Flugumferðarstjóri Njáll Trausti hér við stjórnborðið og tölvuskjáina.
Flugumferðarstjóri Njáll Trausti hér við stjórnborðið og tölvuskjáina. — Morgunblaðið/Þorgeir Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Flug easyJet milli Lundúna og Akureyrar nú í vetur er mjög mikilvægt. Vonandi er þetta upphaf að einhverju öðru og meira, svo miklu máli skiptir þetta fyrir ferðaþjónustuna hér á svæðinu. Einnig íbúa, mikil lífsgæði felast í því fyrir fólk…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Flug easyJet milli Lundúna og Akureyrar nú í vetur er mjög mikilvægt. Vonandi er þetta upphaf að einhverju öðru og meira, svo miklu máli skiptir þetta fyrir ferðaþjónustuna hér á svæðinu. Einnig íbúa, mikil lífsgæði felast í því fyrir fólk hér um slóðir að hafa þessa þægilegu tengingu við stórborgina sem á margan hátt er miðja heimsins,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður og flugumferðarstjóri.

Grípur í gamla starfið

Miklar væntingar eru bundnar við þá viðleitni breska flugfélagsins easyJet að bjóða upp á reglulegt áætlunarflug milli London Gatwick og Akureyrar nú í vetur. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu er gott útlit með bókanir í ferðum félagsins sem flýgur til Íslands á þriðjudögum og laugardögum. Önnur ferð félagsins til og frá Akureyri var um helgina og einmitt þá var Njáll Trausti í turninum á Akureyri. Hann hefur setið á Alþingi frá 2016 en grípur stundum í sitt gamla starf. Segist gera slíkt ánægjunnar vegna en einnig í því skyni að viðhalda starfsréttindum sínum.

„Stundum er hringt í mig og ég beðinn að taka vaktir ef einhver forfallast. Að sinna slíku er bara skemmtilegt, flugið hefur alltaf verið stór hluti af lífi mínu,“ segir Njáll.

Akureyarflugvöllur verið styrktur í sessi

Auk easyJet verða ýmis flugfélög í Evrópu á næstu misserum með flug til Akureyrar og frá. Þetta segir Njáll Trausti vera fagnaðarefni. Afrakstur markaðsvinnu Markaðsstofu Norðurlands sé hér að koma í ljós, en á hennar vegum og fleiri hafi verið unnið gott starf við kynningu á áfangastaðnum Norðurlandi. Síðast – en þó alls ekki síst – verði hér að halda til haga að mikið hafi verið gert á síðustu árum við uppbyggingu innviða á Akureyrarflugvelli sem styrkt hefur völlinn í sessi. Stækkun flughlaða sé nú tilbúin og viðbygging við flugstöðina, þar sem afgreiðsla millilandaflugsins mun hafa aðsetur, verði tekin í notkun á næstu mánuðum. Þá sé mikilvægt að bæta aðflug úr suðri með hjálp gervihnattaleiðsagnar og vonandi verði slíkt gerlegt fljótlega.

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson