Erla Sæunn Guðmundsdóttir fæddist í Reykjavík 7. desember 1935. Hún lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 27. október 2023. Foreldrar hennar voru Áslaug Sigurðardóttir, f. 1907, d. 1997, og Guðmundur Steinþór Magnússon, f. 1904, d. 2003. Þau voru bæði fædd og uppalin á Snæfellsnesi.

Systkini Erlu eru Eygló Fjóla, f. 1934, Gestur Óli, f. 1937, d. 2022, Anna Maggý, f. 1938, Áslaug Gyða, f. 1940, d. 2022, Guðmundur Heiðar, f. 1941, d. 2020, Magnús, f. 1945, Hrönn, f. 1946, og Sigurður, f. 1947.

Erla átti æsku sína og uppeldi í Reykjavík fyrst á Holtsgötunni en meginhlutann á Langholtsvegi 60 og gekk menntaveginn í Laugarnesskóla. Á barnaskólaárunum var Erla í kaupamennsku á sumrin vestur á Snæfellsnesi á bæjum tengdum æskustöðvum foreldranna. Nokkru eftir að skólagöngu lauk vann hún við veitinga- og þjónustustörf norður á Hjalteyri við Eyjafjörð og austur á Borgarfirði eystra. Seinna starfaði hún um tíma hjá Hampiðjunni og Kassagerð Reykjavíkur.

Erla giftist eftirlifandi eiginmanni sínum Guðmundi Þorkelssyni, f. 10. október 1935, þann 10. maí 1959. Þau bjuggu allra fyrstu búskaparárin á Langholtsvegi 60 í Reykjavík en árið 1960 fluttu þau í Kópavoginn og bjuggu þar alla sína búskapartíð síðan. Fyrst í tæp tuttugu ár í Skólagerði, þá rúm tuttugu ár á Álfhólsvegi og loks tæpan aldarfjórðung í Jörfalind.

Erla og Guðmundur eignuðust níu börn sem eru: 1) Áslaug, f. 10. maí 1957, eiginmaður hennar er Stefán Friðberg Hjartarson. Sonur þeirra er Stefán Friðberg. Barnabörn Áslaugar og Stefáns eru þrjú. 2) Rannveig, f. 31. október 1959, eiginmaður hennar er Jakob Rúnarsson. Börn þeirra eru Guðbjörg, Guðmundur Steinþór, Rúnar og Gunnar Jökull. Barnabörn Rannveigar og Jakobs eru átta. 3) Þorkell, f. 14. júní 1961. Maki hans er Jóhanna Steinsdóttir. Hann á börnin Guðmund og Hrefnu Lind með Guðbjörgu V. Guðmundsdóttur og börnin Helgu Sæunni og Svein Gísla með Ruth Guðnadóttur. Fósturbörn Þorkels eru Silja, Katrín, Eva Karen og Arnór Steinn. Barnabörn Þorkels eru fjórtán. 4) Hilmar, f. 18. ágúst 1963, eiginkona hans er Elín Ívarsdóttir. Börn þeirra eru Ívan Örn, Ingi Hrafn, Erla María og Ísak Freyr. Barnabörn Hilmars og Elínar eru fjögur. 5) Heimir, f. 2. apríl 1965. Eiginkona hans er Bryndís Waage. Börn þeirra eru Erla Rún, Árni Már, Pétur Daði, Ásdís Ósk og Davíð Elí. Barnabörn Heimis og Bryndísar eru níu. 6) Gunnar, f. 12. október 1966. Gunnar á börnin Sigurbjörgu Evu og Sóleyju Björk með Silvu Þórisdóttur. Barnabörn Gunnars eru þrjú. 7) Smári, f. 10. apríl 1969. Maki hans er Ingibjörg Sigurðardóttir. Hann á dótturina Ásu Köru með Bjarnhildi Ólafsdóttur. Fósturbörn Smára eru Anton Örn og Lilja Hrönn. 8) Birgir, f. 4. júlí 1971. 9) Berglind, f. 11. janúar 1973. Eiginmaður hennar er Magnús Magnússon. Börn þeirra eru Guðrún Helga, Rannveig Erla, Guðmundur Grétar og Magnús Máni. Berglind og Magnús eiga eitt barnabarn.

