hann var stoltur af okkur öllum, studdi okkur með ráðum og dáð, hjálpaði okkur með rafmagnsvinnu og ýmislegt annað og var ákaflega góður hlustandi sem við gátum treyst. Það átti ekki vel við hann að vera verklaus og lærði hann útskurð eftir að hann hætti vinnu og liggja eftir hann margir listilega vel gerðir hlutir sem bera hagleik hans gott vitni. Þegar hann hafði ekki lengur nægilega krafta í útskurðinn tók hann til við púðasaum og þótti honum mjög gaman að gefa þá og eru ansi margir sem eiga eftir hann púða.

Pabbi sagði sjálfur þegar mamma dó að hann hefði misst perlu lífs síns og sömuleiðis var það honum og okkur öllum gríðarlegt áfall þegar Halli bróðir greindist með krabbamein og lést fyrr á þessu ári. Það var sorglegt að búandi hvor í sínu landinu gátu þeir ekki hist þar sem hvorugur þeirra gat ferðast en bættu það upp með tíðum símtölum sín á milli. Við trúum því að þau þrjú séu nú sameinuð í Sumarlandinu og vaki þar yfir okkur.

Leiðir skilja eftir skúr og skin,

þér skyndilega er valinn hvíldar staður.

Grindavíkin kveður vænan vin,

er var hér alla tíma heimamaður.

(Angantýr Jónsson)

Þessar ljóðlínur sem ortar voru til Magnúsar afa þíns, sem þú elskaðir og dáðir, finnst okkur eiga einnig vel við þig.

Takk elsku pabbi fyrir allt það sem þú varst okkur, blessuð sé minning þín elsku pabbi.

Þín

Valdís, Guðmundur, Ásrún og tengdabörn.

Við eigum margar góðar minningar um þig elsku afi og tengdapabbi. Þær bestu eru frá öllum stundunum þegar þú dvaldir í Landskrona í elsku „kolonihúsinu“ ykkar Haukholti. Þar plantaðir þú blómum, ræktaðir grænmeti, bjóst til rabarbarasultu, slóst blettinn, málaðir og græjaðir allt sem tilheyrði sumarhúsalífinu, lást í sólstólnum með bók eða hlustaðir á dægurlagatónlist í útvarpinu. Mörgum sinnum bauðst þú okkur út að borða, helst var það á kínastaði til að fá okkur djúpsteiktar rækjur en þann mat elskaðir þú og þú elskaðir líka að eyða tíma með okkur. Ef við Gummi, Anna eða Jennie þurftum að láta skutla okkur eitthvað, hvort sem það var á nóttu eða degi, varstu alltaf til, ekkert var of mikið mál fyrir þig.

Árið 2014 bjuggum við Anna hjá þér í kolonihúsinu á meðan Gummi vann. Með okkur var líka páfagaukurinn Wille. Þú talaðir íslensku við hann og hann svaraði á sænsku og kenndi þér frasann „e så go så go“. Í lok sumars fluttum við öll fjölskyldan til Landskrona. Það fannst þér frábært því þá vorum við nær þér og Haukholti.

Þú kynntist vinum okkar og þeim þótti mikið til þín koma og oft varstu með okkur í matarboðum, bæði hjá þeim og okkur. Þú kenndir mér svo mikið um Ísland, bæði tungumálið og söguna, og ég gleymi aldrei fyndnu orðatiltækjunum, uppátækjunum og sögunum sem þú sagðir okkur. Ég mun heldur aldrei gleyma öllu því góða sem þú hefur gert fyrir mig og börnin okkar, fyrir það verð ég ævinlega þakklát.

Lokakveðjan til þín elsku Diddi, ég er viss um að Gunna og Halli hafa tekið á móti þér opnum örmum.

Takk fyrir allt.

Þín tengdadóttir,

Jenny.

Elsku afi Diddi, nú er komið að kveðjustund.

Minningarnar sem ég á um þig eru margar og nú svo dýrmætar. Þegar ég var lítil var ég mikið hjá ykkur ömmu og svo var ég svo heppin að fá að búa hjá ykkur þegar ég var unglingur.

Ég man hvað það var spennandi að fá að fara með þér í fjárhúsið og fá að hjálpa þér þar og þreyttist ég aldrei á að heyra þig segja mér seinna sögur af mér að taka á móti litlu lömbunum.

Öll skiptin sem ég klippti fallega hvíta englahárið þitt er ég svo þakklát fyrir, það var alltaf svo gaman hjá okkur og mikið sem við gátum hlegið saman. Það var dásamlegt að segja þér sögur úr hversdagsleikanum og heyra smitandi hláturinn þinn, þér var líka virkilega umhugað um okkur fjölskyldu þína og varst duglegur að spyrja um heilsu og hagi.

Við þig, elsku afi, gat ég talað um allt og alltaf átti ég stuðning þinn vísan.

Takk fyrir allt sem þú kenndir mér, takk fyrir að kenna mér bestu leiðina í Iðnskólann, takk fyrir að hjálpa mér með rafmagnið í húsunum mínum, takk fyrir allt fallega handverkið, takk fyrir að fara með mér til læknis og styðja mig í veikindum mínum, takk fyrir hvatninguna, hlýjuna og leiðsögnina. Takk fyrir að elska okkur skilyrðislaust og vera langbesti afi í heimi.

Góða ferð í Sumarlandið, elsku afi, ég veit að þú knúsaður ömmu frá mér og gafst henni rembingskoss. Ég elska þig og er þakklát fyrir allt sem þú varst mér.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt.

Þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín nafna og elsta afastelpa,

Rósa Kristín.

Elsku besti afi, mikið hafa síðustu dagar og vikur verið tómleg án þín. Það sem við vorum ríkar að eiga þig fyrir afa. Þú varst svo hvetjandi og styðjandi í okkar daglega lífi alla tíð. Það ber merki þess hversu náin við vorum og tengd þegar þú náðir að lesa okkur sem opna bók þegar eitthvað var angra okkur og við héldum að við værum að setja upp góðan front.

Það var svo gott að finna hvað þú varst stoltur af okkur í námi, leik og starfi. Það að Arna hafi valið að fara í heimavistarskóla líkt og þú gerðir þegar þú fórst á Núp gladdi þig og fengum við að heyra hressilegar prakkarasögur frá því þú varst þar.

Viskan sem þú skilur eftir í öllum sögunum, ljóðunum og frásögnum um fólk og staði er dýrmæt fyrir okkur, það var með ólíkindum hvað þú varst minnugur.

Við munum halda minningu þinni á loft með því að glugga í allar bækurnar sem þú baðst okkur að varðveita, þar deildum við sama áhuga. Ævintýrið sem við fórum í þegar Margrét festi kaup á Hamraborginni síðasta sumar var þér að skapi. Þú eyddir mörgum klukkustundum í að skera út skilti sem finna þarf góðan stað í garðinum. Margrét er stolt af því að eiga handverk eftir þig sem mun standa við þetta sögufræga hús … þú varst snillingur í höndunum. Þú varst alltaf með puttann á púlsinum og okkar helsti stuðningsmaður og peppari.

Mikið verður skrítið að eiga ekki notalega samveru og sögustundir á aðfangadagskvöld eins og við gerðum síðustu tuttugu og eitthvað árin. Við trúum því að þið amma séuð sameinuð á ný og við heppnar að hafa ykkur alltaf í hjörtum okkar.

Elsku afi Diddi, takk fyrir allt, við erum þakklátar fyrir allar dýrmætu minningarnar.

Þínar afastelpur,

Margrét Rut og Arna Rún.

Í dag kveðjum við elsku afa Didda, skemmtilega, fyndna og umhyggjusama langafa okkar. Við eigum margar dýrmætar minningar um afa og erum þakklát fyrir að hafa átt hann að. Elsku afi Diddi, takk fyrir allan stuðninginn, sögurnar, nammipokana, púðana og hlýjuna sem þú gafst okkur.

Við elskum þig og eigum eftir að sakna þín sárt. Góða ferð til himnaríkis.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér.

Og það er margs að minnast,

svo margt sem um huga minn fer.

Þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð.

Þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín langafabörn,

Emilía Ósk, Júlía Björk og Hafþór Óli.

Mágur minn Kristinn Haukur Þórhallsson í Grindavík er látinn. Við áttum samleið í um 50 ár sem er gott að minnast og þakka. Hann var fjölskyldu minni lengi eins konar kjölfesta í Grindavík sem gott var að sækja heim og njóta frásagnar og samveru. Það er magnað hvernig umhverfið og saga Grindavíkur opnast manni fyrir leiðsögn og sterka innlifun heimafólks. Það eru einhver skilyrði til staðar sem magna þetta upp.

Diddi hafði margt sem stuðlaði að þessu; þekkingu og upplifun af náttúrulegu umhverfi og mannlífi auk frásagnarhæfni með léttri lund. Sagan, atvinnuhættir fyrr og nú og náttúrlega umhverfið var honum í blóð borið. Staðarhverfið, tengslin við Húsatóftir, Móakot, Stað og fleiri bæi vega þar þungt. Diddi tók virkan þátt í störfum Staðhverfingafélagsins, félags fólks með uppruna í hinni horfnu byggð, og var um skeið formaður þess. Hann var lengi í hópi frístundafjáreigenda í Grindavík og þekkti landið og afréttina vel.

Diddi var rafvirki og kom víða við, m.a. í þjónustu við skip og báta, oft við erfiðar aðstæður sem skópu litríkar sögur. Léttleiki og frásagnargleði einkenndi hann og var honum eðlislæg. Honum var lagið að nálgast fólk og létta lund þess.

Guðrúnu konu sinni kvæntist hann 1960. Þau eignuðust fjögur börn, Valdísi, Þórhall, Guðmund og Ásrúnu, og bjuggu lengst af á Sólvöllum og síðar í Hjarðarholti í Grindavík. Guðrún lést 67 ára að aldri eftir erfið veikindi 2009 og Þórhallur sonur þeirra í janúar 2023.

Þau hjón studdu marga til tengsla við AA-samtökin og SÁÁ um veg sem hann þekkti sjálfur.

Diddi kom okkur oft á óvart og sýndi á sér nýjar hliðar, t.d. þegar hann vantaði verkefni í tómstundum þegar um hægðist. Hann hóf útskurð og skilaði vönduðum verkum sem glatt hafa marga og nutum við þess.

Kominn á dvalarheimilið Víðihlið tók hann til við útsaum sem hann miðlaði óspart mörgum til gleði og skemmtilegra samskipta við hann.

Þar naut hann frábærrar aðhlynningar og umönnunar heimahjúkrunar, sem við þökkum af alhug.

Fjölskylda mín þakkar Didda árin öll og stuðninginn og sendir afkomendum öllum innilegar samúðarkveðjur.

Stefán J. Bergmann.