Þyrla Vilhjálmur Árnason telur það munu leiða til betri nýtingar almannafjár að koma á fót sjúkraþyrlum.
Þyrla Vilhjálmur Árnason telur það munu leiða til betri nýtingar almannafjár að koma á fót sjúkraþyrlum. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir viðtal Morgunblaðsins við forstjóra Landhelgisgæslunnar, sem birtist í síðustu viku, afhjúpa það sem hann hafi áður bent á. Forstjórinn, Georg Kr

Kári Freyr Kristinsson

karifreyr@mbl.is

Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir viðtal Morgunblaðsins við forstjóra Landhelgisgæslunnar, sem birtist í síðustu viku, afhjúpa það sem hann hafi áður bent á.

Forstjórinn, Georg Kr. Lárusson, sagði meðal annars að skynsamlegast væri að ljúka fjármögnun fyrir þyrlusveit Landhelgisgæslunnar áður en farið yrði í að staðsetja sérstakar sjúkraþyrlur á landsbyggðinni.

„Sjúkraþyrlan er allt annað verkefni en sú leitar- og björgunarþjónusta sem Landhelgisgæslan veitir,“ segir Vilhjálmur um orð Georgs.

„Það á ekki að fjalla um þessi verkefni saman því þetta er sitt hvort verkefnið,“ segir hann. Enn þá sé jafn mikilvægt að hafa þyrlusveit Landhelgisgæslunnar þó svo að sjúkraþyrlunnar nyti við.

Spurður út í ummæli forstjóra Landhelgisgæslunnar, um kaldar kveðjur til Gæslunnar frá Vilhjálmi, segist Vilhjálmur alltaf hafa talað fyrir mikilvægi Landhelgisgæslunnar. „Hún verður jafn mikilvæg þrátt fyrir að sjúkraþyrlan komi inn.“

Heilbrigðisverkefni

„Landhelgisgæslan þarf að vera fullmönnuð úti að leita, í björgun, björgun á hafi og fara í slys og bjarganir á hálendi og lengri vegalengdir.“ Hann segir sjúkraþyrluna ætlaða í allt önnur verkefni.

„Skýrasta dæmið er það að hún er mönnuð sérhæfðum læknum og bráðatæknum og hún er fljótari í loftið.“ Hann segir sjúkraþyrluna geta farið í tilfellin sem eru í nálægð við höfuðborgarsvæðið og nefnir Suðurland sem dæmi.

„Það er raunhæft að fá sérhæfða bráðaþjónustu á vettvang til að bregðast við hjartaáfalli, heilablóðfalli og gera aðgerðir á vettvangi á alvarlegri slysum.“ Hann segir það geta dregið úr örorku ef rétt meðferð fæst í fyrstu hjálp.

„Þetta erum við ekki að fara að nota leitar- og björgunarvélar í, sem eru mannaðar fyrir leit og björgun,“ segir Vilhjálmur. „Þetta er heilbrigðisverkefni en hitt er leitar- og björgunarverkefni.“

Hann bendir á að hvorki þurfi að draga úr mikilvægi né áherslu á fjármögnun þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar þótt farið verði í sjúkraþyrluverkefnið. „Þetta snýst um forgangsröðun á almannafé. Við getum alveg tekið fjármagnið úr einhverju öðru en Landhelgisgæslunni fyrir annarri sjúkraþyrlu.“

Ekki kaldar kveðjur

Vilhjálmur segist ekki gera lítið úr verkefnum Landhelgisgæslunnar. Það að setja sjúkraþyrluna á fót muni ekki aðeins leiða til betri nýtingar fjármagns heldur einnig auka öryggi og draga úr eftirköstum hjá slösuðum með því að veita sérhæft viðbragð á vettvangi.

Hann segir Landhelgisgæsluna áfram munu sinna leitar- og björgunarstarfi og sjúkraflutningi út um allt land í stærri slysum og erfiðari veðuraðstæðum.

„Það er jafn mikilvægt að fullmanna þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og tryggja að hún hafi sem öflugast viðbragð.“

Höf.: Kári Freyr Kristinsson