Erla fór út af almennum vinnumarkaði þegar þau hjón stofnuðu heimili og fjölskyldu. Hún helgaði sig húsmóður-, móður- og ömmuhlutverki um áratugaskeið og ævina á enda.

Útför Erlu Sæunnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 6. nóvember 2023, klukkan 13.

Elsku mamma, tengdamamma og amma.

Í dag kveðjum við þig með miklum trega og söknuði. Við þessi tímamót eru margar minningar sem koma upp í hugann. Ein minningin er af þér að baka kleinur ofan í okkur börnin þín og vinina okkar. Kleinurnar hurfu jafnharðan ofan í okkur nýbakaðar og köld mjólk var drukkin með. Það skipti ekki máli hversu mörg við vorum alltaf var nóg til, þetta lýsir þér svo vel. Einnig kemur upp í hugann hvað þú varst alltaf glöð og söngst við heimilisstörfin en þau voru mörg þar sem þú hafðir í nógu að snúast enda var barnahópurinn stór.

Þótt móðir mín

sé nú aðeins minningin ein

mun ég ávallt minnast hennar

með glöðu geði

og dýpstu virðingu,

hugheilu þakklæti

og hjartans hlýju,

fyrir allt og allt.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Hvíldu í friði, með hlýjum hug og hjartans þakklæti fyrir allt.

Hilmar, Elín og fjölskylda.

Elsku mamma okkar hefur kvatt okkur og verður tilveran aldrei eins. Mamma var okkur stoð og stytta, ekki bara á uppvaxtarárum heldur alla tíð. Við nutum þeirra forréttinda í uppvextinum að hún var heimavinnandi og nálægðin myndaði sterk tengsl. Allt sem við ungu mennirnir fengumst við í æsku hafði mamma auga með, samgladdist þegar vel gekk og hughreysti þegar miður fór. Á barnmörgu heimilinu gengu hlutirnir ætíð snurðulaust fyrir sig og þó vinir okkar bættust í hópinn við matarborðið þá var það sjálfsagt og velkomið. Þannig var mamma okkar. Svo eftir að við hleyptum heimdraganum og barnabörnin fóru að birtast eitt af öðru gladdist mamma jafn innilega yfir hverju og einu. Hennar líf og yndi var fjölskyldan sem hún sinnti af kostgæfni.

Nú þegar komið er að leiðarlokum er innilegt þakklæti okkur efst í huga. Hvíl í friði elsku mamma og takk fyrir allt.

Fyrir hönd okkar bræðra.

Þorkell.

Elsku mamma! Það er komið að kveðjustund.

Það er skrítið að hugsa til þess að samfundir og kaffistundir með þér, þar sem fjallað er um daginn og veginn hins gamla og nýja tíma, séu nú minningin ein. Í gamla daga komu leikfélagar og vinir okkar systkinanna iðulega heim með okkur að spila og leika. Gjarnan var drekkutími og jafnvel morgunmatur innifalinn í heimsókninni og ævinlega tókst þú vel á móti öllum. Engu skipti þótt fjölgað hafi verulega í kringum borðið og eldhúsbekkurinn orðinn yfirfullur, alltaf var pláss fyrir eitt barn enn hjá þér. Allar götur síðan hefur verið múgur og margmenni í kringum þig og þú verið að metta munna og gera öðrum gott.

Það var ætíð í mörg horn að líta á stóru heimili en alltaf gafstu þér tíma til að fylgjast með öllum meðlimum stórfjölskyldunnar. Þannig hafðir þú alla þræðina í þinni hendi og vissir hvað var að gerast hjá hverjum og einum og gast miðlað upplýsingum á báðar hendur.

Þegar litið er aftur í tímann þá er sterk minningin um þig og söng. Þú hafðir svo undurfallega og mjúka söngrödd og við sem á hlýddum gátum ekki annað en hrifist af. Þú kunnir marga dægurlagatexta utan að og lög sungin af Ellý Vilhjálms, Erlu Þorsteins og Hauki Morthens voru ofarlega á vinsældalista þínum. Söngur þinn hljómaði við heimilisverkin eða fyrir okkur krakkana eða jafnvel við gítarleik þinn.

