Finnur Thorlacius Eiríksson
Finnur Thorlacius Eiríksson
Kynslóðir sem hafa ánetjast „brauði og leikjum“ eru veikburða kynslóðir. Síðustu þrjár kynslóðir Vesturlandabúa hafa borið þess merki.

Finnur Thorlacius Eiríksson

Rómverska skáldið Juvenal skrifaði eitt sinn að almenningur vildi „brauð og leiki“. Í daglegu tali er þetta orðasamband oftast notað til að lýsa hrokafullri afstöðu valdhafa til almennings. En það var ekki inntakið í texta Juvenals. Öllu heldur var hann að kvarta undan því að eftirsókn almennings í „brauð og leiki“ væri á kostnað samfélagslegs stöðugleika og öryggis.

Áhyggjur Juvenals voru ekki að tilefnislausu. Samfélagið hvílir á viðkvæmum hugmyndafræðilegum stoðum sem krefjast stöðugs viðhalds, annars grotna þær niður. Orð Juvenals voru því skírskotun í skeytingarleysi almennings gagnvart því sem raunverulega skiptir máli.

Veikburða kynslóðir

Það segir sig sjálft að kynslóðir sem hafa ánetjast „brauði og leikjum“ eru veikburða kynslóðir. Síðustu þrjár kynslóðir Vesturlandabúa hafa borið þess merki. Úr þeirra jarðvegi hefur ýmist sprottið skeytingarleysi eða neikvæðni gagnvart grunnstoðum vestrænnar siðmenningar. Sífellt fleiri virðast eiga erfitt með að skilja mikilvægi menningararfs, varnarmála og rótgróinna gilda í heilbrigðu samfélagi.

Þvert á móti virðast þessir sömu einstaklingar vinna markvisst að því að grafa undan grunnstoðum samfélagsins. Þeir sem telja sig vera arftaka mannréttindabaráttu 20. aldar keppast við að finna vestrænni menningu allt til foráttu. Þeir láta sér ekki nægja neikvæðni gagnvart því sem flestir eru sammála um að hafi verið neikvætt, til dæmis nýlendustefnu og þrælahaldi. Í raun er ekkert óhult fyrir þráhyggjukenndu endurmati þeirra. Sígild vestræn bókmenntaverk, tónlistarstefnur og jafnvel grunnskólafög hafa í auknum mæli hlotið fordæmingu hinna sjálfskipuðu réttlætisriddara.

Sjónarhorn annarra menningarheima

Þessi þróun hefur gengið svo langt að jafnvel menntastofnanir og fjölmiðlar reyna að telja samfélaginu trú um að menningarlegt niðurrif sé einhvers konar dyggð. Það er ekki að ástæðulausu að þessi iðja hefur verið kölluð „dyggðaskreyting“ (e. virtue signalling).

En lítur fólk frá öðrum menningarheimum á þessa iðju sem dyggð? Auðvitað ekki. Þvert á móti sér það sjálfshatur Vesturlandabúa sem veikleika. Þótt fjöldi innflytjenda sæki í efnislega velmegun Vesturlanda hafna þeir að sama skapi vestrænni menningu. Hver getur álasað þeim fyrir það? Hvers vegna ættu innflytjendur að vilja aðlagast samfélagi sem fyrirlítur eigin sögu og arfleifð?

Lokaorð

Menningarlegt niðurrif er svo sannarlega ekki dyggð. Raunar er það bara enn eitt dæmið um „brauð og leiki“. Það verður einungis tímabundinn munaður að geta leyft sér að níða niður eigin menningararfleifð. Nú steðja utanaðkomandi ógnir að Vesturlöndum, ógnir sem krefjast uppbyggingar en ekki niðurrifs. Ef Vesturlönd eiga að standast þessar ógnir mun sterk kynslóð þurfa að rísa upp og stöðva þessa óheillaþróun. Það er ekki spurning um hvort það verður heldur hvenær.

Höfundur er nemi í málvísindum.

Höf.: Finnur Thorlacius Eiríksson