Ófáar ferðir fórum við systur með þér í bæinn, m.a. á Laugaveginn og eins í verslunarmiðstöðvar. Var þá bæði farið til að skoða mannlífið og þá ekki síður til að kíkja í búðir og finna eitthvað til kaups og auðvitað var það mikill bónus og gleðiauki ef varan var á hagstæðu tilboði eða ríflegum afslætti. Þú varst mikill fagurkeri og elskaðir að kaupa eigulegar jóla- og afmælisgjafir. Sérstaklega varstu upptendruð þegar þú varst að velja barnaföt á ömmu- eða langömmubörnin þín.

Elsku mamma, það er mikið tómarúm sem þú skilur eftir þig og sannarlega skarð fyrir skildi. Þín er og verður sárt saknað en minningin um góðmennsku þína, gæsku og gjafmildi mun ætíð lifa með okkur.

Þínar dætur,

Áslaug, Rannveig og Berglind.

Erla Sæunn var undir fertugu þegar ég kynntist henni. Áhugi minn á frumburði hennar, Áslaugu, þróaðist á þann veg að Erla varð tengdamóðir mín. Hún var hlý kona, umhyggjusöm og fórnfús. Með árunum og ferðalögum saman innanlands og erlendis birtist svipmót tónelskrar, söngglaðrar konu sem spilaði á gítar og heillaði alla nærstadda með söng sínum og persónuleika. Hún var óendanlegur brunnur þekkingar á ljóðasöngvum – sem yfirfærðist á börnin öll. Þau hjónin lögðu mikið upp úr að afkomendur stunduðu tónlistarnám.

Fyrsta heimsókn þeirra hjóna til okkar í Uppsölum í Svíþjóð var árið 1979.

Ókum við til Póllands á sama tíma og heimsókn Jóhanns Páls páfa II stóð yfir. Það var að mati Erlu ferð sem aldrei gleymist; vöruskortur utan þess svæðis sem páfinn fór um, allur áfengur vökvi ófáanlegur, bara „pepsi polski“. Sérstakt andrúmsloft spennu umlukti landið, og þau Erla og Guðmundur voru tekin afsíðis af landamæraverði, vopnuðum, sem tók til við að telja íslensku seðlana er voru meðferðis og virtust þau vera efnaðasta fólkið sem þá heimsótti landið, að páfanum undanskildum. Mér blöskraði óskammfeilnin og hundskammaði því vopnaðan vörðinn – á íslensku – og sleppti hann þeim samstundis. Hlyti að vera merkisfólk og hafði hann þar rétt fyrir sér.

Árum síðar ókum við koparveginn svokallaða, til Røros í Noregi, og svo allan Guðbrandsdalinn. Erla Sæunn lék á als oddi í tjaldferðalaginu. Eitt skipti og líklega það fyrsta þar sem hún tók sér „frí“ frá jólahaldi heimilisins lét hún tilleiðast að dvelja í Uppsölum jóladagana og sækja miðnæturmessu í hinni dásamlegu dómkirkju Uppsala, þar sem angan reykelsa, ilmvatna og portvíns blandaðist saman í upphafinn ilm. Hún sagði þessi jól hafa verið hina mestu hvíld er hún nokkru sinni hefði upplifað. Gagnvart okkar syni, Stefáni, var hún klettur öryggis og nærgætni – í betri höndum var ekki hægt að hugsa sér barnið, aldrei var óhentugt að taka á móti honum, og er hann óendanlega þakklátur fyrir, eins og við hjónin.

Tengdamamma gat verið skemmtilega þrjósk. Hún ók yfirbyggðum Willys-jeppa, og kunni vel við einfalt og sterkt farartækið. Í fyrsta bíltúr í nýjum bíl þeirra hjóna varð henni á að skella hurðinni eins og það væri þung hurð á bláa Willysnum, þótti maka hennar það einum um of. Svaraði hún þá að þessum nýja bíl skyldi hún aldrei aka nema hurðalausum og stóð við það.

Sönggyðjan dýrasta drottning

djásn meðal lista

yndi hún öllum gefur

er á vilja hlusta.

Uppspretta lífsins linda

ljúft er þeirra að njóta

því sönggyðjan dýrasta drottning

er djásn meðal lista.

(Vigdís Einarsdóttir)

Eftir stendur minnið um hlýja tengdamóður sem hlustaði af yndi á Mariu Callas syngja „La mamma morta“ og táraðist af tilfinningaþunga þess er skynjar með hug og hjarta blæbrigðin, dýptina og einlægnina sem talar til þeirra eiginleika sem hún var svo ríkulega gædd sjálf. Við kveðjum hana með söknuði og virðingu, vottum eiginmanni og börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum samúð.

Stefán F. Hjartarson.

Elsku besta amma okkar.

Takk fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Þið afi hafið fært okkur mikið.

Okkur systkinunum eru svo minnisstæð öll jólaboðin sem þið hélduð á Álfhólsveginum. Þar hittum við allt fólkið okkar, sem þá var stór hópur, og er núna enn stærri.

Þú varst dugnaðarforkur sem ólst af þér níu börn og frá þeim hefur sprottið fjöldinn allur af afkomendum. Við erum þér og afa ævinlega þakklát fyrir að vera umvafin öllu þessu góða fólki.

Elsku amma, takk fyrir allt og allt.

Ívan Örn, Ingi Hrafn, Erla María, Ísak Freyr og fjölskyldur okkar.

Elsku amma í Kóp.

Faðmur þinn var alltaf opinn. Þú hugsaðir vel um alla þína fjölskyldu. Við áttum alltaf samastað hjá þér og pláss við matarborðið hjá þér. Að fylgjast með þér í eldhúsinu töfra fram dýrindismat, raula dægurlög á meðan og rifja upp æskuna er hlý minning. Heitur matur í hádeginu var nokkuð sem þú klikkaðir ekki á, steikti fiskurinn þinn, hakkið og spagettíið, sunnudagssteikin og margt fleira. Þú kenndir okkur réttu tökin og við græddum á því. Ríkisútvarpið ómaði í Jörfalindinni og munu þær raddir og þau lög sem hljóma þar ætíð minna okkur á þig. Þér fannst skemmtilegast að gleðja aðra í kringum þig og sást oftar en ekki til þess að við værum vel tilhöfð. Södd og sæl í nýjum og fínum fötum með bros á vör, þökk sé þér.

Mikið vorum við heppin að fá að hafa þig sem ömmu okkar.

Við minnumst þín með gleði í hjarta og fundum eitt fallegt ljóð eftir Halldór Jónsson til þín.

Kveðja til ömmu

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlétst okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði Guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

Við elskum þig amma.

Guðrún Helga, Rannveig Erla, Guðmundur Grétar og Magnús Máni Magnúsarbörn.

Elsku amma mín. Þú varst meira en amma fyrir mig, þú varst mér eins og móðir. Það er sárt að hafa ekki getað verið hjá þér síðustu daga þína eins og þú varst ávallt við mína hlið á uppvaxtarárum mínum á Íslandi. En ég var hjá þér í hug og hjarta og mun minnast þín og okkar stunda saman.

Óteljandi voru strætóferðirnar og heimsóknir til vandamanna. Labbitúrar og búðaráp hönd í hönd. Eða heima hjá ykkur á Álfhólsveginum að hlusta á útvarpið, elda hádegismatinn fyrir alla karlana. Og á kvöldin að telja bíla í mismunandi litum. Allar stundirnar með þér, afa og Bigga frænda og öllum öðrum sem komu í heimsókn. Heimili ykkar var alltaf opið og gestrisni ríkjandi.

Ég er þakklátur fyrir tímann sem við fengum saman með konu minni, Aidu, og syni okkar, Santino, sem þér leist svo vel á. Tilfinningin var sú að það væri í síðasta sinn sem ég fengi tækifæri til að faðma þig og ræða saman.

Takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig. Ég elska þig amma mín og mun ávallt sakna þín.

Stefán F. Stefánsson.